15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú óvenjulega staða ríkir nú í íslenskum stjórnmálum að ný ríkisstjórn kemur til Alþingis án þess að stefna hennar í efnahagsmálum sé skýr. Á öðrum degi þingsins boðuðu fjórir ráðherrar í skyndi til kvöldblaðamannafundar í Stjórnarráðshúsinu til þess að reyna að gera þjóðinni skiljanlegar skyndiákvarðanir í efnahagsmálum sem þeir höfðu tekið milli 1. og 2. dags þingsins. Það hefur aldrei fyrr gerst í þingsögunni að ný ríkisstjórn komi til þings með þessum hætti, án þess að leggja fyrir Alþingi skýrt og greinilega stefnu sína í efnahagsmálum hvað þá heldur að hlaupa til á kvöldfundi í Stjórnarráðinu milli 1. og 2. dags þingsins og taka þar nýjar ákvarðanir, nýjar ákvarðanir sem þjóðinni hefur gengið mjög erfiðlega að skilja, sem þingið hefur ekki fengið útskýrðar og sem þingflokkar stjórnarflokkanna virðast ekki heldur vita hverjar eru.

Það er þess vegna óhjákvæmilegt hér strax að krefja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. skýrra svara um það í hverju stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er í raun og veru fólgin til þess að þeirri óvissu, sem þessa dagana stefnir gengi íslensku krónunnar í hættu, verði eytt.

Það var ljóst eftir kvöldfundinn í Stjórnarráðinu sl. mánudag, sem varð til þess að fréttir sjónvarpsins voru rofnar og lítt skiljanleg þula fjögurra ráðherra var flutt þjóðinni, að óvissan er í dag meiri en nokkru sinni fyrr. Ríkisstjórnin ætlaði að eyða óvissunni um gengi íslensku krónunnar, en það hefur greinilega mistekist. Síðustu daga hefur einn af helstu efnahagssérfræðingum Framsfl., hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, lýst því yfir opinberlega að gengi krónunnar sé í raun og veru fallið. Síðustu daga hefur einn helsti forustumaður atvinnulífsins í landinu, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi og varaþm. Sjálfstfl., Víglundur Þorsteinsson, einnig lýst því yfir að gengi krónunnar sé í raun og veru fallið. Það er óhjákvæmilegt þess vegna, vegna þess að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að fastgengisstefnan sé einn af hornsteinum tilveru ríkisstjórnarinnar, að knýja hæstv. forsrh. til að lýsa því yfir afdráttarlaust hér á Alþingi að ríkisstjórnin ætli sér ekki að fella gengið, hvorki á þessu ári né á næsta ári. Það dugir ekki að vera með óljósar yfirlýsingar um slíkt á kvöldfundum með fréttamönnum í Stjórnarráðshúsinu. Alþingi Íslendinga er hinn rétti vettvangur. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir hér að ríkisstjórnin muni hvorki á þessu ári né á næsta ári fella gengi íslensku krónunnar, hvort hann sé reiðubúinn að veita þeirri yfirlýsingu það vægi að leggja líf ríkisstjórnarinnar að veði, að taka af öll tvímæli um það í ljósi yfirlýsinga hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og Víglundar Þorsteinssonar að ríkisstjórnin muni fara frá ef hún telji nauðsynlegt að fella gengið. Gengi íslensku krónunnar og líf ríkisstjórnarinnar verði þannig tengd saman.

Einnig í þessum efnum verði skýrt tekið fram að breyting á viðmiðun krónunnar við Evrópumyntir verði ekki notuð á næstunni til að dulbúa gengisfellingu. Þegar tveir af fremstu efnahagssérfræðingum ríkisstjórnarflokkanna lýsa því yfir opinberlega síðustu daga að gengi krónunnar sé fallið er óhjákvæmilegt að forsrh. ríkisstjórnarinnar hafi kjark til að segja Alþingi að um tvennt sé að velja: Annars vegar líf og tilveru ríkisstjórnarinnar og hins vegar gengi íslensku krónunnar.

Í öðru lagi hefur forseti Alþýðusambands Íslands lýst því yfir að það skriflega fyrirheit sem Steingrímur Hermannsson og Þorsteinn Pálsson gáfu launafólki í landinu, að staðið yrði gegn verðhækkunum á gildistíma núverandi kjarasamninga, hafi þessi ríkisstjórn nú rofið. Samtök launafólks í landinu hafa sent ríkisstjórninni bréf og óskað eftir því að þessi ákvörðun verði dregin til baka, að álagningu matarskattanna svonefndu verði frestað og ríkisstjórnin standi við þær skuldbindingar sem gefnar voru skriflega af þáv. hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni og Þorsteini Pálssyni, þáv. fjmrh.

