24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

53. mál, umboðsmaður barna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Síðast þegar þetta mál var til meðferðar á hv. Alþingi lýsti ég yfir stuðningi mínum við frv. og tel það raunar eitt af meiri háttar málum. Ég legg áherslu á að það eru vissulega mörg þýðingarmikil mál, er varða fjölskylduna í okkar þjóðfélagi, sem þyrfti að endurskoða og taka til rækilegrar umfjöllunar í þjóðfélaginu sjálfu og ekki síst hér á hv. Alþingi. Við erum að vakna til meðvitundar um að ýmsir þættir þessara mála eru miklu þýðingarmeiri og hafa fengið miklu minni umfjöllun en æskilegt er í okkar nútímaþjóðfélagi, sem við viljum gjarnan kalla svo, og þess vegna er mál af þessu tagi, eins og frv. til l. um embætti umboðsmanns barna, eitt af þeim þýðingarmeiri í þessari umræðu. Ég nefni framfærslulögin. Við búum við mjög gömul og úrelt framfærslulög sem varða mörg þessi mál og grípa inn í fjölskyldumálin almennt. Þarna er um að ræða löggjöf sem hefur valdið árekstrum í meðferð þessara mála í okkar þjóðfélagi, bæði í smærri og stærri einingum ef má orða það svo.

Sem betur fer stendur nú yfir víðtæk endurskoðun á framfærslulögum og má vænta þess að í byrjun næsta árs fari að sjást merki þess, árangur af starfi þeirrar nefndar sem er að vinna að þessum málaflokki.

Ég nefni þetta til að minna á hvað við stöndum í raun og veru laklega í þessum málum miðað við e.t.v. margar aðrar þjóðir í kringum okkur. Ég legg þess vegna mjög mikla áherslu á að þetta mál fái nú ítarlega meðferð á hv. Alþingi. Hvort sem það verður tengt annarri endurskoðun eða unnið sem sjálfstætt mál hefur það sitt gildi að ræða það og vanda vel meðferð þess á hv. Alþingi og ég styð eindregið að svo verði.