18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

53. mál, umboðsmaður barna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tek sannarlega undir síðustu orð hv. síðasta ræðumanns og ég þakka hv. flm. fyrir að flytja þetta mál og gefa þar með tilefni til umræðu um málefni barna sem svo sannarlega mætti vera oftar á dagskrá.

Ég þakka einnig hv. 1. flm. fyrir framsögu hennar sem var fróðleg og áminnandi. Enn þá fróðlegri og enn þá meira vekjandi var hún reyndar á síðasta þingi þegar flm. mælti í fyrsta sinn fyrir þessu máli, en hana má lesa í þingtíðindum.

Ég tek undir flest af því sem hún sagði. Það var eitt atriði sem snart mig á vissan hátt þar sem hún vék að því hvað foreldrar væru hart keyrðir af vinnu og teygðir út af heimilunum og hvatti okkur konur til að horfast með ísköldu augnaráði, ef ég man rétt, í augu við ýmsar þær hliðarverkanir sem aukin atvinnuþátttaka kvenna hefur. Það er vissulega ágætt og þarft að brýna konur. Það veitir kannski ekki af því. Ég vil þó meina það að flestar konur horfa með mjög ísköldu augnaráði á þessar staðreyndir og gera sér fyllilega grein fyrir afleiðingum þessa. Þær hafa sannarlega ekki látið sitt eftir liggja að reyna að vekja athygli á þessu ástandi og hvetja til þess að þjóðfélagið og ráðamenn taki á þeim vandamálum sem fylgja aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Ég held að konur geri sér þetta almennt ljóst, það séu aðrir sem þurfi að skerpa sjónirnar frekar. Við megum ekki gleyma því að mjög margar konur hafa ekkert val um það hvort þær eru heima hjá ungum börnum eða eldri börnum. Þær einfaldlega verða. Og það er þessu þjóðfélagi til lítils sóma hvað það hefur lítið komið til móts við þarfir fjölskyldunnar vegna þessa.

Ég sagði fáein orð um þetta mál sem er á dagskrá þegar það kom fyrir á síðasta þingi og hef raunar ekki miklu við það að bæta. Við kvennalistakonur höfðum velt þessum málum mjög mikið fyrir okkur og vorum raunar að leita leiða til þess að ná þeim sömu markmiðum og stefnt er að með þessu frv., en hugmyndir þess hóps, sem mest hefur fjallað um þessi mál, höfðu beinst í nokkuð annan farveg en ætlað er með því frv. sem hér er fram borið, raunar meira í þann farveg sem hæstv. dómsmrh. vék að í orðum sínum áðan.

Ég gerði örlitlar athugasemdir við frv. á síðasta þingi um leið og ég tók heils hugar undir þau markmið og sjónarmið sem koma fram í því. Ég fagnaði framlagningu frv. þá og geri það enn. Í umsögnum, sem birtar eru í fylgiskjali með frv. og eru einmitt þarfar og upplýsandi, má lesa athugasemdir sem eru einmitt samhljóða mörgu af því sem við höfðum verið að velta fyrir okkur. Ég bendi sérstaklega á það, sem raunar hefur komið fram áður, að í umsögn barnaverndarráðs kemur fram það álit þess að það þurfi sérstaklega að huga að því hvernig hlutverk umboðsmannsins samræmist núgildandi lögum um barnavernd. Ég tek undir það og veit að sjálfsögðu að svo muni verða gert í nefnd.

Það er hér framhaldsumsögn frá barnaverndarráði þar sem kemur fram hvaða breytingar ráðið telur þurfa að gera á frv. og þar er sérstaklega ítrekað að það þurfi að marka skýrt stöðu og verkefni umboðsmanns og athuga lög um vernd barna og ungmenna til samræmis við lög um embætti umboðsmanns barna. Það kemur einnig fram í umsögn Félags háskólamenntaðra uppeldisfræðinga að félagið vill leggja áherslu á sjálfstæði þessa embættis ef af verði og undir það vil ég einnig taka.

Það er kannski ekki rétt álit og markast e.t.v. af einhverri tilfinningasemi eða áhyggjum út af stærð þessa máls, en það hvarflar að manni að þetta væri fullkomlega ofviða einni manneskju með þennan titil, þetta væri verkefni sem heilli deild bæri að starfa að, og enn fremur læðist að manni sú hugsun hvort með stofnun embættis af þessu tagi drægi e.t.v. úr því að hv. þm. t.d. veltu þessum málum fyrir sér. Þeir hefðu e.t.v. tilhneigingu til þess að treysta á þetta embætti og héldu ekki vöku sinni á sama hátt og þeim ber að gera.

Þessar athugasemdir má ekki taka svo að ég sé að tala gegn frv. Ég endurtek það að við erum sammála markmiðum og tilgangi frv. og væntum þess að sú umfjöllun sem það fær í nefnd verði til góðs.