24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

116. mál, læknalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal játa að ég hef ekki haft tækifæri til að grannskoða þetta nýja frv. til læknalaga. Það má vel vera að það sé til bóta, en það sem kom mér hingað upp í ræðustól voru þær tillögur að breytingum sem hæstv. ráðherra kynnti um, að mér sýnist, verulega aukin umsvif tryggingayfirlæknisembættisins, sem ég vildi fá úr skorið hvort í raun og veru stangist ekki á við lög um almannatryggingar. Ég hef ekki orðið vör við að í þeim lagabálki sé sú skylda lögð því embætti á herðar að vera eins konar yfirlögregla yfir öllum læknum landsins. Ég held að menn verði að gera ráð fyrir að þeir séu færir um að bera ábyrgð á því sem frá þeim kemur til Tryggingastofnunar ríkisins án þess að bókstaflega sé yfir þeim staðið. T.d. sé ég í þessum tillögum að þar er gert ráð fyrir að 2. mgr. 11. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur að fengnum tillögum landlæknis, tryggingayfirlæknis og Læknafélags Íslands nánari reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða.“

Ég dreg það stórlega í efa að minnsta ástæða sé til þess að vera að blanda tryggingayfirlæknisembættinu í útgáfu læknisvottorða í landinu. Mér sýnist þá að embætti hans sé farið að nálgast ískyggilega embætti landlæknis og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkur minnsta ástæða sé til þess að þenja þetta embætti enn frekar út en þegar er orðið og enginn endir virðist á.

Þegar lög um almannatryggingar voru sett var embætti tryggingayfirlæknis einfaldlega að hafa umsjón með að örorkuvottorð frá starfandi læknum í landinu væru þannig að Tryggingastofnun gæti sætt sig við þau. Síðan hefur þetta embætti þanist út frá því að vera tvær eða þrjár manneskjur til að ég held að ég megi segja að í þessu embætti eða þessari deild, sem í raun og veru er ekki deild, vinni nú allt að 17 manns. Mér er þetta mál allkunnugt. Það vill nú svo til að í lögum um almannatryggingar er Tryggingastofnun ríkisins skipt í deildir — með lögum — og það er ekki eitt einasta aukatekið orð um að þar skuli vera „læknadeild“ eins og menn tala nú um í Tryggingastofnun ríkisins. Nákvæmlega ekki eitt einasta orð. Með leyfi forseta, segir í 3. gr. laganna:

„Ráðherra skipar og skrifstofustjóra," — þegar búið er að tala um að hann skipi forstjóra — „tryggingafræðing, tryggingayfirlækni, aðalgjaldkera og deildarstjóra að fengnum tillögum forstjóra og tryggingaráðs og tryggingalækni að fengnum tillögum forstjóra, tryggingaráðs og tryggingayfirlæknis.“ Um langt skeið voru þarna tveir menn. Síðan urðu þar þrír læknar starfandi. Nú er þetta orðin ein öflugasta deild í stofnuninni án þess að fyrir því sé nokkur lagakrókur. Ég vil vara við útþenslustefnu af þessari gerð og undrast satt að segja að tryggingaráð skuli hafa látið þetta yfir sig ganga um árabil.

Ég held að það væri full ástæða til að rannsaka hvernig þessi stofnun hefur þanið sjálfa sig út og þá ekki síst þessi umrædda deild. Þegar ég kom til starfa í þessa stofnun árið 1973 voru 32 umsóknareyðublöð notuð í stofnuninni. Í þeirri deild sem ég veitti forstöðu, sem var nú aldrei stór og þandist ekkert út þau 10 ár sem ég var þar, komum við þessum 32 umsóknareyðublöðum niður í eitt og saknaði enginn hinna 31.

Það leið ekki á löngu þar til „læknadeildin“ svokölluð, sem ekki er til, var búin að búa til umsóknareyðublöð sem tóku öllu öðru fram sem áður hafði þekkst í stofnuninni. Ég vil því gera hæstv. ráðherra þann vinargreiða að biðja hann að hafa aðeins auga á þessu, því að það er einmitt þetta sem við erum oft að reyna að stemma stigu við, að einstakir embættismenn nái að þenja sjálfa sig út yfir lönd og álfur án þess að nokkur virðist fá rönd við reist. Ég vil vara við því að fara að rugla saman skyldum landlæknis, borgarlæknis og annarra slíkra embætta sem eiga að hafa yfirumsjón með störfum annarra lækna og tryggingayfirlæknis sem á ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annað en sjá um að Tryggingastofnun ríkisins greiði ekki örorku nema þeim sem örorku eiga sannanlega skilið og aðrar sjúkra- og slysabætur í stofnuninni. Mér vitanlega er það hvergi bókfast að hann eigi að fara að verða einn allsherjarrannsóknarréttur yfir læknum landsins. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekkert að tala persónulega um einn eða neinn hér, en ég held að það sé mikilvægt í þessu okkar litla landi að við vitum hver á að gera hvað þannig að allir mögulegir og ómögulegir aðilar séu ekki að vasast í málefnum allt annarra embættismanna sem málaflokkurinn heyrir undir.

Ég vil þess vegna, herra forseti, hafna því alfarið — hafi einhverjum dottið það í hug eins og hér er, að vísu ekki í þskj. en í tillögu að breytingu við frv. til læknalaga, sem ég heyrði ekki gjörla frá hverjum eru komnar- að tryggingayfirlækni skuli heimilt að skoða sjúkraskrár vegna krafna um greiðslur á hendur almannatryggingum. Mér finnst þetta móðgun við starfandi lækna í landinu. Ef þeir eru ekki færir um að gefa út reikninga sína nokkurn veginn hjálparlaust held ég að það sé þá málefni landlæknis að athuga hvort þeir séu þá yfirleitt starfshæfir eða ekki.

Ég hlýt að vara við þessu, herra forseti, og bið hæstv. ráðherra að taka það til athugunar.