Það er að vísu rétt að formaður Alþfl., sá maður sem kallaði forseta Alþýðusambandsins sérstaklega til að halda upp á flokksþing Alþfl., hefur lýst því yfir í fjölmiðlum fyrir tveimur dögum að hann sé ekki skuldbundinn af þeim loforðum sem alþýðu samtökunum í landinu voru gefin. Það er sérkennilegur upphafsferill formanns Alþfl. að láta það verða sitt fyrsta verk á nýju þingi að lýsa því yfir að hann ætli að svíkja þau fyrirheit sem gefin voru skriflega launafólki í landinu. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja um það hér og nú hvort hæstv. ríkisstjórn sé tilbúin að verða við þessari ósk alþýðusamtakanna og fresta gildistöku þessara skatta til þess að viðræður geti farið fram og í öðru lagi hvort það er formleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar allrar að hafna þessum tilmælum frá alþýðusamtökunum í landinu og hvort allir þm. stjórnarliðsins séu þá sammála því að sá trúnaður, sem talin var forsenda síðustu kjarasamninga, verði þannig rofinn og ekki séu lengur grið milli launafólksins í landinu og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Eða er það bara skætingur hæstv. forsrh, í blöðunum sem er hið formlega svar ríkisstjórnarinnar til alþýðusamtakanna í landinu? Hvernig ætlast sú ríkisstjórn til í upphafi ferils síns að hún öðlist trúnað og traust alþýðu manna í þessu landi þegar Framsfl. og Sjálfstfl. byrja þennan feril með því að svíkja skriflegar yfirlýsingar Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar og formaður Alþfl. segir að hann hafi að engu þau loforð sem talin voru jafngild og lög og gefin voru samtökum alþýðu fyrr á þessu ári og í lok síðasta árs?

Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að spyrja um hvaða stöðu það fjárlagafrv., sem fyrir tveimur dögum var lagt fram hér í þinginu, hefur. Þegar fjölmiðlaleik tveggja daga var lokið var ljóst að þetta fjárlagafrv. nýtur ekki stuðnings Framsfl. Það er ljóst að einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, hæstv. landbrh., hefur lýst því yfir að hann sé andvígur einni grundvallarforsendu fjárlagafrv. Í sérhverju siðmenntuðu lýðræðisríki hefði tvennt gerst þegar slík yfirlýsing kom fram: Annaðhvort hefði viðkomandi ráðherra sagt af sér vegna þess að hann gæti ekki stutt grundvallarfrv. þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í eða ríkisstjórnin sjálf hefði sagt af sér. En kannski er þetta ekki alvöruríkisstjórn, kannski er þetta ekki alvörulandbrh. sem leyfir sér að sitja áfram þótt hann sé andvígur því sem hæstv. fjmrh. hefur lýst í fjölmiðlaleik sínum sem einum af hornsteinum fjárlagafrv. Þess í stað er farin sú leið að vísa þessum ágreiningi ríkisstjórnarflokkanna í nefnd, ekki ráðherranefnd þó mikið væri auglýst fyrir nokkrum vikum að þessi ríkisstjórn ætlaði að taka upp nýjar aðferðir til að leysa sín deilumál með því að setja þau í ráðherranefndir. En það var greinilegt að ríkisstjórnin hafði gefist upp við að leysa þennan ágreining hjá sjálfri sér og treysti sér ekki til að setja ráðherranefnd í málið. Því var heldur ekki vísað til fjvn. sem er þó eðlilegur vettvangur innan þingsins til þess að fjalla um þetta mál. En í staðinn var þessum hornsteini fjárlagafrv. Jóns Baldvins Hannibalssonar vísað í þriggja manna nefnd þar sem formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, og formaður framsóknardeildarinnar í Sjálfstfl., Egill Jónsson, sitja í öndvegi og því lýst yfir opinberlega að þessir menn eigi ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni að gera út um það sem ríkisstjórninni tókst ekki að leysa. Þess vegna er í þriðja lagi óhjákvæmilegt áður en þingið og þjóðin fara að fást við það fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram að fá skýr svör við því að hve miklu leyti það nýtur stuðnings innan ríkisstjórnarinnar, að hve miklu leyti það nýtur stuðnings í flokkum ríkisstjórnarinnar eða hvort þetta fjárlagafrv. er kannski jafnmarklaust plagg og það fjárlagafrv. sem fjmrh. hafði tilbúið fyrir tíu dögum en henti síðan í síðustu viku og ónýtt voru tonn af pappír í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg og frv. sem við sjáum nú var búið til. Það er kannski í stíl við ýmislegt annað að þetta rósafrv. hæstv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem kynnt var með rósavendi á borðum í húsakynnum fjmrn. fyrir tveimur dögum, þetta fyrsta rósafrv. hans hafði fölnað strax á öðrum degi.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að í gengismálum, í kjaramálum og varðandi þau svik sem nú virðast vera að verða að veruleika gagnvart launafólkinu í landinu og í þriðja lagi varðandi þann pólitíska og efnahagslega grundvöll sem liggur á bak við nýlagt fjárlagafrv. sé óhjákvæmilegt að knýja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. til að gefa hér á Alþingi, sem er hinn rétti vettvangur fyrir slíkar yfirlýsingar, skýr og afdráttarlaus svör, svör sem verða tengd við líf og tilveru ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Menn hafa kannski tekið eftir því að ég hef sleppt sessunauti þeirra, hæstv. utanrrh., við það að þurfa að veita svör við þessum spurningum. Ég reikna með að formaður Framsfl. sé eins staddur og við hin í þessum efnum enda hefur hann nánast verið fjarri vettvangi síðan í byrjun septembermánaðar og sé þess vegna í sömu stöðu og þjóðin, þingið og þingflokkar stjórnarflokkanna að vita ekki heldur hver efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er. (KP: Og ræðumaðurinn.) Ræðumaðurinn telur sjálfan sig hluta af bæði þjóðinni og þinginu.

