23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

95. mál, textasímaþjónusta

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur til að mæla fyrir till. til þál. um textasímaþjónustu og þá á örlítið öðrum grunni en sú sem rætt var um áðan. Flm. með mér að þessari till. eru þeir sömu og á hinni fyrri og sökum tímaskorts mun ég ekki fara að telja þá upp aftur.

Það þarf þá ekki að tíunda meira nauðsyn á að þessari þjónustu, sem hér hefur verið rætt um, verði komið upp og það þarf hvorki nefndir eða kostnað eða nokkurn skapaðan hlut til þess að þessari þjónustu sé komið á, það þarf að kaupa einn síma og setja hann í samband niðri á Landssíma og þó að sú þjónusta væri vonandi opin allan sólarhringinn þá yrði hún sjálfsagt ekki mikið notuð nema utan þess tíma sem þjónustumiðstöð væri opin. Sjálfsagt yrði annríkið meira til að byrja með því ég vona sannarlega að hæstv. samgrh. gangist í þetta mál strax, að koma upp þessari símaþjónustu.

Til þess að tefja ekki tímann lengur mælist ég til að þessi þáltill. verði tekin fyrir í allshn.