18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

41. mál, söluskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hér er frv. sem ég er ekki alveg viss um að sé eins mikil hreinsun og hv. flm., 10. þm. Reykv., lætur skína í. Ég hef ekki langa reynslu sem ráðherra í störfum, en hún er þó nægjanleg til þess að ég vil nota hana til að vara hv. alþm. við því að embætti ráðherra verði ekki það trúnaðarembætti sem það hefur verið að mínu mati, að sníða ráðherrum ekki það þröngan stakk í störfum að þeir geti ekki verið ráðherrar, þeir hafi ekki svigrúm til þess að láta sína persónu endurspeglast í sínum embættisverkum, að lagabókstafurinn geri viðkomandi ráðherra, hversu hæfir sem þeir eru eða hversu vanhæfir sem þeir eru, að sama tréhestinum, að hann hafi ekki svigrúm til að hreyfa sig. Mitt mat á þeim sem ráðleggja ráðherrum er að ráðherrar hafa yfirleitt mjög hæft, gott og samviskusamt fólk til að ráðleggja sér. Ef upp koma einhverjar þær aðstæður sem ráðherra metur sérstakar og kalla á afbrigðilegar afgreiðslur frá kannski daglegum störfum hafa þeir ráðgjafa sem þeir fara eftir. Það er mitt mat á þeim ráðherrum og því starfi sem ég hef kynnst í ráðherradómi.

Það eru margar þær aðstæður sem kalla á afbrigðilegar afgreiðslur hjá ráðherrum í öllum ráðuneytunum, það eru ekki bara í fjmrn. En það er kannski mest legið á fjmrn., ekki bara af fólki sem er í vanda og þarf að sækja til fjmrh., heldur frá öðrum ráðherrum líka sem hafa afbrigðilegar afgreiðslur að færa fram til þess að geta gegnt starfinu betur fyrir land og þjóð.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég treysti hæstv. núv. fjmrh. og ég treysti hæstv. fyrrv. fjmrh. fullkomlega til þess að taka vitrænar ákvarðanir undir þeim bókstaf sem hér stendur ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Það er ekki þar með sagt að neinn af þessum hæstv. ráðherrum treysti mér til þess að gera það. Þetta er svo einstaklingsbundið. Mín skoðun var sú þegar ég var fjmrh. að ég væri þjónn fólksins og að embættið væri öllum opið, hvenær sem var. Það er ekki víst að allir séu þeirrar skoðunar. Það er persónan sem gegnir embætti hverju sinni sem verður að hafa svigrúm til þess að setja sinn svip á daglegar afgreiðslur. Mál eru að koma upp, eins og hjá fyrirtækjum, frá einum klukkutíma til annars, með þarfir fyrir mismunandi afgreiðslumáta. Það stendur svo mismunandi á hjá einstaklingum eða fyrirtækjum sem leita til opinberra aðila. Að ætla að setja ráðherra í hvaða embætti sem er í þá stöðu að geta bókstaflega ekki tekið ákvörðun — hann verður bara að segja: Ja, lagabókstafurinn gerir mér ekki kleift að starfa eins og ég álít að sé best og mín samviska býður mér.

Ég skil ekki í því að neinn ráðherra, hvorki fjmrh. eða aðrir, hafi tekið ákvörðun sem hann ekki hefur lagalega heimild til að taka. Það tekur enginn ráðherra ákvörðun fyrr en hann hefur kynnt sér í gegnum ákaflega hæfa embættismenn hvort hann hefur heimild eða ekki heimild til að gera það sem hann vill gera til þess að afgreiða mál á þann hátt sem hann telur kannski ekki alltaf æskilegast heldur nauðsynlegast. Það fer ekki alltaf saman vegna þess að þarfirnar eru svo einstaklingsbundnar. Ég man t.d., þegar ég sat í borgarstjórn og við vorum að afgreiða skattamál einstaklinga þar, að borgarritarinn þáverandi — mig minnir, þó veit ég ekki hvort ég fer rétt með það, að hv. flm., 10. þm. Reykv., hafi verið í borgarráði eða í borgarstjórn á þeim tíma — sat og lagði saman hvað tillögur mínar höfðu kostað borgina frá einum fundi til annars í niðurfellingu á gjöldum á fólki, fátæku fólki sem réð ekki við skattana sína eða útsvörin vegna veikinda og af mörgum ástæðum. Það er oft sem fyrirvinnan fellur frá vegna veikinda og getur ekki skaffað sínu fólki nauðsynjar, hvað þá staðið í skilum með skatta eða útsvör af tekjum síðasta árs, árs sem hann var fullfrískur og vann mikla eftirvinnu. Þá verður að vera svigrúm fyrir embættismenn til að taka ákvörðun með tilliti til sérstakra aðstæðna og þetta er ekkert öðruvísi hjá ríkinu. Það er ekkert öðruvísi á svo mörgum sviðum.

Ég hélt því fram þegar ég var fjmrh. að það væri allt of mikið af heimildum á mörgum sviðum til handa ráðherra, en það má passa sig á að fara ekki í hina áttina í öfgum, að gera ráðherra að einhverjum tréhesti eins og ég sagði áðan, þannig að hann hafi ekki svigrúm til þess að hans persóna endurspeglist í embættisverkum hans. Síðan verður hann, eins og ég og fleiri, að taka afleiðingum af sínum gjörðum, af sinni ákvarðanatöku, en ég fullyrði að ráðherra hafi aldrei tekið ákvörðun án þess að hafa heimild til þess.