23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

91. mál, jarðgangaáætlun

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins fyrir minn hlut taka undir flest það sem fram kom í máli flm. um ágæti þessarar till. Ég held að hér sé í rauninni hreyft máli sem í sjálfu sér gegnir furðu hversu seint hefur gengið að vinna að hér á landi, a.m.k. miðað við sams konar verk í næstu grannlöndum. E.t.v. er ástæðan sú að yfirleitt erum við heldur vanþróuð hvað samgöngumál snertir. Við búum fá í mjög stóru landi og e.t.v. er sú skýringin. En ég held að það sé meira en orðið tímabært að menn farið að vinna að því af festu og áræði að gera áætlun um gerð jarðganga.

Ég átti þess kost fyrir fáum vikum að koma til Færeyja ásamt nokkrum öðrum þm. héðan úr þinginu og ég verð að segja að mig grunaði ekki fyrir fram hversu stórkostlega þeir Færeyingar eru komnir fram úr okkur á þessu sviði. Þeir eru ekki margir og þeir búa að vísu ekki í stóru landi og ég gleymi því heldur ekki að fjórðung fjárlaga sinna fá þeir að, Færeyingar. Engu að síður er það aðdáunarvert hversu langt þeir eru komnir. Ég er ansi hræddur um að mönnum hnykkti við hér á landi ef þeir færu í gegnum nýjustu jarðgöngin þeirra til tiltölulega fámennrar byggðar, en þau breyta gjörsamlega öllu lífi í viðkomandi byggð eftir að þau eru staðreynd.

Hér á landi er snjómokstur sum árin ekki lítill þáttur af rekstri Vegagerðarinnar. Það er alveg víst að jarðgöngin mundu skipta sköpum á landsvæðum eins og Austurlandi og Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi ef eitthvað af þeim draumum sem menn eru hér að lýsa yrði að veruleika. En aðalatriðið er þó það, sem flm. lagði mikla áherslu á, að okkur ber að byggja þetta land allt vegna þess hvernig landgæðin eru hér að öðru leyti og okkur tekst ekki til langrar framtíðar að byggja landið allt á viðunandi hátt öðruvísi en að samgöngumálunum verði mun betri skil gerð en í dag er. Það verður ekki hægt öðruvísi en jarðgöng komi til.

Eins og þið vitið er það svo að flugvöllur þeirra Færeyinga, nánast sá eini, í Vogi, er ekki í góðu samgöngusambandi við Þórshafnarsvæðið, en þá hika þeir ekki við að gera um það áætlun, sem þeir ætla að hrinda í framkvæmd, að leggja jarðgöng undir atlantsála frá Vogi til Straumeyjar um 7 km leið. Fjárhagsáætlun heyrði ég þar í haust að væri um 500 millj. kr. danskar sem væri álíka upphæð og þeir Færeyingar nota á einu ári til utanlandsferða. Þetta sýnir manni hvernig í næsta nágrenni er á málum af þessu tagi tekið.

Ég heiti fyrir minn hlut á alla sem hér eiga hlut að máli að bregðast ekki í því að veita þessu máli brautargengi.