24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

78. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og flestir munu þekkja gengu í gildi ný kosningalög haustið 1959. Þá var sú breyting gerð að við talningu atkvæða, sem hver frambjóðandi var talinn fá, var aðeins tekið tillit til þriðja hvers atkvæðis þar sem breyting var gerð á röðun lista. Áður en þessi breyting var gerð sumarið 1959 kom það oft fyrir að kjósendur breyttu röð frambjóðenda á þeim lista sem þeir kusu, en eftir þessa breytingu hefur það aldrei gerst. Síðan hefur það blasað við að kjósendur ættu ekki í raun neinn kost á að ráða neinu um röð frambjóðenda á þeim listum sem þeir kjósa. Listarnir eru lagðir fram raðaðir og þótt kjósendur reyni að breyta röðinni eru aðstæður þannig og ákvæði laganna einnig að það gerist ekki í reynd og hefur ekki gerst í rúma þrjá áratugi.

Það frv. sem ég mæli hér fyrir fjallar um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Þar er ég fyrst og fremst að leggja til breytingar á kosningalögum er geti stuðlað að auknu persónuvali kjósenda og þá er ég fyrst og fremst með það í huga, sem ég hef nú rakið, að kjósendur hafa í raun enga möguleika til að breyta röð frambjóðenda á listum sem þeir kjósa. Rétt er að geta þess að eftir að ný kosningalög tóku gildi fyrir seinustu kosningar má hiklaust segja að það sé orðið enn erfiðara en áður var að koma fram breytingum á framboðslistum.

Til að bæta úr þessu hafa stjórnmálaflokkar efnt til prófkjörs eða forvals, ýmist fyrir flokksmenn, fyrir yfirlýsta stuðningsmenn sína eða kjósendur almennt. Ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið á sjöunda áratugnum að opin prófkjör hjá stjórnmálaflokkunum fóru nokkuð að tíðkast og þetta varð enn algengara á áttunda áratugnum. En menn sáu fljótlega að þessi opnu prófkjör voru því marki brennd að stórir hópar kjósenda tóku þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna án þess að ætla sér að styðja viðkomandi flokk í komandi kosningum. Ég hygg að það sé fyrst og fremst af þessari ástæðu að hin opnu prófkjör hafa bersýnilega verið á verulegu undanhaldi nú í seinni tíð. Án þess að rökstyðja það frekar, vegna þess að ég hygg að allir geti verið mér sammála um þessa fullyrðingu mína, má benda á að Sjálfstfl., sem varð einna fyrstur til að taka upp opin prófkjör, hefur greinilega verið að breyta vinnubrögðum sínum í þessum efnum. Nú er miklu algengara hjá þeim flokki að forval eða prófkjör fari fram meðal flokksmanna eða yfirlýstra stuðningsmanna þótt vissulega sé þetta sett í vald kjördæmisráða og geti verið ýmis gangur á þessu. Sama sýnist gilda um Alþfl. sem á seinasta áratug tók upp opin prófkjör um allt land. Þessi opnu prófkjör á vegum Alþfl. virðast nú miklu færri en áður var. Ég hygg að það sé ekki ofmælt að þróunin hefur verið sú nú í seinni tíð að opin prófkjör hafa verið mjög á undanhaldi.

Flokkarnir hafa líka reynt prófkjör meðal stuðningsmanna sinna og hafa þá haft þann háttinn á að menn hafa verið til neyddir að skrifa undir sérstakar stuðningsyfirlýsingar við viðkomandi flokk til að mega taka þátt í prófkjörinu. Ég tel að þessi háttur hafi ekki verið gallalaus og satt best að segja má færa talsverð rök að því að með söfnun slíkra yfirlýsinga sé í raun verið að brjóta gegn ákvæðum kosningalaganna sem banna stjórnmálaflokkunum að safna fleiri meðmælendum sér til styrktar en sem nemur ákveðinni tölu sem nefnd er í kosningalögunum. Staðreyndin er sú að þau eru æðimörg dæmin um að stjórnmálaflokkar hafa fengið fleiri atkvæði greidd í prófkjörum af þessu tagi en síðan hafa skilað sér í kosningum skömmu síðar. Gæti ég nefnt mörg dæmi þessu til sönnunar. Þó er ljóst að allir stuðningsmenn flokksins hafa að sjálfsögðu ekki att þess kost að taka þátt í prófkjörinu af ýmsum ástæðum og því verður sá hópur enn stærri sem bersýnilega var að hafa áhrif á skipan framboðslistans hjá viðkomandi flokki án þess að ætla sér að styðja flokkinn.

Þriðja tegund prófkjöra, sem oft hefur reyndar verið kennd við forval, hefur einkennst af því að einungis flokksmenn hafa mátt greiða atkvæði, jafnvel aðeins kjörnir trúnaðarmenn. Þar er um miklu þrengri hóp að ræða og mjög óvíst að sá hópur sem þannig tekur ákvörðun sé hvað skoðanir snertir í miklu samræmi við kjósendur flokksins almennt.

