24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

42. mál, áfengislög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þingsköp gera ráð fyrir að í hverri umræðu í deild geti hver þm. talað tvisvar og síðan, ef sérstaklega stendur á, gert örstutta athugasemd ef forseti leyfir. Þá gera einnig reglur Alþingis ráð fyrir því að þm. séu við störf í þinginu á meðan dagskrá krefst. Þeir þm. sem standa við það eiga ekki að gjalda fyrir að aðrir þm. geta af einhverjum ástæðum ekki sinnt störfum sínum. Málið á ekki heldur að líða fyrir það né framgangur mála á Alþingi að einhverjir tilteknir þm., sem hafa lokið sínum ræðutíma og eru upp á náð og miskunn forseta komnir um hvort þeir fá að gera örstutta athugasemd, hafi tíma til að gera það ef þeim þóknast eða ekki. Þm. sem biðja um orðið með þessum hætti verða að vera reiðubúnir að tala þegar forseti gefur þeim orðið. Miðað við mína þingreynslu vara ég mjög við því fordæmi sem verið er að gefa hér því að miklu stærri og erfiðari mál eiga eftir að koma til afgreiðslu í þinginu og menn mega ekki geta leikið þann leik í því sambandi að tala tvívegis, óska síðan eftir því að fá að gera örstutta athugasemd en tilkynna að því miður geti þeir ekki gert það á þeim tíma sem forseti gefur þeim orðið því þeir þurfi að víkja af fundi og þá fresti forseti framgangi málsins.

Hugsið ykkur ef það væri fjárlagafrv. sem hér ætti að fara að afgreiða og menn beittu slíkum aðferðum og forseti með því fordæmi sem hér er verið að gefa féllist á það. Við eigum eftir að ræða þetta sama mál í tveimur umferðum í hv. deild og ég vil einlæglega skora á hæstv. forseta, gjörsamlega án þess að ég sé að taka efnislega afstöðu til málsins, að endurskoða þessa ákvörðun sína því það er aðeins einn þm. á mælendaskrá, sá þm. sem búinn er að tala tvisvar, á það undir forseta hvort honum heimilast að gera örstutta athugasemd, gat gert það þegar hann var staddur í þinginu, en lýsti því þá yfir að sá tími hentaði honum ekki og óskaði eftir frestun á framgangi málsins þar af leiðandi.

Herra forseti. Þetta er ekki fordæmi sem er æskilegt fyrir starfsemi þingsins og ég bið hæstv. forseta að endurskoða þá afstöðu sína án þess að í þeirri beiðni felist nein afstaða af minni hálfu til efnisatriðis þessa máls.