25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þann dagskrárlið sem hér er til umræðu, en vil eigi að síður segja örfá orð við 1. umr. málsins.

Það er hv. þingdeildarmönnum væntanlega ekkert launungarmál að ég er andvígur sumum af þessum þáttum og þá fyrst og fremst svokölluðum matarskatti og mun ekki standa að afgreiðslu þess þáttar þessa máls. Það er út af fyrir sig rétt að Alþfl. hefur haldið fram þeirri stefnu að afnema skuli undanþágur í söluskatti en jafnhliða að lækka söluskattsprósentu. Slíkt liggur ekki fyrir það ég best veit og meðan slíkt liggur ekki fyrir er ég ekki reiðubúinn að taka upp sérstaka skattheimtu á matvæli sem kemur til með að bitna fyrst og fremst á þeim sem ég tel verst setta. (HBl: En er þm. sammála matarskatti í prinsippi?) Það er ekki um neitt prinsipp að ræða fyrr en maður veit hvað á að koma á móti. Þetta eru meginrök mín fyrir því að ég er andvígur þessum þætti frv. Þetta hefur legið ljóst fyrir og kemur engum á óvart.

Vel má vera að áður en þessu máli lýkur á Alþingi í afgreiðslu verði komin upp ákveðin svör við því hvað skal gera í framhaldi af þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar að afgreiðsla á þennan hátt sé ekki til að greiða fyrir væntanlegum eða hugsanlegum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem þegar standa fyrir dyrum. Þar þyrftu aðgerðir ríkisvalds fremur að leiða til þess að greiða þá götu en setja fætur gegn því sem þarf að gera. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn ætti að endurskoða afstöðu sína í þessu máli í þá veru að hætta annaðhvort við þessa fyrirframskattheimtu á almenning í landinu, og þá fyrst og fremst launafólk, eða þá að koma með ótvíræðar tillögur í þá átt hvað skal koma á móti fyrir það fólk sem þessa byrði á að bera. Ég geri a.m.k. kröfu til þess, þar sem Alþfl. á hlut að máli, að menn leggi þau spil á borðin áður en endanlega verður gengið frá þessu máli hér.