23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

94. mál, þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Hér er vissulega hreyft mikilvægu máli sem er málefni heyrnarlausra. Fagna ég því sérstaklega að þau skuli vera tekin til umræðu hér í sölum Alþingis.

Ég held að það sé ljóst að málefni þessa fólks hafa verið nokkuð afskipt þrátt fyrir miklar framfarir á undanförnum árum í málefnum fatlaðra. Ég held að áhrifa laganna um málefni fatlaðra hafi í engu eða a.m.k. í mjög litlum mæli gætt í málefnum eða aðbúnaði heyrnarlausra. Á því gæti eflaust verið sú skýring að heyrnarlausir eru mjög einangraður hópur sem hefur átt erfitt með að koma sínum málum a framfæri. Ég held að það sé nokkuð ljóst að málefni þessa hóps hafa ekki verið skoðuð sérstaklega hjá svæðisstjórnum sem fjalla um málefni fatlaðra eða hjá stjórnarnefnd málefna fatlaðra. Ég taldi því fulla ástæðu til að þessi mál yrðu sérstaklega tekin fyrir í félmrn.

Um síðustu mánaðamót, að mig minnir, var boðað til fundar í félmrn. með heyrnarlausum og forsvarsmönnum þeirra ásamt fulltrúa frá menntmrn. Þar kom margt mjög athyglisvert í ljós í málefnum heyrnarlausra og er ljóst að ýmislegt þarf að laga í þeirra málum sem þarf ekki að vera ýkja kostnaðarsamt. Í mörgum málum er fyrst og fremst um það að ræða að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég tel ástæðu til þess að geta nokkurra af þeim málum sem var hreyft á þessum fundi þar sem heyrnarlausir komu með aðstoð túlka sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það sem er heyrnarlausum efst í huga er það sem kemur fram í þáltill. sem eru til umræðu, þ.e. að mennta túlka og bæta túlkaþjónustuna. Það kom fram hjá þeim að það vantar námsstjóra við táknmálskennslu í Heyrnleysingjaskólanum. Það kom fram hjá þeim mikil óánægja með fréttatíma sjónvarps og hvernig stöðugt væri verið að breyta fréttatíma þeim sem heyrnarlausir geta notið án þess að nokkurt samráð væri haft við Félag heyrnarlausra. Það sem ég var nokkuð undrandi á og ég hygg að ekki sé öllum ljóst er að Félag heyrnarlausra þarf sjálft að borga fyrir þessa þjónustu sem sjónvarpið veitir þeim og að greiða laun þess sem flytur þeim táknmálsfréttirnar.

Einnig kom mjög glöggt fram, eins og í þáltill. sem hér er til umræðu, þörfin fyrir textasímaþjónustu. Er þar vissulega um mikilvægt hjálpartæki að ræða fyrir heyrnarlausa. Ég tel ástæðu til þess við þessa umræðu að vitna aðeins til grg. sem lögð var fram á þessum fundi frá Félagi heyrnarlausra þar sem kemur fram hve mikilvæg þessi textasímaþjónusta eða textamiðstöð er fyrir heyrnarlausa. En þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hér á landi er nokkuð stór hópur fólks sem er heyrnarlaust eða það heyrnardauft að það getur ekki notað venjulegan síma á sama hátt og þeir sem hafa eðlilega heyrn. Þetta er fólk sem ýmist hefur misst heyrn á efri árum eða fólk sem er heyrnarskert frá fæðingu. Vegna fötlunar sinnar eru heyrnarlausir einangraðir frá þeim þægindum og mikilvæga öryggi sem síminn óneitanlega er hinum almenna borgara. Þetta er sérstakt áhyggjuefni þegar haft er í huga að tilkynningar og fréttir í útvarpi ná ekki til heyrnarlausra og gagn þeirra af sjónvarpi er takmarkað. Það er því ekki ofmælt þegar sagt er að um mjög mikla einangrun getur verið að ræða.

Fyrir nokkrum árum hófst innflutningur á svokölluðum textasíma fyrir heyrnarlausa. Með tilkomu hans breyttist að nokkru sú einangrun sem þeir höfðu mátt búa við fram til þessa. En textasíminn gerir heyrnarlausum kleift að hafa símasamband sín á milli. Þessi möguleiki nær þó aðeins til þeirra aðila sem hafa textasíma. Textasíminn er tiltölulega einfalt tæki. Hann samanstendur af þremur aðaleiningum.“

Síðan er því lýst í þessari grg. Einnig kemur þar fram um textasímamiðstöð, sem þessi tillaga fjallar aðallega um, að notkun textasímanna sé takmörkuð við þann hóp heyrnleysingja sem eiga þessi tæki.

„En eftir sem áður eru heyrnarlausir einangraðir frá þeirri mikilvægustu þjónustu sem hinn almenni sími er öllum almenningi til viðskipta og upplýsingaöflunar. Til þess að rjúfa að einhverju leyti þessa einangrun og gefa heyrnarlausum möguleika á að njóta þeirrar þjónustu og öryggis sem síminn veitir hefur hugmyndin um textasímamiðstöð verið sett fram. Slíkar miðstöðvar hafa verið settar upp víða erlendis og eru þær mikið notaðar.

