23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

91. mál, jarðgangaáætlun

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem er að finna á þskj. 95, um jarðgangaáætlun. Flm. með mér að þessu máli er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan er stutt, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir yfirstandandi þing fullmótaða langtímaáætlun um gerð jarðganga.“

Í grg. með till. er vísað til tillögu sem flutt var á 107. og 108. löggjafarþingi um gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð, en þeirri tillögu var vísað samkvæmt tillögu atvmn. Sþ. þann 9. apríl 1986 til ríkisstjórnarinnar með ákveðinni umsögn.

Þessi tillaga sem upphaflega var flutt á 107. þingi af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Sveini Jónssyni var síðan endurflutt á 108. löggjafarþingi, þá af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Jóni Kristjánssyni, Sighvati Björgvinssyni, Kolbrúnu Jónsdóttur, Sverri Sveinssyni og Helga Seljan. Samkvæmt þeirri tillögu var ríkisstjórninni falið að láta Vegagerð ríkisins, í samstarfi við aðra sérfróða aðila, gera langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi í samráði við fulltrúa þingflokkanna. Í tillögunni var fjallað um það með hvaða hætti ætti að standa að vinnu við þessa áætlun og vísa ég til fskj. I á bls. 2 með till. um þá tilhögun sem þar var gert ráð fyrir.

Eins og ég gat um áðan afgreiddi atvmn. Sþ. mál þetta til þingsins 9. apríl 1986 með sérstöku nál. þar sem tekið var undir þessa tillögu, vitnað til umsagna, m.a. frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og frá Vegagerð ríkisins. Þessa umsögn er að finna sem fylgiskjal á bls. 16 með þessari þáltill.

Í umsögn Vegagerðar ríkisins kemur fram að hún sé samþykk þeirri meginhugmynd sem fram kom í tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar o.fl., þ.e. að gerð skuli langtímaáætlun um jarðgangagerð sem falli að og verði hluti langtímaáætlunar í vegagerð. Vegagerðin bendir og á mikinn kostnað við jarðgangagerð og að miðað við hina miklu þörf fyrir endurbætur á vegakerfinu sé því ekki óeðlilegt að svo dýrar lausnir sem jarðgöng eru sitji nokkuð á hakanum, eins og segir í nefndarálitinu.

Með tilvísun til þess sem að framan greinir leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta álit atvmn. skrifuðu hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Garðar Sigurðsson, Eggert Haukdal, Björn Dagbjartsson og Kristín Halldórsdóttir.

Það gerðist síðan í þessu máli eftir að því hafði verið vísað til ríkisstjórnar að hæstv. fyrrv. samgrh. Matthías Bjarnason skipaði nefnd til þess að gera tillögur um jarðgangagerð. Sú nefnd var sett á fót 6. nóv. 1986 og hennar verkefni skyldi vera að gera langtímaáætlun um jarðgöng til samgöngubóta á þjóðvegakerfi landsins. Tiltekin voru ákveðin markmið slíkrar áætlunar og verkefni nefndarinnar voru skilgreind í bréfi. Þessi nefnd vann verk sitt hratt og skilaði áliti, að vísu ekki fullmótuðu áliti, en á átta bókuðum fundum nefndarinnar var fjallað um málið og skilað var tillögum til samgrn. og þær gefnar út í sérstakri skýrslu nefndar um jarðgangaáætlun sem gefin var út í mars 1987.

Megintillögur þessarar nefndar eru birtar á bls. 16–18 í fylgiskjali með þáltill. og ég vil leyfa mér, herra forseti, að fara yfir þessar megintillögur. Það er ekki mjög langt mál, en ég tel eðlilegt að þær komi hér fram.

Ég vil þó geta þess áður en ég vík að þeim að í tillögunni, sem flutt var af Steingrími J. Sigfússyni og fleirum tvívegis hér á þingi, var alltaf gert ráð fyrir að Ólafsfjarðarmúli yrði fyrsta verkefni í langtímaáætlun um vegagerð og samkvæmt fjögurra ára vegáætlun sem fjallað var um á síðasta þingi staðfesti þingið þetta með því að ætla fjármagn til jarðganga undir Ólafsfjarðarmúla með 10 millj. kr. fjárveitingu á yfirstandandi ári og um 50 millj. kr. fjárveitingu á næstu þremur árum. Um það mál hefur verið fjallað nýlega í ríkisstjórn og staðfest að við það álit skuli staðið og ráðist skuli í þessa framkvæmd.

