24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

84. mál, viðskiptabankar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að styðja það frv. sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur mælt fyrir, frv. til laga um breytingu á l. nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka. Meðflm. hans er Hreggviður Jónsson.

Ég held að það fari ekki á milli mála að það er meiri pólitísk veiting og pólitísk afstaða sem tekin er um ríkisbankana en einkabankana. Við getum kallað það pólitíska afstöðu sem tekin er í einkabönkunum þar sem alræði hinna fáu ræður ríkjum en það er ekki pólitísk afstaða á sama hátt og við tölum um eða hugsum um þegar við notum orðið pólitík yfir stjórnmál og stjórnmálalega, flokkslega afstöðu. Það er allt önnur pólitík sem rekin er í einkabönkunum og miklu, miklu, miklu hættulegri fyrir land og þjóð en nokkurn tíma sú afstaða sem tekin er af stjórnmálalegum ástæðum og flokkslegum ástæðum. Ég held að það sé löngu tímabært úr því að það kom upp í þessum umræðum að umræður fari fram um þau atriði sem snerta einkabankana og einkafyrirtæki og valdastrúktúr, valdauppbyggingu í þjóðfélaginu í gegnum kapítalið, hvernig það liggur, hvernig það liggur frá einu fyrirtæki, stóru fyrirtæki í litlu þjóðfélagi yfir í annað þar sem allir þræðirnir má segja eru í sömu höndum til hægri, til vinstri, upp og niður. Þar eru stórmál sem þarf að rannsaka. Því tala ég ekki um þau mál hér og nú öðruvísi en að ég bendi á að Borgarafl. hefur einmitt flaggað mikið með alræði hinna fáu í öllum sínum málflutningi til að vara við því sem er að gerast í þjóðfélaginu, því sem er að verða áberandi en hefur verið að grafa um sig í langan tíma.

Hvað er það annað en pólitísk veiting þegar þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi telja sig eiga ráðstöfunarrétt á bankastjórastöðum ríkisbankanna þegar þær losna og jafnvel áður en stöðurnar losna? Hvað er það annað en pólitísk yfirlýsing þegar pólitískt kjörinn formaður Landsbanka Íslands lýsir yfir að hann muni styðja tillögur og ákvarðanir Sjálfstfl. um ákveðinn bankastjóra, ákveðinn þingfélaga okkar hér, í bankastjórastöðu þegar kjörtímabil er nýhafið? Hvað er það annað en pólitísk ákvörðun þegar það kemur fram að Framsfl. gerir kröfur til þess að ákveðinn kaupfélagsstjóri verði bankastjóri ríkisbankans löngu áður en staðan losnar? Hvað er það annað en pólitísk ákvörðun þegar Alþfl. tilkynnir einn þingmann sem verðandi bankastjóra Búnaðarbankans löngu áður en staðan losnar þar? Auðvitað er þetta ekkert annað en pólitísk ákvörðun.

Það er þetta sem frv. er að reyna af veikum mætti að koma í veg fyrir, ekki með því að breyta svo miklu, því að í lögum um viðskiptabankana og um ríkisbankana segir að bankaráðin ráði bankastjórana. Bankaráðin eru ábyrg gagnvart Alþingi. Og bankaráðin hafa vissum eftirlitsskyldum að gegna. Bankastjórarnir eru ráðnir af bankaráðunum, segja lögin. En lögin eru bara ekki virt. Það hefur gerst. Og úr því að hér er skotið inn í að lögin hafi stundum verið virt, þá vil ég segja það að þann tíma sem ég var bankaráðsformaður í Útvegsbankanum kom upp ráðning bankastjóra og staðan var auglýst. Það kostaði mig leiðindi sem bankaráðsformann og ágreining við einn af þeim stjórnmálaflokkum sem þá réðu ríkjum sem meirihlutaþátttakandi í ríkisstjórn, en það varð ofan á að sú staða var auglýst og fagmaður, starfsmaður sem að vísu hafði yfirgefið bankann en verið í ábyrgðarstöðum, trúnaðarstöðum innan bankans á öllum sviðum, kom aftur til baka með sína reynslu inn í stofnunina. Ég held að það hafi verið vel ráðið.

