24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

116. mál, læknalög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til læknalaga á þskj. 120, 116. máli Nd.

Á síðasta Alþingi var lagt fram frv. til nýrra læknalaga. Frv. var að mestu leyti samhljóða tillögum stjórnskipaðrar nefndar sem fékk það hlutverk að endurskoða gildandi læknalög nr. 80 frá 1969, með síðari breytingum, en lögin eru að stofni til frá 1932. Frv. fékk ítarlega umfjöllun í heilbr.- og trn. Ed. og voru gerðar á því nokkrar breytingar í samráði við heilbrigðismálaráðuneytið, Læknafélag Íslands og læknadeild Háskóla Íslands. Var frv. þannig búið lagt fyrir Nd. rétt fyrir þinglok en ekki vannst tími til að ræða það í deildinni. Hér er frv. því lagt fram á nýjan leik að höfðu samráði við áðurgreinda aðila, með smábreytingum frá því sem það kom til Nd., að fengnum tillögum landlæknis. Um er að ræða breytingar er varða síðustu mgr. 2. gr. þar sem láðist að geta landlæknis sem matsaðila og 19. gr. þar sem hnykkt er á eftirlitsskyldu landlæknis með ávísun lækna á ávana- og fíknilyf. Í þessari umræddu 2. gr. er breytingin í seinasta málslið sem segir:

„Óheimilt er að veita manni læknaleyfi ef 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans eða ef landlæknir eða nefnd skv. 3. mgr. telur hann óhæfan“ o.s.frv.

Þarna hafði láðst að geta landlæknis eftir þær breytingar sem gerðar voru á 2. gr. í meðförum Ed. á frv. á síðasta þingi. Mun ég gera nánar grein fyrir þeirri breytingu hér á eftir.

Og varðandi hina breytinguna, sem einnig er nefnd, þ.e. í 19. gr. Þar var bætt við 1. mgr. í þeirri grein sem hljóðar nú svo: „Landlæknir hefur almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf“ og er þar, eins og kom fram hér áður, hert á eftirlitsskyldu landlæknis.

Að öðru leyti var frv. óbreytt frá því sem það var afgreitt frá Ed. á síðasta Alþingi rétt fyrir þingslit. Í nefnd þeirri sem falið var að gera tillögur að nýjum læknalögum áttu sæti: Ólafur Ólafsson landlæknir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ingimar Sigurðsson, lögfræðingur í heilbr.- og trmrn., Ólafur Bjarnason prófessor, sem tilgreindur var af læknadeild Háskóla Íslands, María Pétursdóttir skólastjóri, sem tilgreind var af Samtökum heilbrigðisstétta, og Guðmundur Oddsson læknir, sem tilgreindur var af Læknafélagi Íslands. Við endurskoðun laganna hugaði nefndin sérstaklega að eftirfarandi atriðum:

1. Reynslunni af framkvæmd gildandi læknalaga sem að stofni til eru frá 1932, eins og áður segir, og hafa lítið breyst frá þeim tíma.

2. Áhrifum af tilkomu annarra heilbrigðisstétta á framkvæmd læknalaga. Nú njóta milli 20 og 30 heilbrigðisstéttir lögverndunar en þær voru sárafáar 1932.

3. Breytingum á læknalögum annarra Norðurlanda. Ísland hefur frá 1979 verið aðili að norrænum samningi um sameiginleg starfsréttindi lækna á Norðurlöndum þannig að löggjöf einstakra Norðurlanda hefur bein áhrif á framkvæmd þess samnings.

Nefndin lauk störfum í byrjun árs 1983 er hún lagði fyrir ráðuneytið tillögur í búningi lagafrv. Náði nefndin samstöðu um flest efnisatriði og byggði frv. það sem lagt var fram í fyrra á þeim atriðum sem ekki var ágreiningur um, með örfáum undantekningum. Læknafélag Íslands, Samtök heilbrigðisstétta og læknadeild Háskóla Íslands fjölluðu um frv. á meðan það var í smíðum og kom fram stuðningur við það og ábendingar sem margar voru teknar inn í tillögur nefndarinnar.

