24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

78. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. var lagt fram. Ég reikna með að hv. flm. hafi fyrst og fremst gert það til þess að fá umræðu um þessi mál og ég held að það sé af því góða. Það hefur verið mikið rætt í þjóðfélaginu um þessi prófkjör og skoðanakannanir og það verður nú að segjast eins og er að ég held að flestir flokkarnir hafi verið búnir að fá alveg nóg af þeim eins og framkvæmdin hefur verið á þessum skoðanakönnunum og prófkjörum. Það er engin launung að á vissum stöðum í landinu hafa farið fram skoðanakannanir eða prófkjör þar sem fjórir flokkar hafa fengið mikið yfir helminginn af atkvæðum kosningarbærra manna. Þannig er auðséð að stór hópur af íbúunum hefur jafnvel tekið þátt í skoðanakönnunum hjá öllum flokkunum. Þetta fyrirkomulag sem hefur verið haft býður upp á þetta.

Ég samdi fyrir einum átta árum frv. um skoðanakannanir sem ég lagði aldrei fram vegna þess að félagar mínir, sem ég var þá með, báðu mig að gera það ekki. Það var um það að þessar skoðanakannanir ættu að fara þannig fram að þær væru í raun og veru alveg eins og kosningar. Ákveðið væri á ákveðnum degi fyrir framboðsfrest hvenær þessi skoðanakönnun færi fram ef listarnir kæmu sér saman um það, eða meiri hluti þeirra, þannig að alveg væri komið í veg fyrir það að sami maður gæti greitt nema einum flokki atkvæði.

Ég held að það fyrirkomulag sem við höfum haft gangi ekki. Auðvitað má deila um það hvort það á að vera eins og hv. þm. Ragnar Arnalds leggur til, en æskilegt væri að ef slíkar skoðanakannanir færu fram eða prófkjör færu þær fram alls staðar á sama tíma vegna þess að annars er hætt við að þær hefðu áhrif annars staðar ef þetta væri ekki á sama tíma.

Ég er nú þeirrar skoðunar að það verði erfitt að ná samkomulagi um þessi mál, en þetta er mikilvægt atriði fyrir lýðræðið í landinu hvernig þetta verður leyst. Ég segi því að það var gott verk að frv. er lagt fram og það þyrftu að verða um það veruleg skoðanaskipti, enda gæti þá sú nefnd sem fjallar um þetta mál haft hliðsjón af þeim skoðanaskiptum þegar hún kemur fram með endanlegar tillögur í þessu máli, en ekki þætti mér líklegt að það yrði á árinu 1988 eða jafnvel 1989.