24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

84. mál, viðskiptabankar

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj . 88, 84. máli, um breytingu á lögum nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka. Flm. ásamt mér er hv. þm. Hreggviður Jónsson.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa frv. en það hljóðar svo:

„1. gr. 11. gr. laganna orðist svo:

Bankastjórn ríkisviðskiptabanka, skipuð þremur bankastjórum, hefur með höndum framkvæmdastjórn bankans.

Bankaráð ræður bankastjóra og segir þeim upp starfi. Bankastjórar skulu eigi ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn. Lausar stöður bankastjóra ríkisviðskiptabanka skulu ávallt auglýstar til umsóknar í Lögbirtingablaði og dagblöðum með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Með umsókn skulu fylgja rækilegar upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjenda.

Hafi bankastjóri brotið af sér í starfi getur bankaráð að höfðu samráði við ráðherra vikið honum frá fyrirvaralaust og án launa. Bankaráð skal skýra bankastjóra skriflega frá ástæðum fyrir frávikningu úr starfi.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Herra forseti. Í lögum nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, segir í 1. málsgr. 5. gr., með leyfi forseta:

„Lausa stöðu skal auglýsa í Lögbirtingablaði venjulega með fjögurra vikna fyrirvara. Heimilt er að taka til greina umsóknir sem berast eftir að liðinn er umsóknarfrestur, enda hafi staðan ekki þegar verið veitt eða í hana sett eða maður í hana ráðinn, eftir að frestur var liðinn.“

Með 5. gr. laga nr. 38/1954 eru sett almenn ákvæði um málsmeðferð við stöðuveitingar á vegum ríkisins. Engu að síður hefur löngum verið um það ágreiningur hvort þessi grein laganna taki til stöðuveitinga ríkisbankanna, þ.e. þegar um er að ræða veitingu bankastjórastöðu.

Það er engan veginn hægt að lesa það út úr þessum lögum að bankastjórastöður ríkisbankanna falli ekki í einu og öllu undir ákvæði þeirra. Einu hópar opinberra starfsmanna sem eru beinlínis undanþegnir þessum ákvæðum eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar.

Það er skoðun flm. að allir starfsmenn ríkisbanka, þar með taldir bankastjórar, séu opinberir starfsmenn. Því ætti 5. gr. laga nr. 38 frá 1954 einnig að taka til þeirra. En þar sem nokkurs konar hefð hefur skapast fyrir því að svo sé ekki, heldur hafa stjórnmálaflokkar ráðskast með þessar stöður að eigin vild, þykir rétt að breyta lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, þannig að ekki leiki nokkur vafi á að auglýsa verði lausar stöður bankastjóra við ríkisviðskiptabankana til umsóknar.

Þá er það mikilvæg breyting að umsækjandi verður að gefa upplýsingar um menntun og fyrri störf, líkt og gerist hvarvetna annars staðar úti í þjóðfélaginu þegar sótt er um starf, enda hlýtur það að vera meginforsenda fyrir ráðningu að viðkomandi hafi þann grunn sem nauðsynlegur er til að geta sinnt slíku starfi. Það á ekki að duga að vera með rétt flokksskírteini upp á vasann, það á ekki að duga að vera þingmaður, það á ekki að nota bankastjórastöður ríkisbankanna til að verðlauna menn fyrir gott starf í þágu flokksins. Það á að ráða í þessar stöður þá menn sem hæfastir eru til að gegna þeim hverju sinni.

Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv. munu væntanlega leiða til þess að fleiri hæfir einstaklingar sækist eftir þeim stöðum auk þess sem raunhæfir möguleikar þeirra á að hljóta stöðurnar aukast að mun. Það þekkja allir sem hér eru hvernig gangur mála hefur verið að undanförnu í þessum efnum. Skipting stjórnarflokkanna er svo augljós að það tekur því varla að benda á hana. Sjálfstfl. og Framsfl. fá sinn manninn hvor í Landsbankann, Alþfl. fær Búnaðarbankann. Enda þótt jafnvel séu nokkur ár þangað til stöður losna eru stjórnarflokkarnir búnir að skipta þeim upp bróðurlega á milli sín.

Í Dagblaðinu Vísi þann 26. október sl. segir Pétur Sigurðsson, formaður bankaráðs Landsbankans, með leyfi forseta: „Sverrir Hermannsson er kandídat Sjálfstfl. sem næsti bankastjóri Landsbankans og ég styð hann heils hugar.“ Seinna í sama viðtali segir hann: „Það kemur ekki til mála að ég, Pétur Sigurðsson, gagnrýni Val Arnþórsson í starf bankastjóra Landsbankans. Ég mun styðja hann.“

Það er alveg ljóst af orðum hans að enginn kemur til greina annar en sá er tilnefndur er af gömlu stjórnarflokkunum, enda segir hann seinna í greininni að hann muni að sjálfsögðu fylgja því sem þingflokkur Sjálfstfl. óskar. Það eru einmitt þessi vinnubrögð sem við áteljum og viljum stöðva og er frv. liður í því að reyna að sporna við fótum.