Ég held að augljóst sé að það verði að finna nýjar leiðir til að gefa kjósendum kost á að velja frambjóðendur flokksins sem teljast ná kosningu af þeim listum sem þeir greiða atkvæði. Ég held það þurfi að finna nýjar leiðir sem bæði henta kjósendum og stjórnmálaflokkunum og þess vegna flyt ég þetta frv. að í því eru tvær leiðir opnaðar. Annars vegar er gerð tillaga um sameiginlegt forval stjórnmalaflokkanna. Hins vegar er gerð tillaga um óraðaða lista.

Ég vil strax taka fram að sjálfur á ég sæti í stjórnarskrárnefnd og hún hefur fjallað rækilega um þetta efni í mörg ár, einmitt um aukið persónuval í kosningum. Hún hefur hins vegar enn ekki komist að niðurstöðu og enn ekki skilað áliti og óvíst með öllu hvenær það verður. Segir sig sjálft að ég fer með þetta mál inn a vettvang Alþingis fyrst og fremst til að hvetja til umræðna um málið, bæði meðal alþm. og meðal kjósenda almennt, því að hvort tveggja mun að sjálfsögðu auðvelda stjórnarskrárnefnd störf sín og ýta á eftir því að hún skili áliti um þetta mál. Í nefndinni hafa komið fram ýmsar hugmyndir og tillögur, jafnvel frumvarpsdrög, en það skal tekið fram að það frv. sem ég hef hér lagt fram er ekki byggt sérstaklega á gögnum nefndarinnar heldur hef ég samið frv. fyrst og fremst út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef lengi aðhyllst um þessi mál.

Ég vík þá fyrst að tillögunni um sameiginlegt forval flokkanna. Þar er gert ráð fyrir að um leið og boðað er til alþingiskosninga skuli stjórnmálasamtökum sem hyggjast bjóða fram lista gefast kostur á að taka þátt í sameiginlegu forvali til að undirbúa skipan framboðslista, eins og segir í 1. gr. frv. Þar segir líka að sameiginlegt forval fari því aðeins fram í kjördæminu að a.m.k. þrjú framboð eða stjórnmálasamtök sem fengu samanlagt meira en helming atkvæða í kjördæminu í seinustu kosningum taki þátt í forvalinu. Þetta ákvæði er sett í frv. vegna þess að ríkið greiðir kostnaðinn við forvalið og annast framkvæmd kosninganna og af þeirri ástæðu er sjálfsagt og eðlilegt að gera kröfu um ákveðna lágmarksþátttöku í forvalinu. Mér þykir ekki eðlilegt að ef t.d. aðeins einn flokkur óskar eftir því að efna til forvals eða taka þátt í slíku forvali sé ríkisvaldið að bjóða fram atbeina sinn til að framkvæma forvalið, enda nær þá forvalið ekki tilgangi sínum. Þá er ljóst að um er að ræða forval af svipuðu tagi og verið hefur og ekkert því til fyrirstöðu að kjósendur annarra flokka komi við sögu hjá þeim flokki sem stendur að forvalinu. Aftur á móti minnka líkurnar á þessu ef flokkarnir eru margir sem taka þátt í forvalinu.

Það má vissulega deila um hvaða kröfu á að gera um lágmarksþátttöku. Ég hef hér sett fram þessa ákveðnu kröfu að það séu annaðhvort þrjú framboð eða þá stjórnmálasamtök sem fengu meira en helming atkvæða í seinustu kosningum, en ég viðurkenni að vel mætti hugsa sér einhverja aðra viðmiðun.

Af sjálfu leiðir að sameiginlegt forval ætti að fara fram samtímis um land allt og það þyrfti að fara fram eigi síðar en viku áður en framboðsfresti lýkur.

Ég vek hins vegar á því athygli að í þessu ákvæði er reynt að tryggja frelsi flokkanna til að haga þessum málum eftir því sem flokkarnir sjálfir ákveða eins og nokkur kostur er. Í 1. gr. er m.a. sagt að „stjórnmálasamtök sem taka þátt í sameiginlegu prófkjöri ákveði sjálf hvaða skilyrðum frambjóðendur verða að fullnægja til viðbótar almennum skilyrðum þessara laga.“

Eins og kunnugt er setja kosningalög frambjóðendum ákveðin skilyrði, t.d. um aldur, en það er vel hugsanlegt að flokkarnir vildu setja frekari skilyrði, þar á meðal að frambjóðendur flokksins væru flokksbundnir, og þá verður auðvitað að lúta því. Það skilyrði er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt og má sem sagt hugsa sér að flokkarnir setji ýmis skilyrði sem ekki flokkast undir almenn skilyrði kosningalaga. Annað dæmi er að það sé eitthvert ákveðið hlutfall milli kynja sem tengist uppsetningu framboðslistans og þannig má vafalaust nefna ýmis önnur dæmi.

