24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

42. mál, áfengislög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Því hefur verið lýst af hv. 17. þm. Reykv. hversu oft þetta mál hefur verið hér á dagskrá. Ég efast um að nokkurt annað mál, sem er til meðferðar í þessari hv. deild, hafi verið jafnoft á dagskrá og þetta mál. Þau ár sem sambærileg mál hafa verið á ferð hér í þingsölum hef ég verið áhorfandi en ekki þátttakandi. Ég verð að segja eins og er að það er ekki með öllu vansalaust hvernig á þeim málum hefur verið haldið á Alþingi og hversu erfiðlega það virðist ganga að alþm. taki ákvörðun af eða á í máli eins og þessu. Ég er einn af fáum þm. sem ekki hafa látið skoðun í ljós um þetta mál, ég mun gera það þegar það kemur í þá nefnd sem málið fær til meðferðar, en mér finnst alveg fráleitt annað en að þm. standi þannig að verki, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að menn greiði fyrir því að málið geti komið til meðferðar í þingnefnd svo að hægt sé að standa að afgreiðslu þess, hvernig svo sem sú afgreiðsla fer, með eðlilegum hætti og án þess að það þurfi til þær miklu málalengingar sem hafa verið um þetta og sambærileg mál á umliðnum árum. Það hefur í augliti áhorfandans, alveg laust við hvaða skoðun hann hefur á málinu, ekki aukið virðingu Alþingis hversu erfiðlega virðist hafa gengið að fá ákvörðun um mál eins og þetta. Ef alþm. ráða ekki við ákvörðun í svona máli ráða þeir ekki við ákvörðun í stærri málum en þetta er.