24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

131. mál, hlutafélög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil fara örfáum orðum um þær athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið í máli hv. þingdeildarmanna, 8. og 11. þm. Reykv.

Ég get fullvissað hv. 8. þm. Reykv. um að það er ekki tilgangur þessa frv. að hamla starfsemi hlutafélaga. Þvert á móti er það til þess hugsað að greiða fyrir starfsemi þeirra, en gera hana um leið öruggari og ábyrgari gagnvart almenningi og eigendum hlutafjárins.

Ég tek undir það með hv. 8. þm. Reykv. að lykillinn að því að almenningur vilji eiga hlutabréf er samræmi í skattlagningu eignatekna, að þær verði allar skattlagðar eins af hvaða eign sem þær koma. Fyrr en við gerum það munum við ekki ná því markmiði, sem hv. 8. þm. Reykv. lýsti, að dreifa eignarhaldi yfir þjóðarauðnum og atvinnutækjunum eins og unnt væri að gera í ríkari mæli ef við hefðum slíka skattalöggjöf. Þetta er enda á starfsáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þetta vildi ég hafa nefnt.

Ég vil líka þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir þá yfirlýsingu að hv. fjh.- og viðskn. muni fara vandlega yfir frv. og koma með ábendingar um það sem betur má fara því það er vissulega rétt að þarna orkar margt tvímælis. Svo ég taki dæmi má nefna fækkun félaga í hlutafélögum. En það er einmitt tilgangur þeirra sem þá tillögu gera að stuðla að fækkun málamyndahluthafa; þ.e. stuðla að fækkun málamyndafélaga. Þá verður auðveldara að greina hverjir eru í raun og veru eigendur og ábyrgðarmenn félagsins ef þar eru eingöngu taldir þeir sem eru raunverulegir hluthafar.

Þetta er aftur á móti eitt af þeim atriðum sem hv. 11. þm. Reykv. nefndi sem athugunarvert og varhugavert, þ.e. að fækka félögunum. Þetta atriði tel ég að þurfi að athugast mjög vel því þarna togast á sjónarmið um hvort það sé heppilegra að hafa fjölmenn málamyndarfélög eða fámenn raunveruleg félög. Þetta er ekki svona einfalt, en þarna er ekkert eitt satt og ég tek undir það með hv. þingdeildarmönnum að þetta atriði þurfi að athuga sérlega vel. En það er, eins og kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., ekki stóra málið í frv. Það þarf þó eins og annað vandlegrar skoðunar við.

Hv. 11. þm. Reykv. nefndi réttilega að fyrir utan ákvæði sem lúta að stofnun hlutafélaga þurfi að gaumgæfa sérstaklega vel og búa vel um hnúta hvað varðar skráningu á hlutafélögum, alla skráningu á öllu því sem að þeim lýtur. Ég tek undir þetta og tel að það sé ekki síst tilgangur frv. að gera þær reglur og þann umbúnað allan sem hentugastan en þó öruggastan. En þar er vafalaust fjölmargt sem athugunar þarf við og ég vona að fjh.- og viðskn. þessarar deildar muni gera það vandlega.

Þriðja atriðið sem hv. 11. þm. Reykv. nefndi og taldi að sérstaklega þyrfti að huga að var ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum, að þar þyrfti að kveða skýrar á og gera hana ríkari. Það má vera, en þó mundi ég telja að það dæmi sem hv. 11. þm. Reykv. tók í sínu máli hafi áreiðanlega varðað einhver önnur lög en hlutafélagalögin því þar var lýst málamyndagerningum sem voru beinlínis skattsvik ef ég skildi málið rétt. Það má ekki blanda því saman við hlutafélagalöggjöfina. Ekki þar fyrir að það er svo sannarlega rétt að þarna þarf að búa vel um hnútana.

Um fjárhæð stofnfjár kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. að hann teldi að 400 þús. kr. væru helst til lágt en 1 millj. væri hæfileg tala. Um þetta er heldur ekki hægt að hafa neina meginreglu eða grundvallarskoðun. Ég býst við því að á þetta megi líta frá tveimur hliðum. Frá sjónarmiði litla mannsins sem vill stofna félag er 1 milljón býsna mikið fé. Og hugsanlega má setja á fót ýmiss konar rekstur, sem stæði þó vel undir ábyrgð, með 400 þús. kr. Ég er ekki að halda því fram að þetta ætti að vera einhlítt sjónarmið, en vildi nefna það um leið að þetta er ekki bara trygging fyrir þá sem eiga skipti við félagið heldur er þetta líka þröskuldur fyrir þá sem vilja hefja atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Þess vegna þurfa menn að kunna sér hóf í að setja háan þröskuld þótt ábyrgðarhliðin á málinu, sem hv. 11. þm. Reykv. réttilega nefndi, sé ákaflega mikilvæg.

Ég vildi svo að endingu taka sterklega undir það, sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv., að það er engin minnkun að því að þiggja réttarreglur frá nálægum löndum hvorki á þessu sviði né á ýmsum öðrum. Þvert á móti er það þjóðarnauðsyn því á þessu sviði stefnir í aukið samstarf landa og þjóða á milli og þá þurfum við að marki að hafa samræmt okkar reglur um atvinnurekstur og skipulagsform hans, þar með lögin um félög og hlutafélög. Ég er ekki að segja að við eigum eingöngu að herma það sem aðrir hafa, en við megum heldur ekki gleyma því að við þurfum að vera samstarfshæfir og við eigum að greiða fyrir samstarfi með eðlilegum hætti, þar á meðal með því að haga okkar löggjöf nokkuð í hátt við það sem tíðkast með þeim þjóðum sem við höfum mest samskipti við og gerum gjarnan samanburð við um lífskjör og atvinnuhætti.