18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

53. mál, umboðsmaður barna

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir var á þskj. 4 og var fjórða mál síðasta þings og er nú flutt öðru sinni. Er það var lagt fram í fyrra voru meðflm. mínir hæstv. núv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir, hv. fyrrv. þm. Kristín S. Kvaran og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

Af ástæðum sem ekki þarf að kynna eru meðflm. mínir nú aðrir, en þeir eru hv. þm. Arni Gunnarsson og reyndar er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson jafnframt flm. nú.

Frv. þetta hlaut nokkra meðferð á síðasta Alþingi. Það var sent til umsagnar allvíða og umsagnir bárust og voru margar jákvæðar enda urðu hv. þm. varir við áhuga á þessu máli. Ég hef kosið að birta kafla úr umsögnum í þskj. svo að menn geti kynnt sér hvað hinir ýmsu aðilar höfðu um frv. að segja sem ég að sjálfsögðu gerði mér grein fyrir að menn kynnu að gera brtt. við.

Eins og fram kom í ræðu minni á síðasta þingi er þetta frv. sniðið að nokkru eftir norsku lögunum um umboðsmann barna en sniðið að nokkru að staðháttum hér í okkar landi. Eins og fram kemur í umræddri ræðu frá síðasta þingi vil ég enn geta þess að hv. þáv. þm. Haraldur Ólafsson var mjög hjálplegur við samningu frv. og þakka ég enn framlag hans til þess.

Vegna þess að hér eru allmargir nýir hv. þm. held ég að nauðsynlegt sé að renna aðeins augum yfir greinar frv. Ég skal þó mjög reyna að stytta mál mitt og vísa þá frekar til þeirrar ræðu sem ég flutti við framlagningu frv. á síðasta ári sem finna má á bls. 94 í 1. hefti Alþingistíðinda 1986.

Meginefni frv. er að sett verði lög til að tryggja réttindi barna í samfélaginu og að tillit sé tekið til hagsmuna þeirra við löggjöf og aðrar stjórnvaldsákvarðanir. Í því skyni er gert ráð fyrir að sett verði á stofn embætti umboðsmanns barna og frv. gerir raunar ráð fyrir að sá embættismaður sitji í dómsmrn. Nokkur gagnrýni hefur komið fram á þá hugmynd, og vitaskuld erum við flm. fullkomlega fúsir til að hlusta á þá gagnrýni og samþykkja breytingar ef menn óska.

Ástæðan til þess að við töldum rétt að embættið yrði þar staðsett var í raun og veru gömul og góð íslensk sparsemi. Við vorum hrædd við að leggja til nýtt sjálfstætt embætti sem krefðist eigin húsakynna, ritara, tækja og annars slíks. Það kynni að verða til þess að tefja og jafnvel fella frv. Ég er hins vegar efnislega sammála því sem ýmsir umsagnaraðilar hafa sagt, að æskilegast sé að þessi embættismaður sé algjörlega sjálfstæður. Menn hafa stungið upp á þeirri breytingu að hann eigi frekar heima á vegum barnaverndarráðs og ég skal aðeins víkja að athugasemdum mínum við það hér síðar.

Þá gerir frv. ráð fyrir því að dómsmrh. skipi sjö manna ráð til fjögurra ára í senn sem skuli verða umboðsmanni til ráðgjafar eftir tilnefningu ákveðinna aðila sem voru eftir vandlega yfirferð valdir eins og segir í frv. En auðvitað gildir sama um það og hvar umboðsmanninum yrði valinn staður: Vitanlega erum við fús til þess að taka við brtt. um hvaða aðilar eigi að hafa þarna fulltrúa.

Ýmsir hafa gert athugasemd við og óttast að frv., ef að lögum yrði, mundi skarast við lög um vernd barna og unglinga og yrði erfitt að sjá hvor aðilinn ætti að annast þau atriði sem hér er sérstaklega lögð áhersla á, þ.e. að hafa augun á stjórnvaldsaðgerðum og hver áhrif þær hafi á réttindi og aðstöðu barna í samfélaginu.

Það er að vissu leyti rétt að til eru atriði sem er að finna í báðum lagabálkunum en ég held að hvert mannsbarn í þessu landi viti að Barnaverndarráð Íslands hefur um árabil svo til eingöngu fengist við að leysa úr flóknum og erfiðum einkamálum sem barnaverndarnefndir hafa orðið að vísa til ráðsins. Barnaverndarráðsmenn vita það mætavel sjálfir að þeir hafa haft lítið afl til að annast aðra þætti barnaverndarmála svo sem eins og einmitt þá sem hér er um getið. Nákvæmlega sama reynsla var fyrir hendi í Noregi og er raunar ástæðan fyrir því að frv. kom fram um sérstakan umboðsmann barna sem ætti fyrst og fremst að huga að stöðu barna í samfélaginu almennt. Vitanlega yrði slíkur embættismaður að taka við hvers kyns kvörtunum og erindum sem til hans bærust, frá einstaklingum jafnt sem sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum slíkum, en það er skýrt tekið fram í grg. með frv. að þessum umboðsmanni er ekki ætlað að vinna sjálfum faglega að lausn vandamála. Hann mundi hins vegar geta vísað þeim sem í einhverjum vandkvæðum eiga til réttra aðila og verið til styrktar því að sá fengi lausn sinna mála. Þess vegna er engin krafa gerð um það að fagfólk í barnaverndarmálum yrði ráðið í sambandi við þetta embætti ef að lögum yrði.