Það er ekki einu sinni litið í áttina að starfsmönnum bankanna, þar sem vitað er um marga mjög hæfa menn í bankastjórastöðurnar sem ég fullyrði að séu ekki síður hæfir en flest þau pólitísku bankastjóraefni sem nú er rætt um, hvað þá að litið sé til annarra aðila úti í þjóðfélaginu sem allt hafa til brunns að bera annað en það að vera innstu koppar í búri einhvers af stjórnarflokkunum, hinnar heilögu þrenningar.

Með því að auglýsa stöðurnar lausar til umsóknar og krefjast upplýsinga um menntun og fyrri störf er engan veginn verið að útiloka stjórnmálamenn frá þessum störfum. Hér er einfaldlega um réttlætismál að ræða þar sem farið er fram á að opinberir starfsmenn og aðrir umsækjendur sitji við sama borð. Þetta þýðir líka það að meiri líkur eru á að sem hæfastur umsækjandi verði ráðinn. Það hlýtur að vera mikils virði fyrir bankann og eigendur hans, fólkið í landinu, að til slíkrar ábyrgðarstöðu sé leitast við að ráða hæfasta umsækjandann sem í boði er hverju sinni.

Hv. þm. Matthías Bjarnason, fyrrv. viðskrh., með meiru, hefur eftirfarandi að segja um þennan málaflokk í viðtali við Helgarpóstinn fimmtudaginn 12. nóvember, með leyfi forseta. Blaðamaður spyr: „Staða ríkisbankanna er nú mjög á dagskrá. Hver er þín afstaða í þeim málum?" Og Matthías svarar: „Að þessu sinni ætla ég ekki að fjölyrða um þau mál í heild en láta nægja að viðra skoðanir mínar um einn þátt þessara mála sem að vísu er nú í brennidepli. Það hefur löngum þótt sjálfsagt mál að stjórnmálaflokkar tilnefndu menn í bankastjórastöður í ríkisbönkunum. Reynslan í þróun bankamála síðustu árin, ólán í rekstri Útvegsbankans, Hafskipsmálið og fleira og fleira, hefði átt að kenna okkur að nú er nauðsynlegt, næstum óhjákvæmilegt að taka upp ný vinnubrögð. Við höfum á þessum síðustu árum sett nýja og að mörgu leyti góða bankalöggjöf þótt einstök atriði þurfi ævinlega að vera til endurskoðunar. Það hefur myndast harðnandi samkeppni milli bankanna. Ég tel því mun meiri nauðsyn á því að bankarnir séu undir faglegri stjórn. Það er því umbúðalaust mín skoðun að ríkisbankarnir eigi að velja hæfa menn innan bankakerfisins í stöður bankastjóra. Ekki endilega alfarið að það eigi alltaf að vera menn innan sama banka því það gæti verið hollt að það væri hreyfing á mönnum milli banka líka. Flestir bankarnir eiga tvímælalaust fullhæfa menn til þessara starfa innan sinna vébanda. Þetta gildir ekkert síður innan ríkisbankanna. Ég sé því síður en svo nokkra þörf á því að sækja til uppgjafarstjórnmálamanna eða kaupfélagsstjóra til að manna æðstu stöður þessara mikilvægu stofnana.“

Þarna talar hæstv. fyrrv. viðskrh. Ég leyfi mér að taka fullt mark á því sem hann segir. Hann talar um bitra reynslu af núverandi ráðningakerfi. Hann talar um að innan bankakerfisins séu hæfir menn í stöður bankastjóra. Um þetta tvennt er ég honum sammála og það er starfsfólk Landsbanka Íslands einnig, en á áttunda hundrað starfsmanna bankans hafa skrifað undir áskorun til bankaráðs um að næsti aðalbankastjóri Landsbankans verði valinn úr hópi núverandi starfsmanna.

Hæstv. fyrrv. viðskrh. segir einnig að vegna harðnandi samkeppni bankanna telji hann nú mun meiri nauðsyn á að þeir séu undir faglegri stjórn. Þarna er ég honum einnig sammála.

Síðast en ekki síst skal vakin sérstök athygli á því að hæstv. fyrrv. viðskrh. sem hefur áratuga reynslu úr heimi stjórnmálanna sér ekki nokkra þörf á því að sækja uppgjafarstjórnmálamenn eða kaupfélagsstjóra til að manna þessar stöður. Mikið er ég honum sammála.

Eftir sem áður verður það bankaráð viðkomandi banka sem ræður í stöður bankastjóra. Þannig er hætt við því að lítil breyting verði á þótt frv. verði samþykkt. Þó er það alveg ljóst að með samþykkt þessa frv. skapast visst aðhald á bankaráðin þannig að meiri líkur verði á að faglegt hæfnismat ráði við val bankastjóra.

Ég tel að með samþykkt frv. sé stigið skref í jafnréttisátt í þessum málum. Ég hvet því þm. til að taka máli þessu vel.

Herra forseti. Að lokinni umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.