Þess vegna, herra forseti, langar mig að renna hér nokkrum stoðum undir tilefni þessara spurninga og þá fyrst varðandi gengi íslensku krónunnar, fastgengisstefnuna, sjálfan hornstein að lífi þessarar ríkisstjórnar, því að ef hún var mynduð utan um eitthvað þá var hún mynduð utan um það að halda gengi íslensku krónunnar föstu.

Á þriðjudaginn í þessari viku lýsti einn helsti forustumaður atvinnurekenda í landinu, einn af helstu áhrifamönnum Sjálfstfl. og efnahagssérfræðingum þess flokks, og eins og ég hef þegar sagt varaþm. Sjálfstfl., Víglundur Þorsteinsson, því yfir - og ég vitna hér orðrétt, herra forseti:

„Ég fer ekkert í felur með þá skoðun að gengisfelling er óhjákvæmileg. Ef hún verður ekki á næstunni þýðir það einfaldlega að hún verður þeim mun meiri eftir því sem stjórnvöld láta lengur hjá líða að fella gengið.“

Næsta dag, í gær, lýsti hv. alþm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem eins og alþm. vita hefur í tæpan áratug verið einn helsti efnahagssérfræðingur Framsfl., hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir þann flokk í efnahagsnefndum fyrri ríkisstjórna og átt drjúgan hlut í mótun efnahagsstefnu Framsfl. og efnahagsstefnu þeirra ríkisstjórna sem Framsfl. hefur setið í á undanförnum árum, því yfir í frétt í Tímanum, orðrétt, herra forseti, „að hann teldi að fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar væri ekki rétt heldur ætti að fella gengið til að skapa útflutningsatvinnuvegunum betri skilyrði.“ Hér er ekki töluð nein tæpitunga. Hér setur einn af helstu áhrifamönnum Framsfl. fram skilyrðislausa kröfu um að gengið verði fellt.

Sama dag setti fyrrv. þm. Sjálfstfl., Ellert B. Schram, fram þá skoðun í leiðara í einu víðlesnasta blaði landsins að fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar ætti vissulega í vök að verjast og þar væri nánast róinn lífróður. Og hann benti með réttu á að ýmsir úr röðum atvinnurekenda og hagfræðinga hefðu haldið því skýrt og afdráttarlaust fram að gengið væri í raun fallið. Þeir boðuðu gengisfellingu á næstu vikum. Ríkisstjórnin væri að blekkja sjálfa sig og alla þjóðina ef hún þráaðist við. Það er einmitt til þess að fá skýr svör í þessum efnum og koma í veg fyrir að óvissa í gengismálum haldi áfram að skapa erfiðleika í atvinnulífi landsins, skapa erfiðleika á vinnumarkaðnum og skapa almenna vantrú í þessu landi sem á það verður að reyna hér á Alþingi hvort hæstv. forsrh. er tilbúinn að lýsa því yfir að ríkisstjórnin muni fara frá ef hún telji nauðsynlegt að fella gengið. Eftir þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið dugir ekkert annað hér en að hæstv. forsrh. sýni þá stefnuafstöðu að leggja líf ríkisstjórnarinnar við líf íslensku krónunnar. Ef hann gerir það ekki þá verður að álykta sem svo að þeir forustumenn í stjórnarflokkunum, sem ég hef hér vitnað til, að þeir sérfræðingar í efnahagsmálum, sem Ellert B. Schram vitnar til, hafi á réttu að standa og ríkisstjórnin sé eingöngu að setja á svið blekkingarleik og hafi ekki pólitískan kjark eða stefnufestu til þess að standa við sín eigin orð.