Embætti umboðsmanns barna hefur áður verið nefnt hér á hinu háa Alþingi þó að ekki yrði úr því fyrr en á síðasta ári að lagt væri fram frv. um stofnun þess. Eins og segir í grg. fluttu þm. Alþfl. árið 1978 till. til þál. um umbætur í málefnum barna í tilefni barnaárs og í grg. með henni var m.a. lagt til að slíkt embætti sem hér er lagt til yrði stofnað. Fyrsti flm. þessarar till. var Árni Gunnarsson, hv. þm., en till. varð ekki útrædd. Hv. þm. hefur nú sýnt mér þessa gömlu till. og við fórum lauslega yfir hvað hefði verið gert varðandi þau atriði sem hann þar taldi upp, sem eru fjölmörg, og ég get ekki betur séð en sama ástæða sé í dag til að leggja þær till. fram.

Sannleikurinn er nefnilega sá að það hefur verið ákaflega erfitt að fá hið háa Alþingi til að taka málefni barna alvarlega. Ég held þó að menn séu í æ meira mæli að opna augun fyrir því hvernig staða barna er í raun og veru í íslensku þjóðfélagi. Ég hika ekki við að segja að aðstaða barna sé verri núna, að börn hafi verri uppeldisskilyrði í þessu velferðarþjóðfélagi sem við nú lifum í en þau höfðu fyrir við skulum segja 20–30 árum. Ég held að það geti ekki verið æskileg aðstaða til þroskandi uppeldis að börn séu meira og minna alein heima daglangt meðan foreldrar vinna langt fram á kvöld báðir tveir, og helsta iðja þessara barna er e.t.v. að horfa á útlent myndbandaefni, oftlega ekki einu sinni með íslenskum texta. Þessi börn koma úr skólanum, 6–10 ára gömul, stuttu eftir hádegi og hafa engan við að tala fyrr en einhvern tíma seint á kvöldin. Þetta held ég að séu ekki æskileg uppeldisskilyrði. Vinnudagur foreldra er allt of langur, dagvistunarrými allt of fá, skóladagheimili og dagvistarstofnanir fullkomlega ófærar um að sinna þeim þörfum sem börnin eiga rétt á, skólakerfið hvergi nærri nógu gott og svona mætti lengi telja.

Ástæðan fyrir þessu kann að vera sú að börn séu samkvæmt hinu harða gildismati þjóðfélagsins óarðbærir þegnar þess og sama gildir um gamla fólkið, og það skyldi nú aldrei vera þess vegna að einmitt þessir hópar hafa orðið úti í hinu nýja þjóðfélagi. Við skulum ekkert horfa fram hjá því að breytt staða kvenna í þjóðfélaginu hefur einnig haft gífurleg áhrif. Það er löngu kominn tími til að við konur horfumst ískalt í augu við að þegar gerð er grundvallarbreyting, ef við viljum ekki kalla það byltingu, á stöðu karla og kvenna í þjóðfélaginu, eigum við að þora að líta á þær hliðarverkanir sem það hefur haft. Margt hefur unnist vel í þeim efnum en ýmislegt hefur orðið eftir og aðrar breytingar hafa ekki orðið samferða hinum.

Ég skal, herra forseti, reyna að stytta mál mitt. Ég get notað ræðutíma minn aftur ef þetta mál skyldi koma úr nefnd og koma til 2. umr. Sá tími kemur að þau börn sem nú eru að vaxa úr grasi á Íslandi verða arðbært atvinnuafl og svo kann að fara að þegar vinnuafl fer að vanta í þjóðfélaginu vakni menn til vitundar um að ekki hafi verið gætt sem skyldi uppvaxtarskilyrða þeirra barna sem nú eru að alast upp. Ég held að við hér á hinu háa Alþingi ættum að reyna að taka í taumana. Það er tómt mál að tala um þjóðfélag þekkingarinnar, ný atvinnutækifæri, eins og menn hafa kosið að kalla það, nýjar atvinnugreinar og allt hvað heiti hefur ef við sinnum ekki þeirri grundvallarskyldu okkar að rækja þá einu sönnu menntun sem hlýtur að vera undirstaða alls þess sem síðar kemur, sem er uppeldi fyrstu ára barnanna og þeirra viðkvæmustu. Ég held að það veiti ekkert af að einn embættismaður með kannski nokkrum öðrum starfsmönnum hafi það embætti eitt og sér að koma í veg fyrir að hver stjórnvaldsaðgerðin eftir aðra verði beinlínis börnum landsins til skaða og verra lífs.

Í Noregi hefur reynslan af þessu embætti verið mjög góð. Þar hafa ekki komið upp þau vandamál sem ýmsir óttast, að embættismaður barna komi inn í störf barnaverndarnefnda og barnaverndarráða. Þvert á móti hefur sá embættismaður, sem er kona, einbeitt sér að því að líta á samfélagið í heild og aðstöðu barna almennt. Og það er það sem þessum embættismanni er ætlað að gera. Ég held að því fé væri vel varið sem lagt væri í að bæta hag barnanna í þessu samfélagi. Okkur hættir stundum til að horfa á einstaka þætti samfélagsins en hirðum minna um að líta á þróun mála í heild. Ég vil þess vegna eindregið skora á hv. þingheim að skoða vel hvað fyrir okkur flm. vakir með þessu frv. og veita því brautargengi á því þingi sem nú stendur yfir.

Ég skal ljúka máli mínu að sinni, herra forseti.