24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

130. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. til l. um breytingu á lögum um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 frá 23. júní 1936, sem hér liggur frammi, var lagt fyrir síðasta Alþingi en varð þá ekki útrætt. Ég endurflyt það nú óbreytt. Þetta frv. var samið af réttarfarsnefnd en sú nefnd starfar að endurskoðun laga um málsmeðferð fyrir dómstólum og hefur á undanförnum árum skilað ýmsum tillögum um þau efni sem síðar hafa verið lögfestar.

Ég nefni tillögur sem lutu að breytingum á einkamálalögum, með lögum nr. 28/1981, sem tóku gildi 1. jan. 1982. Með þeim breytingum var málsmeðferð í einkamálum gerð einfaldari og skilvirkari og afgreiðsla dómstóla þar með greiðari. Síðan hafa komið fram ýmsar ábendingar um frekari endurbætur á einkamálalögunum í því skyni að einfalda málsmeðferð og auka virkni dómstólanna. Þótti því réttarfarsnefnd tilefni til þess að fá álit dómenda og stjórnar Lögmannafélags Íslands um núgildandi löggjöf á þessu sviði. Jafnframt var leitað eftir ábendingum og tillögum um þær breytingar á lögunum sem þættu gagnlegar.

Þetta frv. er samið í ljósi þessara álitsgerða og með hliðsjón af ýmsum öðrum atriðum sem réttarfarsnefnd taldi ástæðu til að endurskoða. M.a. er hér lagt til að ákvæðin um svokölluð áskorunarmál í lögum nr. 97/1978 verði felld inn í einkamálalögin sem XX. kafli þeirra laga. Breytingarnar, sem lagðar eru til með þessu frv., eru í 24 efnisgreinum, auk þess koma svo breytingar sem leiða af því að lagaákvæðin um áskorunarmálin, sem ég nefndi, verða felld inn í lögin. Ég ætla nú að rekja í örstuttu máli einstakar greinar frv. til frekari skýringar á því fyrir hv. þingdeild.

1. gr. fjallar um breytingu á því hvar setudómara sé heimilt að kveða upp dóm í máli, en breytingin leiðir einfaldlega af því að dómari er ekki alltaf búsettur í því lögsagnarumdæmi þar sem hann gegnir aðalstarfi á okkar tíð.

2. gr. þrengir skilyrðin til þess að menn geti fengið skipun í dómarastarf, en breytingin er lögð til með hliðsjón af breyttri embættaskipan í landinu og þörfinni á því að þeir sem skipaðir eru til dómarastarfa hafi aflað sér nægilegrar reynslu og þekkingar með störfum þar sem reynir á lögfræðilegar úrlausnir. Þannig gagnast nú ekki lengur bankastjórastörf, sendiráðsstörf, forsetaritarastörf eða störf í embætti þar sem askilin er hagfræðimenntun til embættisgengis til dómarastarfa. Ég nefni þetta til marks um það í hverju þessi efnisbreyting er fólgin. Hún bindur skilyrðin þar með frekar við lögfræðileg embættisstörf.

3. gr. fellir niður heimild til að setja ólöglærða menn í störf héraðsdómara, en heimildin var sett í lög meðan skortur var á löglærðum mönnum. Á þeim er nú enginn hörgull lengur og heimildin því óþörf.

4. gr. fjallar um áminningarvald forstöðumanna dómaraembætta. Það þykir rétt að taka af öll tvímæli um áminningarvald forstöðumanna dómaraembættanna gagnvart öðrum dómurum hjá embættinu. Á sama hátt er forseta Hæstaréttar veitt vald til þess að áminna forstöðumenn dómstóla. Þessi breyting er gerð til samræmis við sjálfstæði dómsvaldsins sem eins af þremur þáttum ríkisvaldsins, en haggar þó ekki rétti ráðherra til þess að áminna dómara og dómarafulltrúa þegar það á við skv. lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Agavald forstöðumanna dómaraembættanna á yfirleitt við í öðrum tilvikum en þeim þegar grípa þyrfti til agavalds ráðherrans vegna alvarlegra brota í starfi. En tilgangurinn með þessum formlegu ákvæðum og þessum nýju ákvæðum er auðvitað endanlega sá að bæta verkstjórn og skilvirkni dómstólanna til þess að hraða gangi mála.