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að kjörstjórnir og yfirkjörstjórnir annist framkvæmd forvalsins með sama hætti og í alþingiskosningum. Kjósandinn merkir þá við nöfn frambjóðenda með tölustöfum í þeirri röð sem hann vill að þeir skipi framboðslista. Þess er sérstaklega getið í 1. gr., þó kannski þyrfti varla að taka það fram, en það er nú gert til öryggis, að auðvitað má kjósandinn aðeins velja á milli manna á einum framboðslista.

Ég vek á því athygli enn að í þessu ákvæði er reynt að tryggja stjórnmálaflokkunum frelsi til að haga framkvæmd forvalsins eins og þeim best þykir henta. Almennt má segja að það einkenni frv. að stjórnmálaflokkunum er í sjálfsvald sett hvort þeir reyna þessar leiðir. Þeim ber engin skylda til að taka þátt í sameiginlegu forvali. Sama gildir um það ákvæði sem ég mun hér gera grein fyrir á eftir, en það er um óraðaða lista. Mér er kunnugt um það, og ég býst við að flestir geri sér grein fyrir því, að það eru mjög skiptar skoðanir um hvernig eigi að haga persónuvali í kosningum. Ég er því hér að leggja til að sem flestum leiðum sé haldið opnum og síðan sé reynslan látin skera úr um hvað best hentar kjósendum og flokkunum. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það séu sem sagt opnaðar samtímis margar leiðir í þessum efnum. Þess vegna legg ég til í einu og sama frv. að hægt sé að efna til sameiginlegs forvals, en eftir sem áður geti flokkarnir komið með óraðaða lista.

Rökin fyrir því eru m.a. þau að það er alls ekki víst að kjósendur hafi komist að endanlegri niðurstöðu eftir að prófkjör hefur verið haldið hjá stjórnmálaflokki. Það má vel vera að frambjóðandi sem hefur orðið efstur í prófkjöri standi sig svo illa í kosningabaráttunni og reynist svo óheppilegur frambjóðandi að öllu leyti að kjósendum snúist hugur og þeim þyki betra að breyta röðinni þegar út í kosningarnar sjálfar er komið og því gildi prófkjörið fyrst og fremst um kosningabaráttuna en síðan eigi kjósandinn lokaorðið á kjördegi og hann ákveði þá að veita öðrum frambjóðanda brautargengi. Þetta eru rök fyrir því að halda báðum þessum leiðum opnum og ég sé í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu.

Um óraðaða lista vil ég segja að öðru leyti að þar er gömul hugmynd á ferðinni. Þar er sannarlega ekki verið að koma með neitt nýtt. Það hafa verið fluttar tillögur hér á Alþingi nokkuð margar sem ganga í sömu átt. Þetta er margrædd hugmynd, en hún hefur aldrei verið reynd hér á landi. Ég geri sem sagt tillögu um það hér að hún verði reynd, að vísu þannig að það er ekki skylda stjórnmálaflokkanna að bera fram óraðaða lista eins og oft hefur verið tillaga manna á Alþingi. Ég hygg að oftast þegar þessi till. hefur verið flutt á Alþingi hafi beinlínis verið gert ráð fyrir að það væri skylda stjórnmálaflokkanna að leggja fram óraðaða lista. En ég geri ekki tillögu um það hér. Ég tel að enn í þessu tilviki eigi stjórnmálaflokkarnir að hafa óbundnar hendur. Þeir geti valið um hvort þeir leggja fram raðaðan lista eða óraðaðan lista og ef listinn er óraðaður á aðeins að taka það sérstaklega fram um leið og listanum er skilað til yfirkjörstjórnar og listinn á að vera í stafrófsröð þegar hann er afhentur, en síðan hlutar yfirkjörstjórn um hvaða nafn í stafrófsröðinni verði efst á listanum. Síðan er gert ráð fyrir að þeir sem greiða atkvæði setji tölustafi sína framan við nöfnin á listanum í samræmi við skoðanir sínar á því hvernig listinn eigi að raðast.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir tillögum mínum hér. Ég er ekki að halda því fram að þessar tillögur séu endilega hinn eini sannleiki þessa máls. Það eru margir möguleikar sem koma til greina. Það er hægt að haga þessum málum á margan veg. Mér finnst aðalatriðið að við alþm. förum að taka þessi mál föstum tökum, að stjórnarskrárnefnd fjalli um málið og að menn reyni að komast örugglega að niðurstöðu í þessu máli fyrir næstu alþingiskosningar. Ég geri hér ákveðnar tillögur, en ég er um leið þeirrar skoðunar að með því fyrirkomulagi sem tekið yrði upp ætti ekki að loka fyrri leiðum, það eigi að halda sem flestum leiðum opnum og að endanlega muni væntanlega reynslan skera úr um hvaða leið fellur forustumönnum stjórnmálaflokka og kjósendum best í geð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til hv. allshn.