24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

84. mál, viðskiptabankar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig ekkert úf á frv. að setja eins og það er úr garði gert. Mig langar hins vegar til að leiðrétta þann misskilning sem fram hefur komið að það sé einhver trygging fyrir því að það sé t.d. meira pólitískt vald í ríkisbönkunum en í hinum bönkunum. Ég held að það sé alveg öfugt. Ég held að mikið frekar sé farið eftir pólitískum línum í hlutafélagsbönkunum en í ríkisbönkunum. Það er líka vegna þess að þarna sitja menn úr mörgum flokkum, í ríkisbönkunum. Og þeir eiga samkvæmt lögum að hafa eftirlit með bönkunum. Eftir nýju lögunum bera þeir verulega ábyrgð ef illa til tekst. Þeir eru nokkurs konar gæslumenn bankanna. Auðvitað er hægt að koma þessu fyrir á ýmsan hátt. Ég er ekki að segja að þetta sé hin eðlilegasta eða besta leið. En ég fullyrði að þær ákvarðanir sem eru teknar í bankaráðum ríkisbankanna eru minna af pólitískum toga en í einkabönkunum. Það er kannski málið.

Þegar verið er að velja bankastjóra og það er verið að tala um faglega þekkingu — faglega þekkingu á hverju? Hvað þarf bankastjóri að hafa til brunns að bera sem á að stjórna t.d. Landsbankanum eða Búnaðarbankanum? Er það endilega að vinna bankastörf? Er það það sem menn halda? Er það ekki fyrst og fremst það að hann kunni skil á atvinnulífinu í þessu landi? Þessi maður, bankastjórinn í svona banka, vinnur ekki bankastörf. Hann ákveður hvernig á að skipta því fjármagni sem hann hefur. Það er allt annað að vera sparisjóðsstjóri í litlum sparisjóði og þurfa að vinna öll verk en að vera bankastjóri í ríkisbanka. Ef bankastjóri, sem er valinn frá bankamönnum, hefur aðeins unnið í banka en þekkir ekki atvinnulífið í landinu þarf enginn að segja mér að hann sé jafnfær og t.d. góður kaupfélagsstjóri eða stjórnmálamaður eða maður sem hefur rekið stór fyrirtæki. Þetta gefur alveg auga leið.

Ég held að þegar er verið að tala um þessi mál átti menn sig ekki á í raun og veru vanda og kjarna þessa máls. Hitt er allt annað mál að það geta verið menn í bönkunum sem hafa hvort tveggja til brunns að bera. En það er ekki trygging fyrir því. Í þeim banka sem ég er kunnugastur get ég sagt að það eru til menn sem ég mundi treysta, en þeir eru ekki margir. Þeir eru alls ekki margir sem hafa þetta sjónsvið sem ég er að tala um — sem er aðalatriðið. Það að auglýsa bankastjórastöðu er alveg sjálfsagt að mínum dómi og hefur alltaf verið. En ef færa á þetta vald, að velja bankastjóra, inn í bankana t.d., ef menn halda það þá er það röng stefna að mínu mati, alröng stefna. Hitt getur verið álitamál hver á að velja.

Í sambandi við þingkjörnar nefndir eins og í einu bankaráðanna þá þurfa menn alls ekki að fara eftir flokkunum. Þeir eru ekki samkvæmt stjórnarskránni bundnir af neinu nema sannfæringu sinni. Ekki af neinu. Og sumir hafa unnið þannig. Hafa ekki látið stjórna sér.

Umræðan um þessi mál hefur oft og tíðum verið þannig að það hefur verið talað af lítilli þekkingu. Raunar kem ég núna bara í ræðustól í sambandi við þessar umræður vegna þess að ég hef allt aðrar hugmyndir en hafa komið hér fram. Ég vona að ég hafi talað nógu skýrt þannig að menn skilji hvað ég er að fara.

Kannski væri ástæða til að taka fleira til varðandi bankana en ég geri hér, en þar sem nú eru fáir í salnum og ekki þeir inni við sem þyrfti að skjóta á í því sambandi, þá held ég að ég láti það vera. Hins vegar vil ég segja sem eina setningu að þó að sagt sé að bankaráðin ráði vaxtastefnunni þá er það rangt. Það er ríkisstjórnin sem ræður henni með þeirri stefnu að hækka alltaf vextina til þess að reyna að ná fjármununum frá bönkunum og frá almenningi, en það er of langt mál og ekki ástæða til þess að ræða það frekar. En að gefnu tilefni vil ég segja að það eru ekki bankarnir sem ráða því heldur, þó það sé í orði kveðnu.