15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur nú farið fram ítarleg umræða um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og fyrstu aðgerðir sem hún hefur gripið til í þremur áföngum, þ.e. fyrst með stjórnarsamningnum sjálfum, síðan með fjárlagafrv. eitt sem var talið afar fullkomið af hæstv. fjmrh. og svo með fjárlagafrv. tvö sem nú er talið nálgast hina endanlegu fullkomnun ef marka má ummæli dómsmrh. áðan.

Ég ætla hér að fara aðeins yfir nokkur atriði sem fram hafa komið í ræðum hæstv. ráðherra og víkja að málum almennt að lokum. Fyrst ætla ég að víkja aðeins að orðum hæstv. landbrh.

Það hefur komið fram að hæstv. landbrh. gerir fyrirvara við fjárlagafrv. Það hefur komið fram að hæstv. landbrh. telur að hans ráðuneyti sé ekki afgreitt með eðlilegum hætti í þessu fjárlagafrv. Og hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., hefur lýst því yfir að af þeim ástæðum og öðrum sé fjárlagafrv. í raun og veru þannig að það sé lagt hér fram til sýnis fyrst og fremst.

Við fengum hins vegar nýja útgáfu af þessu máli hér í ræðu hæstv. landbrh. áðan, afar fróðlega. Hann sagði: Nokkrir liðir frv. eru lægri en ég tel fært. Það er ekki fært að afgreiða frv. sem lög frá Alþingi eins og það liggur fyrir. Það þýðir m.ö.o. að ef fram færi nú atkvæðagreiðsla um þetta fjárlagafrv. hér á hv. Alþingi, þá mundi Framsfl. ekki greiða því atkvæði. Þar með er þetta auðvitað ekki stjfrv. Þannig hefur hæstv. landbrh. svarað einni af þeim spurningum sem hv. 5. þm. Reykn. lagði hér fram í upphafi þessarar umræðu. Að vísu gaf hæstv. utanrrh. yfirlýsingu um það að fjárlagafrv. væri flutt af Framsfl. og stutt, en hann sagði: Það verður að laga landbúnaðarþáttinn, jafnvel - með hverju? - með aukinni tekjuöflun, aukinni tekjuöflun. Hæstv. utanrrh. upplýsti m.ö.o. að það eru enn uppi áform um aukna skattlagningu af hálfu ríkisstjórnarinnar áður en þetta frv. verður að lögum.

Ég ætla síðan í sjálfu sér ekki að fara að ræða mikið við hæstv. dómsmrh. Hann talaði um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, að hún væri í raun og veru sérstaklega jákvæð gagnvart þessum efnahagsaðgerðum, og hæstv. fjmrh. var einnig sömu skoðunar að því er virtist. Hvað er þetta bréf frá Alþýðusambandi Íslands til forsrh. annað en afstaða verkalýðshreyfingarinnar? Hún kemur þar fram með mjög skýrum og afgerandi hætti þar sem fullyrt er að núverandi ríkisstjórn hafi með ákvörðunum sínum gengið á bak þeim fyrirheitum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafi gefið aðilum vinnumarkaðarins við frágang kjarasamninga í desember 1986. Hér er auðvitað um að ræða ákaflega alvarlegan hlut frá hendi ríkisstjórnar sem er að leggja af stað. Hún byrjar á því að storka verkalýðshreyfingunni í landinu með aðgerðum sínum, en síðan kemur hæstv. fjmrh. og segir: Ja, ég er svo sem tilbúinn til þess að athuga málin síðar og ræða við verkalýðshreyfinguna.

Ég er sannfærður um það að þessi hrokafulla framkoma fjmrh. og Alþfl. sérstaklega í garð verkalýðshreyfingarinnar mun spilla fyrir möguleikum á því að unnt verði að taka á þeim alvarlegu efnahagsvandamálum sem uppi eru í þessu þjóðfélagi hvað svo sem þessum margrómuðu ráðstöfunum líður sem ráðherrar Alþfl. eru að mæra og prísa úr þessum ræðustól í dag. Og það er kostulegt til þess að hugsa að fyrsta stjórnin sem Alþfl. tekur, að því er virðist nokkurn veginn heill, þátt í, að undanteknum einum þm., í 16 ár, skuli byrja sinn feril á því að svíkjast aftan að verkalýðshreyfingunni í landinu með þessum hætti, með þeim hætti sem hér er kynnt, með þeim vinnubrögðum sem hér hefur verið lýst og m.a. með þeirri skattlagningu á matvörur sem fyrst og fremst lendir auðvitað á láglaunafólkinu og þeim sem verða að eyða mestum hluta tekna sinna í mat til þess að geta verið til.