Annar þátturinn sem ég vék að snertir þau loforð sem undirrituð voru af þáverandi hæstv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, og hér eru birt með hans þjóðþekktu undirskrift og staðfest voru af þáverandi fjmrh., Þorsteini Pálssyni, um að stjórnvöld mundu í verðlagningu á opinberri þjónustu og skattlagningu fylgja þeirri stefnu að hækkanir verði í heild ekki umfram almenna verðlagsþróun. Þann 12. þessa mánaðar skrifaði forseti Alþýðusambandsins hæstv. forsrh. bréf þar sem vakin var með miklum alvöruþunga athygli á því að forsendan í samskiptum ríkisstjórnar við launafólkið í landinu er sú að menn standi við orð sín. Ef menn hætta að standa við orð sín, þá hrynja meginforsendurnar undir stjórn landsins. Sú ríkisstjórn, sem byrjar feril sinn með því að svíkja fyrri fyrirheit, getur ekki vænst þess að launafólkið í landinu beri minnsta vott af trausti og trúnaði til hennar orða. Það er verið að gjaldfella orð forsrh. sjálfs og ríkisstjórnarinnar allrar, einkum og sér í lagi hið undirritaða loforð núverandi hæstv. utanrrh., Steingríms Hermannssonar. Fyrst hann er mættur hér, þó að ég hafi ekki óskað eftir honum sérstaklega í þessum umræðum en býð hann velkominn engu að síður, þá vildi ég nota tækifærið til þess að spyrja hann hvort hann hafi samþykkt þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að svíkja þetta undirritaða fyrirheit hans eða hvort það hafi verið gert meðan hann var að fljúga frá Róm til Minneapolis.

Forseti Alþýðusambandsins óskar eftir því í þessu bréfi að málið verði tekið til endurskoðunar. Eina svarið sem hefur fengist við þeirri bón er skætingur hæstv. forsrh. í blaðaviðtölum þar sem það eina sem hann hefur að segja eru umkvartanir yfir því að hann hafi ekki fengið bréfið á réttum stað og réttum tíma. Það er svona álíka eins og þegar maður, sem skrifað hefur undir víxil og er rukkaður, fer að rífast yfir því hvort pósturinn komi fyrir eða eftir hádegi í stað þess að standa við hinar undirrituðu skuldbindingar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hér að því hvort hæstv. ríkisstjórn hafi formlega á fundi sínum hafnað að verða við þeim tilmælum um að fresta álagningu á matarskatti og öðrum gjöldum, hvort sú höfnun, ef hún núna liggur formlega fyrir, hafi verið staðfest af þingflokkum ríkisstjórnarinnar þannig að það liggi ljóst fyrir að það sé þingmeirihluti á bak við þessi svik eða hvort það séu ráðherrarnir einir sem vilja taka ábyrgð á þessum brigslum; og spyrja svo hæstv. fjmrh., formann Alþfl., sem mjög hefur skreytt sig á undanförnum tveimur árum með hinum upprunalegu tengslum Alþýðusambandsins og Alþfl., sérstaklega að því hvort hann telji það vænlegt og í samræmi við upphaflegar hugsjónir Alþfl. að verða þannig fyrstur manna í fjármálaráðherrastól til að svíkja alþýðusamtökin í landinu og hverfa frá skriflegu loforði og skuldbindingum. Heldur hann að alþýðusamtökin í landinu geti þá borið til hans eitthvert traust? Heldur hann að það dugi á móti að sviðsetja einhverjar sýningar í fjölmiðlum og annars staðar? Heldur hann að alþýðan í landinu sjái ekki í gegnum það að fyrsti fjármálaráðherrann sem svíkur alþýðusamtökin um skriflegar yfirlýsingar er fjármálaráðherra Alþfl.?

Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. svari því greinilega hér hvort ríkisstjórnin hafi formlega samþykkt þessa afgreiðslu, hvort þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafi samþykkt hana og reyndar hvort allir þm. ríkisstjórnarflokkanna hér séu henni samþykkir vegna þess að hv. alþm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur reyndar gefið yfirlýsingar um það að hann sé andvígur þessari skattlagningu.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson segir i blaðaviðtali fyrir tveimur dögum síðan: „Ég mun aldrei fallast á skatta á matvæli nema gerðar verði hliðarráðstafanir. Matarskatturinn hefur mætt töluverðri andstöðu innan þingflokks Framsóknar og er Jón Helgason landbrh. andvígur honum.“ Enn eitt dæmið um það að hæstv. landbrh. sé andvígur stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í. Síðan segir í þessu viðtali, með leyfi hæstv. forseta: „Að sögn Guðmundar er nú verið að þrefa um hvort grípa skuli til einhverra hliðarráðstafana til að milda áhrif söluskattsins hjá barnafjölskyldum. Það var búið að ákveða að leggja þennan skatt á eftir áramót og verða þá jafnframt með hliðarráðstafanir eins og hækkaðar barnabætur þannig að hér er um tveggja mánaða bil að ræða sem þarf að brúa.“