Geta má þess að nýlega barst heilbrmrn. bréf frá Læknafélagi Íslands þar sem skorað er á ráðherra að leggja frv. fram að nýju. Í þessu bréfi, sem dags. er 9. okt. 1987, segir, með leyfi forseta:

„Á aðalfundi Læknafélags Íslands í fyrra mánuði var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Reykjavík 21.–22. sept. 1987 skorar á ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála að leggja að nýju fram frv. til læknalaga á næsta Alþingi. Væntir stjórn félagsins þess að frv. verði lagt fram sem fyrst.“

Þetta er til áréttingar því að um frv. eins og það var hér til meðferðar á seinasta Alþingi var samstaða við þessa aðila.

Frv. fjallar um réttindi og skyldur lækna og má í stuttu máli segja að eftirtaldir þættir lýsi inntakinu best:

Annars vegar er fjallað um réttindi lækna sem skiptast í réttinn til að stunda almennar lækningar, til að nota aðstoðarfólk, til þess að skorast undan að framkvæma aðgerð sem ekki er unnin í lækningaskyni og réttinn til að ávísa lyfjum. Hins vegar eru skyldur lækna sem eru fólgnar í upplýsingaskyldu gagnvart sjúklingi eða aðstandendum og greina frá undantekningum frá reglum um upplýsingaskyldu, ábyrgð læknis vegna réttar sjúklings til þess að skorast undan aðgerð og skyldu læknis til hjálpar, þagnarskyldu og ábyrgð læknis vegna mistaka eða vanrækslu í starfi.

Helstu nýmæli frv. eins og það liggur fyrir hér eru:

1. Nýskipan mála við mat á lækningaleyfum, sbr. 2. gr. frv., sem ég vitnaði aðeins til áðan, og vísa jafnframt í athugasemdir í grg. á bls. 7 þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á frv. í Ed. á síðasta þingi. En í 2. gr. er fjallað um eftir hvaða reglu skuli veita leyfi þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands og viðbótarnámi frá heilbrigðisstofnunum hér á landi samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands. Breytingin sem gerð var á þessari grein á síðasta þingi var í þá veru að lögð er til breyting á 2. gr. þannig að landlæknir verði ekki aðili að umfjöllunarnefnd um lækningaleyfi heldur sérstakur umsagnaraðili og að nefndin verði skipuð einum fulltrúa Læknafélags Íslands og tveimur fulltrúum læknadeildar Háskóla Íslands. Í þessu er fólgin nokkur breyting miðað við hvernig frv. var í upphafi lagt fram.

2. Hér er um að ræða skýrari ákvæði um mat á menntun og um kröfur sé menntun fengin erlendis.

3. Starfi læknanemi sem læknir, þ.e. með tímabundnu lækningaleyfi, skal hann starfa með fullgildum lækni.

4. Skýrari ákvæði eru um réttindi lækna og í hverju þau skulu fólgin, sbr. það sem ég hef áður sagt hér á undan.

5. Hnitmiðaðri ákvæði eru um skyldur lækna og þeim deilt niður eftir viðfangsefnum. Meðal nýmæla er ótvíræð tilkynningarskylda læknis til landlæknis verði hann var við mistök og eða vanrækslu sem rekja má til starfa heilbrigðisstétta.

6. Miklu ítarlegri ákvæði eru um þagnarskyldu.

7. Önnur skilgreining er á hugtakinu „skottulækningar“, þ.e. það nái aldrei til lækna.

8. Lækni er óheimilt að leggja nafn sitt við lækningastarfsemi nema hún fari að fullu fram á hans ábyrgð samkvæmt ráðleggingum hans og undir eftirliti hans.

9. Lækni er óheimilt að reka sjálfstæða lækningastarfsemi eftir 75 ára aldur nema að fengnu leyfi ráðherra. Þetta ógildir ekki lækningaleyfið sem slíkt.

10. Hægt er að svipta lækni lækningaleyfi tímabundið, en samkvæmt gildandi lögum er einungis heimilt að beita sviptingu að fullu.

11. Frv. gerir ráð fyrir að læknalög taki svo til eingöngu til lækna en ekki annarra heilbrigðisstétta nema þar sem ákvæði hljóta samkvæmt eðli starfanna að verða þau sömu. Í dag taka læknalög að meira eða minna leyti til allra heilbrigðisstétta.

12. Þáttur Læknafélags Íslands, þ.e. afskiptaréttur af starfsemi lækna og skipulagningu starfsins, er tryggður, en í gildandi lögum er hann enginn.