Hvar eru yfirlýsingarnar frá hæstv. fjmrh. um skattlagningu á burgeisana? Hvar eru ræðurnar sem hann flutti á síðasta kjörtímabili 1984–1987 um skatta á stóreignir upp á 1500 millj. kr. á árinu 1984? Hvar eru tillögurnar og ræðurnar um skatta á vexti og vaxtatekjur og vaxtaokrið sem hér viðgengst? Og hvar eru yfirlýsingarnar um það að um leið og Alþfl. verði kominn inn í ríkisstjórn verði fyrirtækin, sem hafa fengið skattaívilnanir að gjöf frá fráfarandi stjórn upp á 2000 milljónir á ári, látin borga? Hvar eru þessar yfirlýsingar? Hvar eru þær? Þær eru í þingtíðindum. En það verður séð til þess að þær verði rifjaðar upp vegna þess að það voru ekki fyrirtækin heldur maturinn, það voru ekki vaxtatekjurnar heldur maturinn, það voru ekki stóreignirnar heldur maturinn sem var sá skattstofu sem „alþýðuflokkurinn“ taldi eðlilegast að byrja á sinn stjórnarferil eftir útlegð úr Stjórnarráðinu í 16 ár. Svona vinnum við ekki jafnaðarmenn hvað svo sem þeir gera sem stýra Alþfl. um þessar mundir.

Það er vitaskuld rétt sem fram hefur komið, t.d. hjá hæstv. dómsmrh., að eitt og annað af því sem nefnt hefur verið eða gert af ríkisstjórninni er gott, það er til. Ég sé að þeir gleðjast yfir því að ég skuli rétt aðeins hæla þeim og ég ætla að halda áfram. Það eru fjármögnunarleigurnar og hvernig var tekið á þeim, það hefði mátt ganga lengra. En ég styð þá einlæglega í tilraunum þeirra til þess að setja þessar fjármögnunarleigur í hnappheldu. Sérstaklega eftir að íhaldið fór að mótmæla þeim er nauðsynlegt að þeir viti að þeir eigi vísan stuðning í Alþb. að því er þetta varðar. En það er fátt, sárafátt, sem hægt er að tína til í þessum efnum.

Ég ætla að víkja þessu næst að máli hæstv. forsrh. sem hann flutti fyrr í dag og vil taka undir með hv. þm. Albert Guðmundssyni um það að margt af því sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. var ekkert annað en ómerkilegur og ódýr Heimdallarskætingur. Innanflokksmál í Alþb. eru utan við verkefnasvið þessarar umræðu. Ég er sannfærður um það að við værum tilbúnir til að ræða þau við annað tækifæri, bæði ég og hv. 5. þm. Reykn., en það eru efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem eru á dagskrá hér og nú og það var auðvitað óhjákvæmilegt að kalla til umræðna um þær hér á hv. Alþingi vegna þess að ríkisstjórnin ætlaði ekki að láta svo lítið að koma með málið hingað inn. Það eru tilkynntar viðamiklar efnahagsráðstafanir sömu dagana og þingið er að koma saman en málið er ekki lagt fyrir Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Og ég segi: Svona framkoma við þingið kann ekki góðri lukku að stýra því að hversu stóran meiri hluta sem þið teljið ykkur hafa hér, hæstv. ráðherrar, er það ljóst að þið komið engu fram og engu í gegn í þinginu nema í eðlilegu samstarfi við stjórnarandstöðuna sem hér á fulltrúa. Þannig að sá valdahroki, sem birtist í því að tilkynna efnahagsráðstafanir upp á þúsundir milljóna króna án þess að ætla sér að taka það fyrir í þinginu, kann ekki góðri lukku að stýra og honum er mótmælt. Þess vegna var auðvitað óhjákvæmilegt að kalla til þessarar umræðu og það er útilokað fyrir hæstv. forsrh. eða aðra ráðherra að ætla sér að víkja sér frá þessari umræðu með ómerkilegum skætingi um einstaka þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa flutt sitt mál í dag.

