24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

78. mál, kosningar til Alþingis

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að bera þetta mál hérna inn á Alþingi. Ég get ekki fallist á að neitt sé athugavert við að koma með það hér inn þó að um slík mál sé verið að fjalla í sérstakri nefnd, þ.e. stjórnarskrárnefnd. Það er ekki svo heilög nefnd að ekki megi fjalla um þau mál á Alþingi og ég endurtek þakkir mínar til flm. fyrir að gera það því að þetta er merkilegt og spennandi mál. Hér er verið að hreyfa máli sem hefur oft verið til umhugsunar og umfjöllunar, bæði í nefndum og víðar, og ástæðan er vafalaust sú fyrst og fremst að prófkjör hafa ekki reynst sú bragarbót og sá réttindaauki hins almenna kjósanda sem menn höfðu vonast til og ætlast til. Menn hafa sem sagt rekið sig á ýmis horn í fyrirkomulagi prófkjara og er þar satt að segja ekkert slíkt öðru betra.

Ég held að þá væri e.t.v. til bóta það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frv., þ.e. ef menn endilega vilja hafa prófkjör eða forval. Því er ég reyndar ekkert sérstaklega hlynnt í sjálfu sér og hirði svo sem ekki um að styðja það sérstaklega með rökum. Mér finnst reynslan hafa dæmt prófkjörin og gallarnir hafa kaffært kostina. Með þessu frv. er hugsanlega um bót að ræða en þó svo væri er ég a.m.k. ekki fullkomlega sátt við prófkjörin sem slík. Það er þá frekar hugmyndin um óraðaða lista, sem kemur fram í 2. gr., sem er að mínu viti áhugaverð eins og prófkjörin eru kannski í rauninni líka, þ.e. þetta virðist bjóða upp á aukin áhrif almennra kjósenda. Þessi hugmynd hefur oft skotið upp kollinum áður, eins og hv. flm. kom inn á áðan. Gallinn við allt slíkt er að við höfum ekki nokkra einustu tryggingu fyrir því að slíkir óraðaðir listar verki svo sem neitt betur en prófkjörin hafa gert. Það fylgja sömu agnúarnir að miklu leyti og bjóða upp á innbyrðis kapphlaup um athygli kjósenda. Það koma til þar yfirburðir kunnuglegra andlita gamalkunnugra stjórnmálamanna eða fjölmiðlaímynda. Ég undraði mig ekki á því þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti því yfir að hann hefði orðið æ hrifnari af þessari hugmynd eftir því sem árin liðu. Það er mjög eðlilegt að gamalreyndir stjórnmálamenn sjái þann kost sem er við slíkt val. Því þekktari sem þeir verða þeim mun líklegra er að kjósendur setji sitt merki við þau nöfn sem þeir þekkja, annaðhvort úr stjórnmálunum eða, eins og gjarnan vill verða, úr fjölmiðlunum. Þetta býður upp á sömu ókostina sem eru við það innbyrðis kapphlaup samflokksmanna sem oft hefur leitt til heldur illvígra og leiðinlegra átaka.

Mér hugnast að mörgu leyti vel sú tillaga sem kemur fram í 4. og 5. gr. þar sem kjósendum er gefinn kostur á að hafa áhrif á röðun frambjóðenda á lista hvort sem þeir eru raðaðir eða óraðaðir og ég vil einmitt fagna því að hér er um val að ræða, það væru ekki allir skyldaðir til að hafa óraðaða lista eða allir að hafa raðaða lista. Ég held að það sé mjög gott. Ég held að með þessu væri opnaður möguleiki til breytinga ef um nokkuð almenna og mikla óánægju kjósenda væri að ræða með þá röðun sem fyrir væri ef um röðun væri að ræða og þeir sem tækju þátt í slíku gerðu það vafalaust af mjög mikilli sannfæringu.

Á það var bent áðan að það er möguleiki fyrir því í núgildandi lögum að hafa áhrif á röðun á lista með útstrikunum. Ég verð að viðurkenna það, þó ég hafi setið í nefnd og fjallað um lögin og lesið þau, en þau eru alltaf að breytast og eru töluvert flókin, að ég man ekki nákvæmlega hvernig þau líta út og virtist við fyrstu sýn eins og hér væri um rýmkun að ræða, en það má vel vera að svo sé ekki, eins og mér heyrðist koma fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég held að þessi breyting væri til bóta, en það eru fyrst og fremst fyrri frumvarpsgreinarnar sem ég hef svolitlar efasemdir um. Þær mundu e.t.v. herða baráttu milli persóna þannig að áherslan yrði minni á málefnum eins og oft vill verða í kosningum.

Ég fagna sérhverri umræðu um þessi mál. Slík umræða mætti vera oftar og meiri. Og ég er alls ekki að mæla gegn þessu frv. Mér finnst mikill kostur við það hvað þar er allt rýmilegt og frjálslegt og mjög freistandi að leggja það undir dóm reynslunnar.