Í tillögum nefndar samgrn. segir svo m.a.:

„Það er niðurstaða nefndarinnar að allmörg byggðarlög verði ekki tengd við vegakerfi landsins og/eða við önnur nærliggjandi byggðarlög með fullnægjandi hætti nema með jarðgöngum, yfirbyggingum og öðrum álíka mannvirkjum.

Nefndin leggur til að byggðarlög þau, sem tengjast um eftirtalda fjallvegi, eigi að hafa forgang við slíka mannvirkjagerð, og sé röð verkefna sem hér segir:

1. Ólafsfjarðarmúli.

2. Botnsheiði og Breiðadalsheiði.

3. Fjarðarheiði og Oddsskarð.

Aðrir fjallvegir, sem nefndin hefur skoðað (Hálfdán, Hellisheiði), koma að hennar mati þá fyrst til greina með jarðgöng“ — ég vil bæta því við að hér mun átt við Hellisheiði eystra í Norður-Múlasýslu — „eða önnur álíka mannvirki þegar ofangreindum samgöngutálmum hefur verið rutt úr vegi.

Nefndin lítur á Botnsheiði og Breiðadalsheiði sem eitt samfellt verkefni. Fjarðarheiði og Oddsskarð eru á hinn bóginn tvö aðskilin verkefni, en nefndin telur ekki unnt á þessu stigi að taka afstöðu til þess hvor framkvæmdin eigi að vera á undan. Verður nánar vikið að því síðar.

Á meðfylgjandi töflu er yfirlit um lengd jarðganga og hæð yfir sjó samkvæmt þeim hugmyndum um lausnir sem liggja nú fyrir. Enn fremur er sýndur áætlaður kostnaður og verktími, svo og kostnaður á ár.“

Ég vísa til þeirrar töflu sem er í fylgiskjali á bls. 17 þar sem er að finna yfirlit yfir þessa þætti, þar á meðal kostnaðinn, en áætlaður kostnaður við gerð þeirra jarðganga sem þarna er um rætt er nálægt 4600 millj. kr. á þágildandi verðlagi og heildarlengd jarðganga samkvæmt áætluninni um 30 km. Áætlaður framkvæmdatími er 22 ár og árlegur kostnaður um 200 millj. kr.

Síðan segir í þessum tillögum: „Þær lausnir sem hér eru settar fram hafa verið valdar úr nokkrum úrbótaleiðum sem hafa verið skoðaðar lauslega og bornar saman. Lausnir þessar eiga það sammerkt að þær leysa samgönguþörf milli byggðarlaga vel en eru dýrar. Ekki má líta á þessar hugmyndir að lausnum sem neinar endanlegar tillögur um tilhögun mannvirkja. Nefndin leggur áherslu á að rannsaka þarf aðstæður allar ítarlega áður en unnt er að gera slíkar tillögur. Við þær rannsóknir beri m.a. að leita lausna sem ódýrari séu en leysi þó samgönguþarfir með viðunandi hætti.

Verktími og kostnaður“, segir í álitinu, „er hér miðaður við hefðbundna tækni í jarðgangagerð, þ.e. áfangaborun og sprengingar, eins og hún gerist best um þessar mundir. Mikil þróun hefur verið á þessu sviði undanfarið og má búast við að svo verði áfram. Mun hún væntanlega leiða til aukinna afkasta og lækkandi kostnaðar. Þá hefur ný tækni (heilborun) rutt sér til rúms undanfarið. Enn sem komið er hefur hún þó fyrst og fremst haft í för með sér aukin afköst en í minna mæli haft áhrif á kostnað. Hin nýja tækni hefur lítt eða ekki verið reynd við svo óreglulegar jarðfræðilegar aðstæður sem víðast eru á Íslandi og er því ekki ljóst hvort hún hentar hér. Það er þó skoðun nefndarinnar að fylgjast beri vel með þróun þessarar tækni og athuga nánar möguleika hennar ef ráðast á í samfellda jarðgangagerð hér á landi.

Nefndin varpar fram nokkrum hugmyndum um leiðir til fjármögnunar. Skipta má þessum leiðum í þrennt:

a. fjárveitingar á vegáætlun,

b. sérstakur skattur vegna jarðgangagerðar,

c. gjaldtaka af vegfarendum um jarðgöng (veggjald).