Herra forseti. Þannig háttar til að í upphafi þessa máls var óskað eftir því að fá að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Hér sátu framan af í dag einhverjir fleiri ráðherrar Sjálfstfl. - einn er nú á sjúkrahúsi í kjördæmi sínu eins og þjóðfrægt er, en einhverjir voru þó hér. Nú eru þeir ekki hér og það dugar mér ekki, hæstv. forseti, þó að aðstoðarmaður hæstv. forsrh. sitji þarna og það glitti í hann í hliðarsölum. Þess vegna er það óhjákvæmilegt fyrir mig að óska eftir því, hæstv. forseti, að ef þessi umræða á að halda áfram fáum við að eiga orðastað við þessa menn því til þess er hún. (Gripið fram í: Til þess er Alþingi.) Það veit auðvitað hæstv. forseti og ég veit að honum sárnar að flokksbræður hans í ráðherrastól skuli víkja sér undan umræðu með þessum hætti.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að kannað verði hvar þeir eru, ráðherrar Sjálfstfl., þannig að við þá megi eiga orðastað. Þetta er utandagskrárumræða sem beinist að þeim. Ég er tilbúinn til að tala hérna dálitla stund við ráðherra Alþfl., þ.e. meðan hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. væru að koma hingað því það er hægt að tala býsna lengi við ráðherra Alþfl. Þó að þeir hafi setið stutt á ráðherrastól, þá er hægt að tala mjög ítarlega við þá. (ÁrnG: Sameiginleg áhugamál, Svavar.) Sameiginleg áhugamál, mín og hv. þm. Árna Gunnarssonar. (Forseti: Það verður athugað hvort fleiri ráðherrar geti verið viðstaddir. Það kann að vera að lögmætar ástæður séu fyrir fjarveru ráðherra, en ég sé að hér eru nokkrir ráðherrar og ég vænti þess að það hafi þýðingu að ráðherrar séu hér til þess að svara fyrir ríkisstjórnina úr hvaða flokki sem þeir eru. Þetta verður athugað. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. ætli að halda áfram ræðu sinni, en ef hann telur sig ekki geta haldið henni áfram vegna fjarveru einstakra ráðherra mun hann verða að fresta ræðunni og við höldum umræðunni áfram.) (ÓRG: Það er heldur enginn þm. Sjálfstfl. í salnum nema hæstv. forseti.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir liðlegheitin og vona að hann kanni það hvort hæstv. forsrh. gæti látið svo lítið að líta hér við og hlusta á þm. Þetta eru að vísu bara þm. og sumir þeirra úr stjórnarandstöðunni en það gæti verið fróðlegt að eiga frekari orðastað við hann. En það er misskilningur hjá hæstv. forseta að það sé hægt að tala við ráðherrana alveg þvert á flokkana, að einn ráðherra, t.d. hæstv. sjútvrh., geti svarað fyrir hina flokkana. Það er örugglega ekki hægt vegna þess að þetta er ekki ein ríkisstjórn nema að hluta til eins og kom fram hjá hæstv. landbrh. áðan sem sagðist bara styðja tekjuhlið fjárlagafrv. (Gripið fram í.) Þá það, tekjumegin. Gjaldamegin gerir hann athugasemdir. Þetta veit ég að hæstv. sjútvrh. finnst dálítið sniðugt sem reyndum endurskoðanda og bókhaldara því það er algengt að þetta þurfi jafnvel að standast á. (Sjútvrh.: Það er í flestum flokkum.) Ég hugsa að það sé víðast hvar hvernig sem það er í Framsfl., en fjármál hans hef ég því miður ekki haft aðstöðu til að kynna mér.

Varðandi ummæli hæstv. utanrrh., sem ég kem aðeins að næst, fannst mér það mjög athyglisvert, sem hann upplýsti í ræðu sinni, að hann hefði verið með tillögur tilbúnar í vor gegn þenslunni. Aðstæður hefðu aftur á móti ekki verið þannig að hann hefði getað dregið þær upp úr pússi sínu. Nú er hæstv. utanrrh. yfirleitt ekki feiminn við að tala eða skýra frá sjónarmiðum sínum en aldrei þessu vant þá virðist hann hafa legið á þessum gullaldarúrlausnum efnahagsmálanna fram eftir öllu sumri. Getur það verið að hæstv. fyrrv. forsrh. hafi gert sér grein fyrir því að ef hann hefði sýnt þessar tillögur í maímánuði hefði þjóðin áttað sig á því að litmyndirnar á Stöð 2 um „bjargið sem aldrei brestur“ voru falsmyndir? Skyldi það vera að hann hafi áttað sig á því í maímánuði að það var of stutt um liðið síðan hann sýndi þessar myndir um að allt væri hér fullkomið og allt í besta lagi og bað þjóðina um að kjósa bjargið, klettinn?

