24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

42. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson (frh.):

Herra forseti. Það stendur ekki á okkur óbreyttum þm. að halda áfram fundi og þar sem sá aðili er í þingsalnum, hv. 17. þm. Reykv., sem ég beindi til allmörgum spurningum þykir mér rétt að óska þess eins að hann svari þeim spurningum, vona að hann hafi kynnt sér þær í minni ræðu svo að ég þurfi ekki á nýjan leik að flytja þær hér. En ég gagnrýndi mjög harkalega þegar þetta mál var á dagskrá að svo virtist sem menn hefðu áhuga á því að umræðum lyki án þess að mjög alvarlegum spurningum, sem beint var til flm., væri svarað. Þær snerust, eins og hann vafalaust hefur kynnt sér með því að lesa þær ræður sem hér voru fluttar, um þá grg. sem fylgdi frv. og hreinlega gekk ekki upp þannig að hún var ósamkvæm sjálfri sér þegar athugað var það sem þar er sagt um tekjur sem af þessu mundi leiða og jafnframt þegar minnst er á að þetta auki á engan hátt drykkju. Annað atriðið hlaut að vera rangt og þess vegna var það eindregin ósk mín að svör bærust og eins að menn gerðu almenna grein fyrir þeirri afstöðu sem kom fram í öðrum spurningum sem varpað var til flm.

Nú má segja sem svo að þar sem hér er ekki um 1. flm. að ræða sé þetta kannski ekki að öllu leyti sanngjarnt, en það er dálítið erfitt að tala í þessu máli og beina spurningum til 1. flm. þegar hann er ekki í þinginu. Vænti ég þess að hv. 17. þm. Reykv. taki það ekki illa upp þó ég hafi beint spurningunum til hans í stað 1. flm. Þó að hæstv. iðnrh. hafi látið svo sem hann væri reiðubúinn að gera grein fyrir þessu einnig fannst mér sem það væri eiginlega fyrst og fremst við atkvæðagreiðslu sem hann væri reiðubúinn að tjá sig en ekki með efnislegri umræðu um þetta mál.

Ég ætla ekki að lengja þetta, herra forseti, en vænti þess að það standi, sem ég sagði hér áðan, að ég þurfi ekki að tvítaka mína ræðu heldur að það liggi ljóst fyrir að hv. 17. þm. Reykv. hafi kynnt sér þær umræður sem fóru fram um þetta mál.