Það er mat nefndarinnar að skoða beri alla þessa kosti frekar og vænlegast sé að nýta þá saman til að fjármagna jarðgangagerð. Af sérstökum sköttum telur hún helst koma til greina fast gjald á hverja bifreið eða fastan orkuskatt á eldsneyti. Lántökur eru eðlilegar að því marki sem tekjur af veggjaldi geta endurgreitt þær. Vegna þess að hér er um samfellt langtímaverkefni að ræða, sem ekki skilar öðrum beinum tekjum í ríkissjóð, ættu lántökur ekki að fara fram úr því marki.

Loks vekur nefndin athygli á því að rannsókna- og undirbúningstími við jarðgangagerð er langur. Er því nauðsynlegt að ákvarðanir séu teknar með góðum fyrirvara og jafnframt sé útvegað fjármagn til rannsókna og annars undirbúnings.“

Þetta er það sem eru beinar tillögur frá þessari nefnd samgrn. og hv. þm. Matthías Bjarnason á heiður skilið fyrir það sem ráðherra að hafa brugðist svo fljótt við með skipan þessarar nefndar. Þótt tillögur hennar séu engan veginn endanlegar var það ánægjuefni að fá þetta álit svo fljótt í hendur. Nú er það þingsins að tryggja að mörkuð verði hið allra fyrsta stefna um þennan geysilega mikilvæga þátt samgöngumála.

Varðandi fjármögnun til jarðgangagerðar ætla ég ekki hér að taka afstöðu til þeirra hugmynda sem nefndin setti fram, en ég bendi á það, sem fram kemur í grg. okkar flm., að nýlega hafa verið auknar álögur og skattheimta af innflutningi bifreiða og bensíni og eðlilegt er að slíkar álögur á umferðina renni til samgöngubóta og þá sérstaklega til þess þáttar sem hér er til umræðu. Þar er um að ræða stórar upphæðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á og ákveðið með sérstökum brbl. 10. júlí sl. Það eru álögur sem nema hvorki meira né minna en nærfellt 1 milljarði kr., samkvæmt upplýsingum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar 950 millj. kr. Það sundurliðast þannig samkvæmt upplýsingum hagsýslustjóra að af svokölluðu þungagjaldi eða bifreiðagjaldi sem lagt var á með brbl. 10. júlí 1987 er áætlað að tekjur á næsta ári nemi 600 millj. kr. og af hækkun innflutningsgjalda á bifreiðar að söluskatti meðtöldum er gert ráð fyrir tekjum sem nema 250–300 millj. kr.

Þarna eru komnar 900 millj. kr. Síðan er smáhluti af bensíngjaldi og dísilgjaldi sem ætlað er að taka í ríkissjóð, 50 millj. kr. Samtals 950 millj. kr. á næsta ári vegna þessara álaga af hálfu ríkisvaldsins. Ég tel að þessum tekjum beri að skila til brýnna framkvæmda í vegamálum og þar eigi að sérmarka þær til jarðgangagerðar á komandi árum en ekki að nota slíkt til að bæta stöðu ríkissjóðs sérstaklega. Það verður að leita annarra og eðlilegri leiða til þess að mínu mati og getur þar verið af mörgu að taka.

Ég er ekki þar með að hafna þeim hugmyndum sem fram eru settar í nál. nefndar samgrn. sem ég kynnti hér áðan. Það er sjálfsagt að líta einnig á það því að hér er um fjárfrek verkefni að ræða.

Mál þetta varðar vissulega öðru fremur ákveðna hluta landsins sem eru þannig staddir landfræðilega séð að ekki verður leyst úr samgöngumálum þeirra með viðunandi hætti nema til komi jarðgöng. Þar er, fyrir utan Mið-Norðurland og Ólafsfjörð sérstaklega, þar sem ákvörðun liggur nú fyrir um jarðgöng, um að ræða Vestfirði og Austfirði. Þær tillögur sem fyrir liggja frá nefndinni held ég að falli mjög að sjónarmiðum manna í þessum landshlutum þannig að togstreita um framkvæmdaröð á ekki að þurfa að draga úr mönnum að taka ákvarðanir í þessum efnum. Ég held að Austfirðingar t.d. unni Vestfirðingum þess vel að þeir fái nefnd jarðgöng sem tillaga er um undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði, áður en röðin komi að jarðgöngum eystra undir Fjarðarheiði og Oddsskarð. Væri þó vissulega æskilegt að hægt væri að vinna á báðum þessum stöðum samtímis, en það er ekki ástæða til að ætla þingi og fjárveitingarvaldi þann stórhug í þessum efnum, enda aðalatriðið að hér verði hafist handa og unnið í samfellu að lausn þessara mála þannig að íbúar viðkomandi landshluta viti á hverju þeir mega eiga von í samgöngubótum sem varða samt landið allt, því að það er yfirlýst stefna allra flokka að því er ég best veit að landið allt skuli vera byggt og það gerist ekki nema samgöngumálin verði leyst með viðunandi hætti.