Auðvitað er þessi umræða núna fyrst og fremst staðfesting á því að það sem við vorum að segja fyrir kosningarnar um efnahagsmálin var rétt. Blekkingamyndin sem stjórnarflokkarnir drógu upp er núna að koma í ljós smátt og smátt. Og það er í raun og veru sama hvar tekið er niður í þessa efnahagsumræðu. Alls staðar kemur það í ljós að hin trausta efnahagsstefna, hið mikla bjarg, var ekki bjarg, það var sandur. Undirstaðan var veik. Og í rauninni má segja að yfirlýsingar ráðherra Alþfl. séu að því leyti réttar að þær séu bullandi vantraust á þær yfirlýsingar sem fram komu frá Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir kosningarnar.

Hvað segir t.d. hæstv. fjarverandi forsrh.? Hann segir: Það var svo komið að það var óáran hér í peningamálum og ríkisfjármálum. Hver skyldi hafa borið ábyrgð á því frekar en allir aðrir menn? Hæstv. fyrrv. fjmrh. og í rauninni eru þessi orð hans harður dómur yfir fyrrv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hæstv. fyrrv. forsrh. Hæstvirtir ráðherrar segja: Kaupmáttur atvinnutekna hefur aukist og það er það sem þeir hanga í, krataráðherrarnir t.d. Kaupmáttur atvinnutekna hefur aukist. Það er auðvitað rétt að kaupmáttur atvinnutekna hefur aukist en samningarnir voru ekki bara um kaupmátt atvinnutekna. Hér var um að ræða samninga um það að lyfta verulega lægstu laununum umfram önnur laun. Þetta voru samningar sem byggðust á því að það ætti að viðhafa aðhald bæði í peningamálum og ríkisfjármálum. Það er ekki gert og allt fer úr böndunum vegna þess hvernig fráfarandi ríkisstjórn heldur á málum og vegna þess hvernig núverandi ríkisstjórn tekur ekki á málum fyrr en menn eru að myndast við það nú.

Þá eru það spurningarnar sem hæstv. fjmrh. setur hér fram: Eruð þið með tillögur um að auka verðbólguna? Eruð þið með tillögur um að fella gengið? Viljið þið ekki hafa jöfnuð í ríkisfjármálum? Þetta er auðvitað eins og hver annar útúrsnúningur og ég hef auðvitað oft heyrt þetta frá hæstv. fjmrh. Það er hins vegar skrýtið þegar hæstv. dómsmrh., lengi vandaður embættismaður, er farinn að taka sér í munn svona strákslegar setningar. Auðvitað er staðreyndin sú að það er samstaða um það í þjóðfélaginu og þinginu að það verður að gera allt sem hægt er til að halda aftur af því að verðbólgan æði áfram. Það er veruleg samstaða um það að fylgja beri sem næst fastgengisstefnu og ég kalla það í rauninni dólgshátt að segja við þann sem upphefur þessa umræðu, hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, að hann sé með ræðu sinni að kalla á gengislækkun. Það er auðvitað rangt og ég segi það fyrir hönd Alþb. hér: Við höfum reynslu af því að reyna að stjórna efnahagslífinu í bullandi vitlausri verðbólgu. Við vitum sennilega betur en margir aðrir að það er erfitt ef ekki vonlaust. Stjórnaraðild Alþb. nú eða síðar hlyti því óhjákvæmilega að byggjast á þeirri forsendu að um efnahagsmál, verðlagsmál, gengismál, erlendar skuldir, viðskipti við útlönd, yrði haldið með mjög traustum hætti. Mjög traustum hætti. Það er alveg ljóst og það höfum við margítrekað m.a. úr þessum ræðustól.