Auðvitað getur alþm. haft faglega þekkingu á atvinnulífinu. Alþm. er ekki alls varnað þó sumir haldi kannski að svo sé. Margir alþm. eru ákaflega hæfir en það er ekki þar með sagt að þeir séu hæfir bara af því að þeir eru með prófskírteini úr einhverri grein í Háskólanum. Mikið langt í frá. Sjáið einlita hjörð Sjálfstfl., þar sem allir eru úr lagadeild Háskólans, má segja úr sama gagnfræðaskóla, sama menntaskóla, sama háskóla og beint inn í pólitík. Þetta er fólk sem er eins og búið til úr sama mótinu. (ÓÞÞ: Stöðluð framleiðsla.) Þetta er stöðluð framleiðsla. Akkúrat það sem ég ætlaði að segja. Það er ekki þar með sagt að það séu bestu bankastjórarnir. Það vantar að vísu „úniform“ en það kemur eflaust með nýfrjálshyggjunni þegar hún er komin á næsta stig.

Ég vil segja að þær ráðningar sem við sjáum blasa við eru hápólitískar og þó að þetta frv. geri ekki annað en að draga athygli að vinnubrögðunum þá hefur það sinn tilgang. Það sem hér er til viðbótar við það sem lögin segja er að stöðurnar skuli auglýstar. Þær stöður, sem ráðstafað er á vegum ríkisins, skuli auglýstar og það skuli vera fyrir opnum tjöldum því að ríkið er ekki bara ákveðinn flokkur. Og fólkið sem hefur flokksskírteini er ekki bara með réttinn, það eiga allir landsmenn að hafa sama rétt.

Ég tek undir það sem kemur fram í grg. um vinnubrögð: „Kveður nú svo rammt að í þessu efni að tekið er að ráðstafa bankastjórastöðum mörgum árum áður en núverandi bankastjórar hætta störfum. Gildir þá flokksskírteinið oft meira en menntun og hæfni bankastjóraefnisins.“ Þetta er rétt og það er hörmung til þess að vita.

Ég tek einnig undir næstu setningu, með leyfi forseta:

„Tilgangur þessa frv. er að sporna við misnotkun valds og aðstöðu við veitingu þeirra áhrifamiklu starfa sem hér um ræðir og leitast við að fagleg sjónarmið verði sett ofar flokkslegum.“

Þetta er heila málið. Það er ekki af því að þetta frv., sem flm. mæla fyrir og flytja og við hin í Borgarafl. styðjum, sé eins konar uppfinning á hjólinu. Það er langt í frá. Við erum bara að reyna að taka svolítið til í stjórnmálunum eftir moldviðri sem .þyrlað hefur verið upp og á eflaust eftir að halda áfram.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í grg., með leyfi forseta: „Í annan stað leiðir opinber auglýsing um þessi embætti væntanlega til þess að úr fleiri hæfum umsækjendum verður að velja. Síðast en ekki síst er með þessu reynt að sporna við leynimakki og baktjaldasamningum stjórnmálamanna sem viðgengist hafa varðandi veitingu slíkra starfa.“ Við vitum öll að þetta er rétt. Ég trúi því að yfir 90% Íslendinga, ef ekki nær 100%, jafnvel þó Sjálfstfl. sé þar með stóran hluta, samþykki hvert orð sem hér er og þá hugsun sem þar liggur á bak við.

Hæstv. forseti. Ég vona, þó að flm. hafi ekki trygga stuðningsmenn bak við það frv. til l. sem þeir flytja hér, hafi ekki tryggan fjölda stuðningsmanna til að koma því í gegn, þá gefi þm. sér tíma til að hugsa málið og leggja því lið, eins og 1. flm. sagði í sínum lokaorðum, því þetta er ein af þeim hreinsunaraðgerðum sem virkilega eru nauðsynlegar í þjóðfélaginu.