5. gr. í frv. er í samræmi við 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, en hún kveður á um tvímælalausa skyldu til þess að halda dómþing í heyranda hljóði þótt undantekningar séu leyfðar frá því við alveg sérstakar aðstæður.

6. gr. kveður á um fækkun þingvotta úr tveimur í einn þegar einn maður situr í dómi. Réttarfarsnefnd telur einn vott nægja og horfir þetta til hagræðis og sparnaðar.

7. gr. er tilkomin vegna aukinnar notkunar ljósritunartækni, en rétt þykir að taka fram skyldu til þess að framvísa frumritum skjala fyrir dómi ef þau eru á annað borð tiltæk.

8. gr. fjallar um skýrari reglur en nú gilda um það tilvik þegar fleiri en einn eiga óskipt réttindi, skyldu og sakaraðild, en réttaróvissa um þetta atriði getur í einstökum tilfellum leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Hér er lögð til sú breyting að eigi sé skylt að vísa máli frá dómi enda þótt allir samaðilar taki ekki þátt í málshöfðun. Hins vegar verður það óbreytt að vísa ber máli frá dómi ef þeim er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar.

9. gr. hefur að geyma smávægilegar breytingar á þeim ákvæðum, sem nú gilda um efni og gerð stefnu fyrir dómi, en ákvæðin eru til þess gerð að auðvelda stefndum að átta sig á kröfum og málsástæðum stefnanda og að auðvelda dómara að átta sig á efni málsins. Ákvæðin um það hvað skuli greina í stefnunni hafa tvímælalaust greitt fyrir meðferð dómsmála síðan þau voru í lög leidd. Breytingin sem hér er gerð tillaga um gæti enn bætt gerð stefnuskjalanna og þar með greitt fyrir gangi dómsmála.

Í 10. gr. eru ýmis nýmæli sem eru til samræmis við löggjöf annars staðar á Norðurlöndum og reyndar í fleiri löndum, en hún fjallar um heimild til að höfða sérstakt vitnamál fyrir dómi. Slík heimild getur komið í veg fyrir óþörf dómsmál þegar upplýsingar allar liggja fyrir eða þá að upplýsingarnar leiði til þess að menn sjái að réttast muni að sættast án málsóknar. Þetta nýmæli gæti vonandi fækkað dómsmálum og væri það vel.

Í 11. gr. er eingöngu fólgin umorðun á núgildandi grein í því skyni að gera hana skýrari.

Í 12. gr. frv. eru ákvæði til þess að eyða réttaróvissu, eins og nánar er skýrt í grg., og eykur m.a. heimildir Hæstaréttar til þess að breyta úrskurðum varðandi frávísunarkröfur frá dómum.

Í 13. gr. er staðfest sú meginregla sem nú er fylgt að málflutningur skuli vera munnlegur fyrir dómi.

Í 14. gr. er orðalagsbreyting til samræmis við þetta ásamt því sem hún nú miðar að því að auka líkur á sáttum og stuðlar að greiðari málsmeðferð. Í henni er fjallað um breytingu sem leiðir af ákvæðum 13. gr. um munnlegan málflutning. Þá er þar nýmæli um þinghald eftir greinargerð stefnda og rétt dómara að krefja aðila um útreikninga fyrir kröfum sínum til frekari rökstuðnings þeim, en á það hefur þótt skorta að dómarar gætu krafist slíkra gagna.

15. gr. fjallar um undirbúning aðalréttarhalds í máli, en það nefnist nú aðalmeðferð. Það er mikilvægt að aðilar og vitni mæti þá til þess að gefa skýrslur og vitnisburð. Síðan fer fram málflutningur meðan efni skýrslna og vitnisburða er enn ferskt í hugum manna.

16. gr. kveður á um það að eftir að svokölluð aðalmeðferð var tekin upp í meðferð einkamála hafi liðið mun skemmri tími frá þingfestingu þeirra til dómsuppsögu. Hér er bætt við því nýmæli að í upphafi aðalmeðferðar gefi dómari sækjanda og verjanda kost á að gera stuttlega grein fyrir málinu. Meginreglan er sú að málflutningur er munnlegur, en málflutningur getur þó enn í undantekningartilfellum verið skriflegur.

