18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

41. mál, söluskattur

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir hans jákvæðu undirtektir. Ég sé að við erum út af fyrir sig sammála í þessu máli. Það er alveg rétt sem hann segir og við skiljum það báðir þannig að stefna núverandi ríkisstjórnar sé að fækka undanþágum og þar af leiðandi stefnir þetta kannski að vissu leyti í sömu átt. Mér fannst af upptalningu fjmrh. á þeim málaflokkum þar sem þessari heimild hefði verið beitt að menn hlytu að sjá að þarna er um auðugan garð að gresja. Þessar heimildir hafa verið notaðar mjög víðtækt og það hlýtur enn á ný að vekja upp spurninguna um túlkunina, að þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi geti ráðherra beitt þessari heimild. Ég held að upptalningin á því sem hann kallaði veigamestu undanþágurnar sýni að þessi lagagrein er of víðtæk til þess að Alþingi geti sætt sig við hana. Um þetta finnst mér kannski að við fjmrh. séum sammála.

Hann flytur hins vegar þau boð inn í þingið að lögfræðilegir ráðunautar hans telji að nokkur vandkvæði séu á málinu vegna þess að ef heimildin sé felld úr lögum kunni svo að vera að söluskattur komi aftur á allar þær vörur og þjónustu sem heimildin hefur verið notuð til að fella söluskattinn af. Ég er í öllum grundvallaratriðum ósammála því. Ég held að það sé alveg ljóst í okkar landi að lög geta ekki orðið afturvirk á þann hátt. Það er alveg ljóst að Alþingi hefur samþykkt heimild til ráðherra á þennan hátt. Á því leikur enginn vafi. Sú lagaheimild hefur verið í lögum. Það er líka ljóst að ráðherrar ýmsir hafa notað þessa lagaheimild. Þeim hefur verið það fyllilega löglegt. Það hefur verið lögmæt stjórnarákvörðun sem þeir hafa tekið samkvæmt þessari heimild. Þess vegna hafa þær undanþágur sem hingað til hafa verið veittar verið lögmætar og hljóta að vera í gildi og í samræmi við þau lög sem voru í gildi þegar undanþágurnar voru veittar.

Ég get þess vegna alls ekki — og er reyndar leikmaður í lagatúlkun — fallist á að unnt væri að skilja það svo að þessar undanþágur féllu úr gildi. Þá værum við að tala um afturvirk lög vegna þess að undanþágurnar eru samkvæmt lögum sem í gildi eru. Út af fyrir sig eru ekki nein vandkvæði á þessu máli vegna þess að eins og fjmrh. veit hefur hann lista yfir alla þessa hluti sem ekki er söluskattur á og undanþágan hefur verið notuð til. Það er langtum einfaldara fyrir okkur hér á þinginu að fá það einfaldlega inn í lagagrein, ef það væri tekið inn í nefndarvinnu, en að leita að því í ýmsum ritum til að finna út í reglugerðum hvar þetta er og hvar ekki. Einfaldur listi yfir þetta gæti hreinlega komið með, felldur inn í söluskattslögin, og þar með væri heimildin úr sögunni sem slík. Ég ítreka það að ég er ekki sammála þessum skilningi lögfræðinganna, alls ekki. Og ég tel að úr þessu, ef menn vildu taka af tvímæli, væri þarna ekki um nein vandkvæði að ræða.

Enn á ný ítreka ég að það sem um er að ræða með flutningi frv. er út af fyrir sig ekki bara það sem frv. fjallar beint um, heldur tel ég alveg nauðsynlegt að sú skoðun mín komi hér fram á þinginu með flutningi þess að valdaframsal Alþingis til ríkisstjórnar og ráðherra hefur gengið of langt að undanförnu og ég tel alveg nauðsynlegt að Alþingi við lagasetningu í framtíðinni endurskoði þá afstöðu sína.