24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

84. mál, viðskiptabankar

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Við kvennalistakonur lýsum stuðningi við framkomnar breytingar á lögum um viðskiptabanka. Í fullu samræmi við valddreifingarhugmyndir okkar erum við mjög mótfallnar of miklum pólitískum afskiptum af innri málefnum hvers konar stofnana, fyrirtækja eða félaga. Við álítum að þar eigi fagleg sjónarmið að ráða og þess gæti allt of oft að stjórnmálaflokkar misnoti aðstöðu sína til að hafa áhrif á gang innri mála og rekstur eða a.m.k. tryggi sér þá aðstöðu þótt auðvitað sé alls ekki alltaf um misbeitingu eða ofríki að ræða. En aðstaðan er allt of víða fyrir hendi til að geta gripið inn í og beitt flokkspólitískum þrýstingi. Stundum er þetta aðstaða fyrir flokka til að geta hyglað sínum umbjóðendum, kjósendum eða flokkssystkinum eða útilokað óæskilegt fólk eða sjónarmið. Í þessu skyni eru flokkspólitísk ráð, nefndir eða stjórnir settar yfir alls konar stofnanir í krafti þess að um sé að ræða ábyrgðarfulla umsjón, þ.e. að Alþingi setji lög og útdeili fé og því beri sömu aðilum að sjá til þess með yfirsetu að farið sé að lögum og vel haldið á fjármunum.

Við kvennalistakonur leggjum áherslu á það í stefnuskrá okkar að leggja eigi niður flokkspólitísk ráð og nefndir og starfsmönnum og þeim sem hafa fingur á púlsinum treyst fyrir rekstri og framkvæmd. Ef þannig er á málum haldið að óeðlilegt þyki hvað varðar meðferð fjármuna eða í öðrum rekstri kemur það í ljós í ársreikningum, skýrslum og árangri öllum. Þá er hægt að grípa inn í með öðrum ráðum en þeim að setja flokkspólitískt gæslukerfi yfir allt. Því hvarflar að manni að það séu ekki endilega hagsmunir viðkomandi stofnana sem ráði þessari skipan mála, heldur hagsmunir flokkanna.

Því hefur verið haldið fram með nokkrum rökum að of mikil pólitísk afskipti af t.d. bankarekstri, þar sem faglegra sjónarmiða er ekki gætt, standi eðlilegum rekstri og lánastarfsemi þeirra fyrir þrifum, m.ö.o., miðstýringin sé neikvæð, valddreifing nauðsynleg.

Þótt þetta frv. sem hér liggur til umræðu gangi ekki svo langt að leggja bankaráð í núverandi mynd niður og tryggi því á engan hátt að við ráðningar bankastjóra gildi fagleg sjónarmið en ekki flokkspólitísk er það þó spor í rétta átt. Með því að auglýsa stöður bankastjóra og krefjast upplýsinga um menntun og fyrri störf opinberast þó hvernig staðið er að málum. Ljósara verður fyrir alla aðila, bankana, almenning og stjórnmálamenn, ef önnur sjónarmið en fagleg vega þyngst. Það verður ekki eins auðvelt að ganga fram hjá mönnum sem ættu vegna menntunar sinnar eða reynslu að hafa forgang. Og þetta útilokar ekki aðgang fyrrv. alþm. eða flokksgæðinga hvers konar. Þeir verða þá bara að sækja um og láta síðan vega kosti sína og hæfni til starfsins eins og aðrir. Á meðan flokkspólitísk bankaráð standa að því mati þurfa þeir kannski ekkert að óttast. Umbunarúthlutun verður hins vegar erfiðari.

Eins er ákvæðið um sex ára ráðningartíma, sem ætti auðvitað eðli málsins samkvæmt að vera til fjögurra ára, viss trygging fyrir því að menn gætu ekki í gegnum setu á Alþingi eða flokkslega tryggð keypt sér ævilangt öryggi. Hvorki þingmennska eða flokksmennska á að vera stökkpallur til efnahagslegs öryggis eða stöðu. En það má vel vera að of mikið öryggi, of löng seta, t.d. á Alþingi, dragi úr kjarki manna til að hverfa aftur út í atvinnulífið og þurfa þar að hlíta sömu skilyrðum og aðrir launþegar. Ráðið við því er náttúrlega að sitja ekki of lengi, en það er e.t.v. annað mál.

Með fyrirvara um bankaráð og ráðningartíma styðjum við frv. því að þótt það tryggi ekki, eins og ég sagði áðan, að fagleg sjónarmið komi í stað flokkspólitískra og valddreifing í stað miðstýringar má þó segja eins og skáldið: Þeir sætu í hægara sæti án þess.