15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að trufla umræðuna með þessum hætti, en ég bar í upphafi fram þrjár fyrirspurnir. Sú þriðja þeirra snertir fjárlagafrv, hæstv. fjmrh., stöðu þess hér í þinginu, framhald vinnunnar við það og ýmsa aðra þætti sem að fjárlagafrv. snúa. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að fjmrh. mundi svara þeim fyrirspurnum. Það kom einnig fram hjá hæstv. utanrrh. að fjmrh. mundi svara þeim fyrirspurnum. Hæstv. fjmrh. talaði hér í tæpa klukkustund. Hann svaraði hins vegar eingöngu þeim fyrirspurnum sem ég beindi fyrst og fremst til forsrh., og það er kannski skiljanlegt vegna þess að allir vita að hann hefði helst viljað verða forsrh. í þessari ríkisstjórn, en hann svaraði engu, alls engu, um þennan þriðja þátt upphaflegra fyrirspurna minna sem voru tilefni þessarar utandagskrárumræðu. Ég vil beina þeim orðum til hæstv. forseta og til hæstv. fjmrh. til að auðvelda framgang umræðunnar og vegna þess að ég veit að margir þm. eru hér á mælendaskrá að hæstv. fjmrh. svari þeim fyrirspurnum sem til hans er beint varðandi það frv. sem hann hefur lagt hér fram.