Hver var sú nauðsyn sem knúði hæstv. ríkisstjórn til þess að eyðileggja allan grundvöll að samstarfi við launafólk í landinu og þar með lýsa því yfir í verki að alþýðusamtökin geti aldrei aftur gert samning í trúnaði við ríkisvaldið sem þessir flokkar sitja í? Sá tími er einfaldlega liðinn. (GHG: Það gerðist 1980– 1983.) Það gerðist ekki 1980–1983 og ef eina skjól fyrrverandi formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur í því að vera stuðningsmaður þessara svika er að hlaupa aftur til fortíðarinnar þá sýnir það best að samviskan er slæm vegna þess að hér áður fyrr var þó Guðmundur H. Garðarsson fremstur í flokki og kom hér á fundi þingnefnda og á fundi alþýðusamtakanna í landinu og flutti þá stefnu að ríkisvaldið ætti að standa við sín fyrirheit, (GHG: Það er rétt.) bæði í málefnum lífeyrissjóðanna — það er rétt, segir hv. þm. og er greinilegt að það rifjast nú upp fyrir honum hver hans raunverulega afstaða er. (HBl: Er hv. þm. stoltur af þeirri efnahagsstefnu sem hann fylgdi á þeim tíma?) Ég hef sagt það áður að það var margt í stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hefði mátt gera betur. Og við höfum auðvitað lært af þeirri reynslu eins og allir. En það á eftir að verða dýrkeypt reynsla fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn þegar kjarasamningar eru í mikilli óvissu, þegar efnahagsástandið í landinu hvílir á jafnveikum grunni og nú að hefja viðræður við samtök launafólks með því að lýsa því í verki yfir að þau geti ekki treyst orðum, jafnvel skriflegum yfirlýsingum hæstv, ríkisstjórnar. Þess vegna vil ég endurtaka þau tilmæli frá alþýðusamtökunum í landinu að hæstv. ríkisstjórn fresti því að leggja þessa matarskatta á og taki á ný upp viðræður sem geti orðið grundvöllurinn að því að lágmarkstrúnaður geti ríkt á milli launafólks í landinu og ríkisvaldsins á hverjum tíma.

Í þriðja og síðasta lagi er sá þáttur sem víkur að fjárlögunum. Það væri í raun og veru freistandi að rifja hér upp sögu fjárlagagerðarinnar á síðustu fjórum vikum. Vegna þess að hið óvenjulega hefur gerst nú undir forustu núverandi hæstv. fjmrh., sem hefur ráðið sér sérstakan blaðafulltrúa í fjmrn., að fjárlagagerðin hefur ekki síður verið í fjölmiðlunum en í Stjórnarráðinu, þá höfum við mjög góðar heimildir með orðum ráðherranna sjálfra í blöðum síðustu fjórar vikur. Sú saga sýnir kannski betur en flest annað þau lausatök, það stjórnleysi og þann hringlandahátt sem einkennir glímu ríkisstjórnarinnar við efnahagsmál, þótt í upphafi hafi ráðherrarnir talað hátt um það að nú væru sestir á valdastóla þeir flokkar sem ætluðu að sýna ábyrgð og stefnufestu í þessum efnum.

Þann 17. september er skýrt frá því í forsíðu- og baksíðufrétt dagblaðanna að ríkisstjórnin sé í púlvinnu við að ganga frá fjárlagafrv. og í fyrirsögn er sagt að það séu mikil átök um fjárlagafrv, og jafnvel um það rætt að Jón Baldvin Hannibalsson leggi frv. fram í eigin nafni vegna þess að hann hafi ekki stuðning ríkisstjórnarinnar til þess að flytja það. Næsta dag koma svo fréttir um það að yfir nóttina hafi fundist hundruð milljóna kr. í eftirleit þannig að fjmrh. gat allt í einu birst þjóðinni glaður og einbeittur á svip, búinn að leysa fjárlagavandann með því að finna þessi hundruð milljóna í eftirleit. Og Alþýðublaðið, hið merka blað sem á sér Langa og mikla sögu, hefur það eftir leiðtoga sínum, Jóni Baldvini Hannibalssyni, 18. sept.: „Smiðshöggið rekið á fjárlagafrv. um helgina.“ Það smiðshögg er ekki fallið enn.