Textasímamiðstöð má að sumu leyti líkja við gömlu símstöðvarnar en þær störfuðu sem alhliða tengi- og boðveitur innan símakerfisins. Markmiðið með textasímstöð er að gefa heyrnarlausum möguleika á að hafa símasamband við hvern þann sem hefur venjulegan síma. Miðstöðin tengir saman notendur textasíma og venjulegs síma með aðstoð símavarðar. Til að hún komi að fullum notum verður hún að vera opin allan sólarhringinn.

Í textasímamiðstöð þarf ekki mörg tæki eða dýran búnað en þar verður að minnsta kosti að vera einn textasími, tveir venjulegir símar og að sjálfsögðu símavörður. Miðstöðin vinnur þannig að þegar hringt er í stöðina með textasíma svarar símavörður með textasímanum og tekur á móti skilaboðum um að hringja í eitthvert ákveðið númer. Símavörður hringir í þetta númer og tilkynnir að hann sé með samtal yfir textasíma og nú textar og talar símavörðurinn samtalið á milli. Símavörður er þarna sem eins konar túlkur sem flytur eða túlkar samtalið á milli notendanna. Þessi þjónusta er tvívirk, hvort sem er frá textasíma yfir miðstöð og í venjulegan síma og öfugt. Einnig getur miðstöðin unnið sem boðveita og hjálpað við að koma ákveðnum stuttum skilaboðum áfram þótt það sé ekki gert í einu símtali og gefið almennar upplýsingar. Sem öryggistæki er textasímamiðstöð afar mikilvæg, sérstaklega gagnvart lögreglu, slökkviliði og læknaþjónustu hvers konar, auk þess sem hún er mjög gagnleg fyrir öll styttri þjónustusamtöl, t.d. vegna leigubíla, veðurfrétta, fundarboða o.s.frv.“

Virðulegi forseti. Ég held að fram komi í þessari grg. hve mikilvæg þessi textasímamiðstöð er sem um er fjallað í þáltill. sem er til umræðu og sýnir glöggt að um mikilvægt öryggistæki er að ræða fyrir heyrnarlausa.

Á þessum fundi, sem haldinn var að tilhlutan félagsins, kom einnig fram að nauðsynlegt væri að koma á fót sambýli fyrir heyrnarlausa, einnig að heyrnarlausir virðast ekki njóta tollaniðurfellingar af myndböndum frá Norðurlöndum, svo sem samþykkt Norðurlandaráðs gerir ráð fyrir. Þar kom einnig fram að afnotagjöld af símum eru ekki felld niður hjá heyrnarlausum eins og á sér stað hjá t.d. blindum mönnum, svo og hjá félagsmönnum, sumum hverjum hjá Sjálfsbjörg, félagi fatlaðra, en um það hafa verið heimildir í fjárlögum. Það kom einmitt fram á þessum fundi að heyrnarlausir eru sex sinnum lengur að koma sömu skilaboðum í gegnum síma en heyrandi og því er augljóst að kostnaður þeirra við símanotkun er mjög mikill. Í framhaldi af þessum fundi var síðan skipuð nefnd til þess að vinna sérstaklega að úrbótum á þeim málum sem þarna komu fram. Í nefndinni sem ég hef skipað eiga sæti tveir fulltrúar frá Félagi heyrnarlausra og skólastjóri Heyrnleysingjaskólans á einnig sæti í henni ásamt fulltrúa menntmrn. og fulltrúa í félmrn.

Það kom fram á þessum fundi áhugi fyrir því að gera úttekt á félagslegri stöðu heyrnleysingja og tel ég það mikilvægt. Er rætt um að slík könnun gæti farið fram hjá félagsvísindadeild Háskólans og að áttektin mundi ná þá til stöðu heyrnleysingja í þjóðfélaginu almennt, fjölda, aldurs, aðstæðna, atvinnumöguleika, félagslegra tengsla og möguleika þeirra almennt til félagslegra samskipta. En það kom einmitt fram að þegar Heyrnleysingjaskólanum sleppir er lítið vitað um hvað verður um þetta fólk eða stöðu þess almennt.

Ég vildi láta koma fram við þessa umræðu að að þessu er unnið. Mér er kunnugt um að nefndin hefur fullan hug á því að leita eftir viðræðum í fyrsta lagi við fulltrúa menntmrn. um hvernig hægt sé að efla túlkaþjónustuna og vinna að menntun túlka. Í öðru lagi hefur nefndin hug á að leita eftir viðræðum við samgrn. um að koma á slíkri textasímaþjónustu fyrir heyrnarlausa eins og um er rætt í þessari till.

Ég ítreka það að ég fagna því að þessi mál eru tekin hér til umræðu en taldi nauðsynlegt að láta það koma fram, þar sem verið er að fjalla um þessi mál, að þau hafa verið til skoðunar í félmrn. og einmitt á því sviði sem fjallað er um í báðum þeim till. sem eru til umræðu. Ég vil láta það koma fram, sérstaklega að því er varðar þá till. sem er til umræðu um þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta, að ég tel eðlilegt að slík þjónustumiðstöð sé rekin af Félagi heyrnarlausra, t.d. í félagsmiðstöð heyrnarlausra á Klapparstígnum þar sem húsnæði er fyrir hendi, og að eðlilegra væri að Félag heyrnarlausra fengi sérstakan fjárhagsstuðning frá hinu opinbera til að reka slíka þjónustumiðstöð fremur en að komið væri upp sérstakri þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta sem ég tel að yrði dýrara. En engu að síður er þetta mikið þarfamál.