Það er búið að vinna mikið að þessum málum undanfarin ár á vegum heimamanna sem hafa lagt sig fram um að kynna sér stöðu þessara mála m.a. í grannlöndum okkar. Þekkja menn vel umræður um þessi efni varðandi jarðgangagerð í Noregi og ekki síður í Færeyjum þar sem stórvirki hafa verið unnin sem við hljótum að horfa mjög til og kannski líta menn nokkrum öfundaraugum til hvernig þar hefur til tekist. Í sérstöku fylgiskjali með þessari till., virðulegur forseti, er að finna, á fylgiskjali Ill., bls. 18, hugleiðingu um samgöngumál eftir 2. flm. þessarar till. þar sem gerð er skilmerkileg grein sérstaklega fyrir stöðu mála í Færeyjum og vísað til þeirrar reynslu sem við getum þangað sótt. Einnig eru raktar í öðrum fylgiskjölum athuganir sem fram hafa farið á Austurlandi og Vestfjörðum um þessi efni. Ég vísa til þess yfirlits sem er að finna á bls. 4 með till. um skýrslur sem fram hafa komið. En síðan hafa bæst ýmsar við, þar á meðal skýrsla samgöngunefndar Vestfjarða frá febrúar 1985 og önnur skýrsla varðandi Vestfirði, það er að vísu um Önundarfjörð, Súgandafjörð og Ísafjarðardjúp, sem er frumathugun á jarðfræðilegum aðstæðum, unnin af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins að ég hygg og gefin út í september 1985. Og enn hefur komið greinargott yfirlit frá Vestfirðingum þar sem er skýrsla um jarðgöng á Vestfjörðum eftir Björn Jóhann Björnsson, jarðfræðing og verkfræðing, gefin út af Byggðastofnun nýverið. Þannig liggur gott yfirlit fyrir um þessi mál, tiltölulega gott varðandi Vestfirði, þó að mikið rannsóknastarf sé þar enn óunnið.

Varðandi Austurland hefur einnig verið mikið að þessu máli unnið á vegum heimamanna sem átt hafa þátt í skoðun mála í grannlöndum og ýtt á eftir athugunum. M.a. er Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi að gera sérstaka athugun á félagslegu gildi jarðgangagerðar sem er auðvitað geysimikið fyrir viðkomandi byggðarlög en getur verið erfitt að meta í beinhörðum peningum.

Ég vil, virðulegur forseti, um leið og ég mun stytta mál mitt andmæla því viðhorfi að það sé hægt að líta á þessi mál, jarðgangagerðina, út frá þröngu arðsemismati eins og það er tíðkað í sambandi við framkvæmdir og við m.a. getum lesið um í blöðum síðustu daga, að því er haldið fram að eitt sé arðsamt og annað ekki. Sá mælikvarði er allt of þröngur og alls ekki viðunandi. Hér er um að ræða að leysa undirstöðumál ákveðinna byggða, þar sem eru samgöngumálin, og þar getur þröngt arðsemissjónarmið eitt saman ekki ráðið niðurstöðu. Þetta veit ég að allir hv. alþm. skilja og þekkja til og þarf ég ekki að ítreka það sérstaklega.

Að lokum þetta, virðulegur forseti: Framkvæmdir í jarðgangagerð eru stórmál sem snerta meir en nokkuð annað byggðaþróun í viðkomandi landshlutum. Heimaaðilar, sem hafa látið málin til sín taka, hafa unnið gott starf, en það þarf fleira að koma til. Það þarf fjármagn til og aðstoð þeirra stofnana ríkisins sem að þessum málum vinna. Og það er brýnt, eins og lagt er til í þessari till., að þegar á þessu þingi verði unnt að taka afstöðu til fullmótaðra hugmynda um jarðgangagerð, þar á meðal um framhaldsrannsóknir, bæði varðandi forgangsröðun og fjármögnun framkvæmda.

Ég vænti þess að þetta mál fái góðan byr í þinginu og legg til að að lokinni umræðunni verði till. vísað til hv. atvmn. sem fjallaði um hliðstætt mál hér á þingum áður.