Síðan gerist það tveimur til þremur vikum síðar að allt í einu koma fréttir um það að ríkisstjórnin hafi hlaupið til með miklu írafári fáeinum dögum áður en Alþingi kemur saman og Látið breyta þjóðhagsspánni af því að spámennskan í Þjóðhagsstofnun var einum of gegnsæ fyrir ríkisstjórnina sjálfa. Óskaði ríkisstjórnin eftir því að spáð væri meiri viðskiptahalla og engum hagvexti. Ja, hvílík reisn yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að óska sérstaklega eftir því að engum hagvexti verði spáð! Þegar Þjóðhagsstofnun, sem er góðhjörtuð stofnun, þjónustaði ríkisstjórnina með þessari nýju spá, þá gerist það föstudaginn 9. okt., um það bil sem ráðherrar voru að fara í fínasta pússið sitt til þess að koma hér til þings - og alltaf áður hefur fjárlagafrv. legið fullprentað í geymslum Alþingis til þess að verða lagt fram á fyrsta degi þingsins - þá gerist það að fjárlögin eru óvænt skotin upp og skattar hækkaðir. Það væri dálítið fróðlegt að hæstv. fjmrh. svona í „forbifarten“ á næstu dögum upplýsti þjóðina um það hve mörgum tonnum af pappír var hent í hinu fullprentaða fjárlagafrv. eftir að sá uppskurður hafði átt sér stað. Aldrei fyrr í þingsögu Íslendinga hefur ný ríkisstjórn, sem haft hefur marga mánuði til að undirbúa verk sín, komið til þings með fjárlagafrv. sem hún skar upp tveimur nóttum fyrir þingsetningu.

Síðan halda sögurnar áfram. Hv. þm. Halldór Blöndal, sem hér er mættur í salnum, lýsti því svo sérstaklega yfir uppskurðardaginn að húsnæðismálin væru í algerum ólestri. Og voru þó húsnæðismálin eitt af því sem Alþfl. notaði aðallega til þess að réttlæta þátttöku sína í þessari ríkisstjórn. Laugardaginn 10. okt., daginn sem þingið er sett, hefur hinn fjölmiðlaglaði fjmrh. látið þjóðinni í té þær upplýsingar að fjárlagagatinu, þessu gati sem allt í einu fannst á sama hátt og hundruð milljóna fundust skyndilega í eftirleit tveim, þremur vikum áður, að þessu fjárlagagati hafi verið lokað á næturfundi ráðherranna. Það er kannski von að eitthvað sé skrýtið í Stjórnarráðinu þegar grundvallarmálefni ríkisstjórnarinnar eru afgreidd á næturfundum og helmingur ríkisstjórnarinnar hleypur á fréttamannafundi um kvöldmatarleytið uppi í Stjórnarráði til þess að reyna að koma einhverjum skikk á stefnu sína. En af því að hæstv. fjmrh. er kjarkmikill maður, þá segir hann auðvitað að lokinni þessari fjögurra vikna sögu í viðtali við Dagblaðið í gær, orðrétt: „Það er pólitískt afrek að hafa tekist að ná þessu markmiði af hálfu stjórnarflokkanna á svo skömmum tíma.“ Ja, miklir menn erum við, hæstv. fjmrh. Það er að vísu rétt að enginn annar fjmrh. í sögu íslenska lýðveldisins hefur leikið það eftir að skera upp sitt eigið frv. á tveimur nóttum, tveimur vikum eftir að hann sagði þjóðinni að það væri fullfrágengið. Hæstv. ráðherra gleymdi bara að segja frá því hvort það var hnífurinn frá Verslunarráðinu sem hann notaði í þennan uppskurð. En það er athyglisvert að þessi sami fjmrh., sem tekur við gjöfum frá Verslunarráðinu, er fremstur í flokki að svíkja skriflegar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið alþýðusamtökunum í landinu.