Í 17. gr. er fjallað um rétt sækjanda til að fella mál niður og er hann nokkuð rýmkaður frá núgildandi ákvæðum.

Í 18. gr. er heimilað það nýmæli að kveðja megi einn matsmann til þess að meta minni háttar hagsmuni sem um er deilt. Er þetta lagt til í sparnaðarskyni fyrir aðila, en matskostnaður getur í sumum tilfellum orðið hærri en þau verðmæti sem um er deilt þegar tilkvaddir eru tveir matsmenn.

19. gr. er samin sökum þess að nú hafa orðið þær breytingar á framkvæmd skattamála að niðurjöfnunarnefndir eru ekki lengur lögskyldar og kemur þá skattstjórinn í stað formanns niðurjöfnunarnefndar þar sem það á við.

Í 20. gr. er fjallað um heimild til þess að dæma vexti af málskostnaðarkröfum. Í athugasemdum er einnig tekið fram að eðlilegt virðist að dómari geti metið verðrýrnunartjón aðila frá því er féð var útlagt og þar til dómur er upp kveðinn.

Í 21. gr. er fjallað um heimild til að dæma refsimálakostnað ef réttarfarsreglur eru freklega brotnar á þann hátt að settar eru fram rangar kröfur í því skyni að tefja framgang réttlætisins.

Í 22. gr. er að finna þau ákvæði sem líklega eru ein veigamesta breytingin sem í frv. felst, en þar er lögð sú skylda á héraðsdómara að hann láti forsendur fyrir úrskurði sínum fylgja, sé dómsmál kært til Hæstaréttar, þótt hann hafi ekki bókað þær við uppkvaðningu úrskurðarins.

Sömuleiðis skal héraðsdómari í fógeta-, skipta- og uppboðsmálum og þinglýsingarmálum bóka forsendur sínar fyrir ákvörðunum er fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefni. Þetta er auðvitað gert til þess að auka réttaröryggi og draga úr réttaróvissu, sem m.a. getur leitt til tilefnislausrar áfrýjunar auk þess sem þetta mun greiða fyrir gangi mála fyrir Hæstarétti ef áfrýjun er leyfð.

Í 23. og 24. gr. eru eingöngu smávægilegar orðalags- og tilvísunarbreytingar sem eru skýrðar í grg. Og með 25. gr. eru lögin um áskorunarmál sem ég nefndi í upphafi felld í heilu lagi inn í einkamálalögin með fáeinum orðalags- og fyrirkomulagsbreytingum.

Þess má hér geta að hin skjóta meðferð einfaldra mála sem felst í áskorunarmálum hefur, síðan hún var tekin upp, sparað aðilum kröfumála og dómstólunum ótaldar fjárhæðir.

Hæstv. forseti. Ég hef nú í stuttu máli rakið efni þessa frv. Í því er hreyft við mörgum framkvæmdaratriðum varðandi gang einkamála fyrir dómstólum og auk þess gerðar tillögur um nokkur nýmæli. Ég vil nefna sérstaklega heimild til að höfða vitnamál fyrir dómi án þess að um eiginlegt dómsmál sé að ræða og um skyldu héraðsdómara til að láta forsendur fylgja úrskurði um kæru til Hæstaréttar og fyrir lokaúrskurðum í fógeta-, skipta- og uppboðsmálum og þinglýsingarmálum. Réttarfarsnefnd telur ótvírætt að frv., ef það verður að lögum, muni greiða mjög fyrir meðferð einkamála fyrir dómstólum landsins.

Þá vil ég nefna að heimildin til að fækka þingvottum og matsmönnum mun án alls efa leiða til sparnaðar, bæði fyrir dómskerfið og almenning. Með vaxandi umsvifum í þjóðlífinu hefur dómsmálum fjölgað verulega og því verður að mæta annars vegar með reglum sem stuðla að greiðari meðferð þeirra fyrir dómstólum og hins vegar með því að búa betur að dómstólunum. Ég vil því hvetja til þess að frv. fái skjóta meðferð hér á Alþingi og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.