24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

42. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef hvorki lagst gegn því að þetta mál væri rætt né gegn því að það færi til nefndar. Og mér finnst að forseti hafi það í hendi sér að skipa þessu máli svo framarlega á dagskrá að það sé vansalaust að taka það fyrir og afgreiða það. Það er mikil spurning hvort það sé rökrétt hjá forseta að setja málið seinast og slíta þannig í sundur umræðuna eins og gert hefur verið.

Ég tel aftur á móti að það sé mikil spurning hvort þingfundum eigi að halda áfram þegar svo virðist sem aðeins örlítill hluti þm. sé eftir í húsinu á hverjum tíma. Við könnumst við að þetta hefur oft verið gert og ég er ekki að ámæla þeim forseta sem nú situr í forsetastól, en mér finnst að það sé ekki eðlilegt að gera meiri kröfur til þingsetu almennra þm. til að vera við hér en ráðherrar séu við og gegni sinni þingskyldu þegar mál þeim skyld eru á dagskrá.

Ég ætla ekki að færa fram neinar kröfur á hendur forseta um vinnubrögð, en ég mótmæli því að eitt eða neitt hafi verið gert hér af hálfu þeirra manna sem hafa talað gegn þessu máli í þá átt að koma í veg fyrir að það færi til nefndar. Það er svo fráleitur áburður að hann nær engri átt. Auðvitað fer málið til nefndar.

Ég vek líka á því athygli að ég tel að það hafi ekki verið fluttar langar ræður um þetta mál ef menn kynna sér það. Menn hafa aftur á móti haft margir hverjir áhuga á að tjá sig um þetta mál. Það er allt annað og ekki nema eðlilegt þegar viðkvæmt deilumál er til umræðu á Alþingi.

En að sjálfsögðu dettur engum annað í hug en að málið fari til þingnefndar, hljóti þar afgreiðslu og fari í atkvæðagreiðslu í þinginu eins og verið hefur þegar það hefur verið á dagskrá.