En sagan er ekki búin því sama daginn og hæstv. fimrh. lýsti því með eigin orðum að þetta væri pólitískt afrek að ganga frá fjárlagafrv. með þessum hætti, þá greinir Morgunblaðið frá því að hæstv. landbrh. sé með algjöran fyrirvara á einn helsta hornstein fjárlagafrv., þ.e. að flytja verulegan hluta útgjalda til landbúnaðarmálefna af ýmsu tagi yfir til samtaka og einstaklinga og út úr fjáröflunarkerfi ríkissjóðs. Og Morgunblaðið segir orðrétt, hæstv. forseti, að hæstv. landbrh. „treysti á að þingmannanefnd leysi ágreininginn við fjmrh.“. Mörg eru orðin dæmin um það að þessi ríkisstjórn ætti að fara í heimsmetabók Guinness því það er heldur ekkert dæmi um það fyrr í þingsögunni að ráðherrar í upphafi þings hafi gefist upp við að leysa ágreiningsmál innan ríkisstjórnarinnar og vísað þeim málum til þingnefndar. Er nú svo komið fyrir manninum, sem í tvö ár stóð hér í þessum ræðustól nánast í hverri viku og sagði þjóðinni að það mundi verða hans fyrsta verk að moka út úr því sem hann kallaði framsóknarfjós, að Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., og Egill Jónsson af öllum mönnum eru orðnir yfirmenn hæstv. fjmrh. í fjárlagagerðinni. Verður gaman að sjá þá formann fjvn., Sighvat Björgvinsson, og hæstv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, á næstu vikum og mánuðum ganga fyrir þá Pál Pétursson og Egil Jónsson til þess að spyrja hvort þeir séu ekki komnir með lausn á þessum vanda. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna Egill Jónsson og Páll Pétursson sitja bara ekki í ríkisstjórninni úr því að ríkisstjórnin felur þeim á fyrstu dögum þingsins að meðhöndla það fjöregg sem hún hætti sjálf við að henda á milli sín af ótta við það að hún missti það og yrði þá að labba út úr Stjórnarráðinu.

Það er greinilegt að hæstv. landbrh. hefur viljað koma því rækilega til skila að hann væri andvígur hæstv. fjmrh., hann væri í andstöðu við þennan hornstein fjárlagafrv. vegna þess að hann lætur Tímann, málgagn Framsfl., lýsa því yfir í dag að hann sé ósáttur við tillögur Jóns. Nú heitir fjárlagafrv. allt í einu „tillögur Jóns“, rósafrv. sem fölnaði strax á öðrum degi. Vill enginn lengur eiga þessar rósir, hæstv. fjmrh.? Ekki Framsfl. og ekki Sjálfstfl. Fjárlagafrv. er ekki lengur fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Það er ekki lengur frv., það er bara „tillögurnar hans Jóns“. Er von að Alþingi og þjóðin vilji fá einhver skýr svör við því hvað þinginu sé ætlað að fjalla um og hver sé stefna viðkomandi ríkisstjórnar?

Hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., er því miður fjarstaddur þessa umræðu og það er reyndar athyglisvert að þeir eru báðir fjarstaddir þessa umræðu, yfirfjmrh. Páll Pétursson og Egill Jónsson. (Gripið fram í: Þeir eru á fundi.) Já, þeir eru kannski á fundi. Þeir eru kannski sestir inn í fjmrn. og farnir að skoða hnífinn frá Verslunarráðinu til að fjalla um það hvernig eigi að skera landbúnaðarframlögin niður. (MB: Þá er bara að þeir meiði sig ekki á honum.) Nei, þeir kunna nú báðir að slátra og kannski enda þeir með því að slátra hæstv. fjmrh.

En hv. þm. Páll Pétursson hefur hins vegar talað í málinu vegna þess að hann segir í viðtali við Dagblaðið fyrir tveimur dögum síðan, herra forseti: „Ég er ekkert yfir mig hamingjusamur. Það vantar ýmislegt í það," þegar hann er spurður um fjárlagafrv. og bætir svo við: „En það var niðurstaðan að sýna þetta.“

Að sýna þetta. Það hefur aldrei fyrr gerst heldur að formaður þingflokks aðalflokks ríkisstjórnarinnar lýsi því yfir strax í upphafi þings að fjárlagafrv. sé bara sýningargripur, nánast til að hafa eitthvað sem þm. geti lagt ofan á þskj. til að passa að þau fjúki ekki hérna um borðin. En stefna ríkisstjórnarinnar er það ekki. Stefna Framsfl. er það ekki. Stefna landbrh. er það ekki. Þess vegna er spurt: Hver styður þetta fjárlagafrv. eiginlega? Sjálfstfl.? Alþfl.? Eða er fyrsta fjárlagafrv. þessarar ríkisstjórnar þegar í upphafi þings orðið minnihlutagagn hér á borðum þm.? Það sýnir þess vegna pólitískt raunsæi hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar að hann skuli segja í fyrrgreindu víðtali fyrir nokkrum dögum síðan, herra forseti: „Þrátt fyrir þessa gagnrýni á ríkisstjórnina tók Guðmundur skýrt fram að hann styddi þessa ríkisstjórn.“ Það var greinilega ekki vanþörf á. En svo bætir hann við: „Þar sem hann sæi ekki möguleika á annars konar stjórn í stöðunni.“ Stöður breytast fljótt, vita skákmenn, fyrrv. forseti Skáksambands Íslands, sem haldið hefur heimsmeistaraeinvígi í skák hér á landi, þannig að það er kannski þegar byrjuð skákin um líf ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu og staðan sé þannig núna að dómi hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar að það sé kannski ekki önnur stjórn í stöðunni. En kannski hann ætti að kalla á okkur hina til að kíkja á þessa stöðu og sjá aðeins til hvort ekki er hægt að tefla úr biðskákinni í næstu umferð.

