23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

94. mál, þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta. Flm. ásamt mér eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.

Hér á landi eru nokkur hundruð manns sem annaðhvort hafa búið við heyrnarleysi frá fæðingu eða hafa svo litlar heyrnarleifar eða af völdum slysa eða sjúkdóma búa við mjög skerta heyrn og ekki hafa getað tileinkað sér þetta tjáningartæki, tungumálið, þannig að þeir geti í rauninni haft eðlileg samskipti við aðra þegna þjóðfélagsins, hvað þá heldur að þeir geti nýtt sér þá fjölbreytilegu þjónustu sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða.

Nú er það svo að það eru komin til fjölmörg hjálpartæki fyrir þetta fólk sem eiga að geta auðveldað því lífið, en skortir kannski á að hið opinbera hafi þar komið til móts við þetta fólk þannig að viðunandi sé. Því er till. hér flutt um þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskert fólk, kalla ég það, vegna þess að það nær yfir fleiri en þá sem eru heyrnarlausir.

Eitt af þeim tækjum sem þetta fólk hefur átt kost á nú síðari ár eru svokallaðir textasímar. Þetta er ekki flókið tæki. Það sendir prentaðan texta milli síma. En sá hængur er á að það eru fáir sem hafa svona síma nema þeir heyrnarlausu sjálfir og nýtist hann þess vegna ekki til almennrar upplýsingaöflunar eða þjónustu í þjóðfélaginu.

Það má segja að eðlilegt væri að allar helstu stofnanir landsins hefðu slíkan síma. Það þarf enga sérkunnáttu til að svara í svona síma eða tala í þá. En meðan svo er ekki og jafnvel þó svo væri er brýn þörf fyrir einhvers konar miðstöð sem þetta fólk getur hringt í og prentað þar sín skilaboð og viðkomandi þjónustumiðstöð rekið þau skilaboð áfram fyrir þetta fólk. Ég tilgreini í grg. nokkur dæmi um það sem okkur finnst eðlilegt að gera með því að geta lyft símtóli og hringt, aflað okkur upplýsinga, spurt spurninga. Slíka þjónustu gæti þetta fólk nýtt sér í gegnum þjónustumiðstöð.

Einnig ber að tala um það öryggisleysi sem þetta fólk býr við og mætti tilgreina nokkur dæmi um slys þegar töf hefur orðið á því að ná í hjálp vegna þess að viðkomandi hefur ekki getað nýtt sér síma og hefur þurft að leita hjálpar eftir öðrum leiðum sem tekur mismunandi langan tíma. Ef sjúkdóma eða slys ber að höndum er þetta fólk oft bjargarlaust sé enginn nærri sem hefur heyrn.

Það er í framhaldi af því líka talað hér um túlka vegna þess að í svona miðstöð þyrftu líka að starfa túlkar fyrir heyrnarlausa. Nú er það svo að það er ekki mjög langt síðan táknmál var viðurkennt sem tungumál og því kannski ekki fullur skilningur fyrir því að táknmál er fyrsta tungumál heyrnarlausra, en íslenskan er annað tungumál. Nú hafa nokkrir hlotið menntun sem túlkar í táknmáli og a.m.k. ein stúlka er í námi núna til að læra túlkun. Fyrir utan að túlka er þetta fólk líka að vinna mjög þarft verk því að það er að auka og bæta orðaforða táknmálsins. Það þarf sífellt að finna ný tákn og aðlaga hverju tungumáli og finna tákn yfir nýyrði eða það sem ekki hefur komið til við skulum segja tals í táknmáli áður. Heyrnarlausir hafa getað nýtt sér þessa túlka, en það er undir hælinn lagt hver borgar þá þjónustu. Oft er það borgað af hinu opinbera eða félagasamtökum eða einhverjum slíkum þar sem heyrnarlausir þurfa á túlkum að halda, en mjög oft þurfa þeir að borga þessa þjónustu úr eigin vasa. Hún er nokkuð dýr eins og önnur sérfræðiþjónusta og þar að auki eru túlkar fáir þannig að það eru ekki mikil brögð að því að fólk nýti sér slíka túlka til almennrar þjónustu.

Núna eru þó nokkrir sem stunda framhaldsnám með aðstoð túlka og sú þörf vex sjálfsagt með auknum menntunarkröfum. Sjálfsagt mundi hún líka aukast ef kostur væri á fleiri slíkum túlkum. En það er nánast forsenda fyrir því að fólk leggi þetta nám fyrir sig að það sé einhver aðstaða fyrir hendi til vinnu þegar heim kemur.

Í samhengi við þessa till. er önnur sem ég mun flytja á eftir. Ég vil samt nefna hana hér nú. Svona þjónustumiðstöð, þar sem textasímaþjónusta væri rekin, þyrfti ekki að vera opin allan sólarhringinn því að það er til mjög einföld lausn. Þjónusta á Landsímanum gæti hugsanlega tekið við, sbr. tillögu sem ég mun flytja hér á eftir.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta, nema ég vil rétt geta þess hér að ég hef haft talsverð samskipti við heyrnarlaust fólk og þykist ég fara með rétt mál þegar ég segi að þetta sé sú þjónusta sem það helst skortir og sem það helst óskar eftir núna. Ég hef borið till. undir öll þau félög og þá aðila sem starfa við hjálp við heyrnarlausa og nokkra heyrnleysingja líka og allir þeir aðilar sem ég hef leitað til hafa lýst mikilli ánægju yfir till. og í trausti þess að hún fái álíka undirtektir hjá hv. þm. legg ég hana fram til umræðu og óska eftir því, virðulegi forseti, að að umræðu lokinni verði henni vísað til félmn.