Auk þess sem ég hef áður talið upp eru ákvæði læknalaga færð í nútímalegra horf og til samræmis við önnur lög sem sett hafa verið á undanförnum árum á sviði heilbrigðismála. Má þar nefna sérstaklega lög um heilbrigðisþjónustu nr. 59 frá 1983.

Ég sé ekki ástæðu til að tíunda frekar efnisatriði frv. heldur vísa til ítarlegrar grg. með frv. sem Ingimar Sigurðsson lögfræðingur og einn af nefndarmönnunum tók saman. Þar er m.a. fjallað um lagasetningu um réttindi og skyldur lækna og helstu nýmæli frv. eins og í grg. birtist sem lögð var fram með frv. í fyrra.

Mig langar þó að geta að auki athugasemda sem borist hafa frá tryggingayfirlækni og Ríkisendurskoðun eftir að frv. var lagt hér fram. Þær athugasemdir varða breytingartillögur við tvær greinar frv. Er talað um að 2. mgr. 11. gr. frv. orðist svo:

„Ráðherra setur að fengnum tillögum landlæknis, tryggingayfirlæknis og Læknafélags Íslands nánari reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða.“

Hér er tryggingayfirlækni bætt inn í upptalninguna og rökstuðningur með þessari tillögu er svo: „Flest þau vottorð sem rituð eru af læknum fara um hendur lækna Tryggingastofnunar ríkisins. Hér er nánast alfarið um að ræða vottorð sem með einum eða öðrum hætti hafa í för með sér útgjöld hins opinbera eða annarra aðila, svo sem lífeyrissjóða. Segja má að lagt sé mat á nálega öll þessi vottorð af læknum Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaga. Það þykir því bera brýna nauðsyn til að tryggingayfirlæknir geti haft hönd í bagga með gerð og reglum sem varða útgáfu læknisvottorða.“

Síðari athugasemdin er við 18. gr. Þar er lagt til að eftirfarandi mgr. bætist við:

„Tryggingayfirlækni skal heimilt að skoða sjúkraskrár vegna krafna um greiðslur á hendur almannatryggingum.“

Rökstuðningur með þessari brtt. er svohljóðandi: „Það er almennt viðurkennd regla að hið opinbera skuli hafa rétt til eftirlits með greiðslum vegna læknisverka, útgáfu vottorða, lyfseðla og annarra gagna sem hafa í för með sér miklar greiðsluskuldbindingar. Með öðrum hætti er vandséð hvernig hægt er að tryggja hagsmuni hins opinbera og þar með hins almenna skattborgara. Í samningum sem nýlega voru gerðir milli Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur um sérfræðilæknishjálp er gert ráð fyrir að tryggingayfirlæknir hafi heimild til að fara á stofur sérfræðinga og skoða sjúkraskrár með tilliti til samanburðar við reikninga. Í samningi Tryggingastofnunar ríkisins við heimilislækna er einnig samsvarandi ákvæði. Þannig ríkir einhugur á milli læknasamtakanna og Tryggingastofnunar ríkisins um það atriði að eftirlit sé nauðsynlegt. Sú nauðsyn sem talin hefur verið á því að hreyfa þessu máli hér er að brýnt þykir að ótvíræð lagaheimild sé fyrir hendi af þessu tagi.“

Ég kem þessum athugasemdum hér á framfæri þó að ekki hafi unnist tími til að taka þær til athugunar varðandi gerð frv. sjálfs, en ég óska eftir því að heilbr.- og trn. taki þær til athugunar einnig þegar hún að öðru leyti, tekur frv. til meðferðar.

Herra forseti. Ég legg á það áherslu að frv. þetta nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, enda er samdóma álit landlæknis, Læknafélags Íslands og læknadeildar Háskóla Íslands að nauðsyn endurskoðunar læknalaga sé brýn. Jafnframt ítreka ég að náðst hefur samstaða með þessum aðilum og ráðuneytinu um frv. eins og það kemur hér fram. Ég sé því ekki að til efnislegs ágreinings þurfi að koma og ætti því frv. nú að geta fengið tiltölulega hraða afgreiðslu á Alþingi. Þeir starfsmenn heilbr.- og trmrn. sem unnu að samningu frv. eru að sjálfsögðu reiðubúnir að veita fulltrúum í heilbr.- og trn. nánari upplýsingar og aðstoða eftir því sem um verður beðið eða eftir því leitað.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.