15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Reykn. gerði hér að umræðuefni í máli sínu fyrirvara minn við afgreiðslu fjárlagafrv. í ríkisstjórninni sem stafaði af því að nokkrir liðir í frv. sem snerta landbrn. eru lægri en ég taldi fært án þess að séð yrði hvernig þeirri þjónustu yrði haldið uppi þá á annan hátt.

Tilgangur með niðurskurði eða lækkun útgjalda hjá fjmrh. er að sjálfsögðu sá að ná jafnvægi á ríkisbúskapnum og markmið slíkt um að ná jafnvægi styð ég. En ég tel hins vegar ekki fært að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi án þess að breytingar verði þarna gerðar á nokkrum liðum. Það er Alþingi sem afgreiðir fjárlagafrv. og þm. stjórnarflokkanna sem bera ábyrgð á því. Það er því ekki verið að taka vald af neinum þó að fulltrúum þessara þingflokka sé falið að fjalla um þessi atriði og sú athugun, sem þarna er gert ráð fyrir, þarf að ná nokkru lengra heldur en aðeins að breyta krónutölu á fjárlagafrv., a.m.k. til þess að að gera sér grein fyrir því hvernig sú breyting á að fara fram. En ég styð tekjuhlið frv. og fjárlagafrv. að öðru leyti og vænti ég þess að þetta svari því atriði sem hv. frummælandi sagði eitt af þremur tilefnum þess að hann kom hér upp í ræðustólinn, um það hvort þetta frv. nýtur stuðnings mín eða Framsfl. eins og reyndar hæstv. utanrrh. hafði þegar tekið fram.