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði sem var skýrt og afdráttarlaust í þessum kvöldtilkynningum sem ráðherrarnir fluttu ríkisstjórninni úr Stjórnarráðinu á öðrum degi þingsins í stað þess að koma hingað til Alþingis og flytja þær hér. Það var það atriði að einstaklingum og fyrirtækjum væri heimilað að kaupa erlend verðbréf. Það var skýrt. Það var ljóst. Nú geta gróðaöflin í landinu hætt að fjárfesta í framtíð íslensks atvinnulífs, hætt að byggja upp sjávarútveginn og iðnaðinn og atvinnulífið í kringum landið vegna þess að ríkisstjórnin hefur þó tekið ákvörðun um eitt: Að heimila kaup á erlendum verðbréfum. Það væri reyndar fróðlegt að fá að vita hvort einnig liggi fyrir samþykktir þingflokka allra ríkisstjórnarflokkanna fyrir þessu stefnuatriði eða ekki. Eru allir þm. ríkisstjórnarflokkanna, landsbyggðarþingmennirnir, stuðningsmenn sjávarútvegs og iðnaðar, þeir sem vilja byggja upp heilbrigt atvinnulíf í þessu landi, sammála því sem er ein helsta efnahagsaðgerð sem þessi ríkisstjórn beitir sér fyrir og það eina sem er skýrt af því sem hún hefur sagt undanfarna daga: að opna á það að menn geti farið að kaupa erlend verðbréf í stórum stíl og flytja þannig fjárfestingarfjármagnið frá íslenskum atvinnuvegum og yfir á erlendu kaupendurna? Eða skyldi skýringin vera sú sem kemur fram í viðtali í gær í Morgunblaðinu við einn helsta forsvarsmann verðbréfasalanna í landinu? Þegar Morgunblaðið spyr hann um þessa merku ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem Morgunblaðið greinilega fagnar og verðbréfasalinn fagnar einnig, þá segir hann, herra forseti:

„Þetta þýddi t.d. að hægt yrði að fjárfesta í skuldum ríkisins sem til sölu eru á verðbréfamörkuðum erlendis.“

Það er eini fjárfestingarboðskapurinn sem þessi ríkisstjórn flytur að bjóða mönnum að fara að braska í kauphöllinni í Tokyo, London og New York til að geta fjárfest í skuldum íslenska ríkisins. Er það sú besta fjárfesting, sem þessi ríkisstjórn boðar þjóðinni, skuldir ríkissjóðs? Þær séu arðbestar, þær séu hornsteinninn í hinni nýju atvinnustefnu og endurreisn atvinnulífs á Íslandi?

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt, eins og ég sagði í upphafi, að hæstv. ráðherrar, fjmrh. og forsrh. og síðan einnig utanrrh. og þeir aðrir þm. sem hér eiga hlut að máli, taki af öll tvímæli í þessum efnum svo að það liggi ljóst fyrir hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Tími blekkinganna í íslenskum efnahagsmálum á að vera liðinn. Allt sl. ár, allt þetta ár, stundaði þáverandi ríkisstjórn magnaða blekkingarstarfsemi um ástandið í efnahagsmálum. En nú hefur núverandi ríkisstjórn, sem báðir síðustu stjórnarflokkar sitja í, lagt hér á borð þm. þjóðhagsáætlun þar sem á upphafssíðu er kveðinn upp sami dómur yfir blekkingarvef síðustu ríkisstjórnar og við fluttum hér, forsvarsmenn Alþb. og aðrir forustumenn Alþb. á undanförnum mánuðum og sem við í kosningabaráttunni vöruðum þjóðina við, dómur um verðbólgu og viðskiptahalla. Þessum blekkingum á að linna.

Íslenska þjóðin hefur engin efni á því að hafa forustu sem kann ekki að tala skýrt, veit ekki hvað hún vill og hefur misst öll tök á efnahagsstjórninni. Þjóðin krefst þess að fá að vita hvar ríkisstjórnin stendur. Við höfum engin efni á því að því sem eftir er af þessu ári og næsta ári verði eytt í annað blekkingartímabil eins og þeim síðustu missirum sem liðu þar til kosningar fóru fram í þessu landi. Til þess að reyna að eyða þessum blekkingarvef hef ég, herra forseti, kvatt mér hér hljóðs til þess að knýja á um að þjóðin fái að vita hvað ríkisstjórnin vilI — ef ríkisstjórnin veit þá hvað hún vill.