Hæstv. fjmrh. segir: Er það stefna Alþb. nú að fella gengið? Auðvitað ekki. Auðvitað ekki. Spurningin er auðvitað fyrst og fremst um það hvernig á að leysa þennan vanda. Hver á að borga brúsann? Auðvitað á ríkissjóður að vera í jöfnuði. Ég er ekkert hissa á því þó að Þröstur Ólafsson hafi verið ánægður með það vegna þess að ríkissjóður var yfirleitt rekinn með jöfnuði í tíð Ragnars Arnalds, hæstv. fyrrv. fjmrh. Spurningin er hins vegar: Hver á að borga brúsann? Hver á að borga muninn? Á síðasta kjörtímabili hafði Alþfl. þá skoðun að það ættu að vera stóreignamennirnir, þeir sem hefðu hirt vaxtatekjurnar, og fyrirtækin í verslun og þjónustu. Nú er það matarskatturinn. Það er framlagið til þess að leysa þennan vanda og við erum á móti þessari aðferð, hæstv. fjmrh. Við erum á móti þessari aðferð. Auðvitað erum við þeirrar skoðunar eins og flestir þm., geri ég ráð fyrir, að það eigi við núverandi þensluástand að leggja á það áherslu að reka ríkissjóð með jöfnuði.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson bar fram nokkrar spurningar til ráðherranna í upphafi. Ég sé satt að segja ekki að þessum spurningum hafi verið svarað með neinum samræmdum hætti af þessum þremur stjórnarflokkum sem hér eru. Það hefur komið fram að þetta er ekkert alvöru stjórnarfrumvarp því að hæstv. landbrh. styður bara tekjuhliðina. Það hefði kannski átt að flytja alveg sérstaka tekjuhlið, flutningsmenn ríkisstjórnin í heild, og svo gjalda- og tekjuhlið sem væri studd af einhverjum öðrum. Þetta er ekki alvöru stjórnarfrumvarp. Það er alveg augljóst mál.

Það er jafnframt alveg ljóst að þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar í gengismálum í dag duga ekki vegna þess að þetta er allt valt og á brauðfótum enn hjá þeim blessuðum. Í því sambandi bendi ég á að þrátt fyrir hátimbraðar yfirlýsingar eru erlendar lántökur á næsta ári 8000 millj. kr. Þrátt fyrir ákvarðanir nú er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn á næsta ári verði 4000–5000 millj. kr. og þessi gengisstefnuyfirlýsing, sem hér er gefin, byggist á hverju að því er varðar launin? Hún byggist á því að kaupmáttur launa á næsta ári verði óbreyttur. Það gengur ekki, getur ekki gengið, vegna þess að þeir sem áttu að lyftast sérstaklega upp eftir síðustu kjarasamninga eru orðnir jafnlangt á eftir þeim hæstu og þeir voru áður en lagt var af stað. Þess vegna er óhjákvæmilegt að í næstu kjarasamningum verði hlutur þessa fólks réttur sérstaklega og þess vegna er það fjarstæða að ætla sér að byggja efnahagsstefnu, þjóðhagsáætlun, fjárlagafrv. eða annað á því að kaupmáttur allra launa verði óbreyttur. Það verður ekki þannig. Þið getið ekki stjórnað því þannig. Og síðan er það auðvitað innlegg inn í þetta og gerir myndina enn þá óvissari að ríkisstjórnin byrjar á því að efna til illinda við samtök launafólks í landinu með aðgerðum sínum að undanförnu þannig að það skortir þá tiltrú sem þyrfti að vera til þegar lagt er af stað. Frammi fyrir verulegum efnahagslegum vandamálum og á grundvelli þessara efnislegu raka, varðandi kaupmátt lægstu launa, varðandi framkomuna við verkalýðshreyfinguna, varðandi viðskiptahallann sem blasir við, varðandi erlendar lántökur upp á 8000–9000 millj. kr. á næsta ári, segi ég við ykkur: Yfirlýsingar ykkar duga ekki, þær duga ekki í raun. Þær standast ekki efnislega prófun og það vita hæstv. ráðherrar sjálfir, enda voru yfirlýsingarnar sem þeir gáfu loðnar. Smugur í hverri setningu og aukasetningu. Þannig að það er alveg augljóst mál að þeir gera sér grein fyrir því að þetta er valt, þetta er á sandi byggt. Þess vegna spái ég því að fyrir áramót muni þessir sömu ráðherrar leggja til við meðferð fjárlaga ársins 1988 að þeim verði enn þá einu sinni breytt vegna þess að þessar forsendur sem þeir byggja á í dag standast ekki. Og það eru fleiri en landbúnaðurinn auðvitað sem munu segja: Þessi stefna dugir ekki, þetta fjárlagafrv. dugir ekki.

Það eru þúsundir manna um allt land, m.a. þeir sem eru að byggja barnaheimili, þeir sem eru að byggja félagsheimili eða íþróttaheimili, þetta fólk mun láta til sín taka á næstu vikum og mánuðum. Og þó að hæstv. fjmrh. sé svo smekklegur að segja við fólkið í landinu að hann mæli ekki upp í hvern kjaft - kjaft, það fólk sem hann áður kallaði háttvirta kjósendur, er það alveg ljóst að þetta fólk hefur enn þá málfrelsi og mun láta í sér heyra. Valdahrokinn gengur ekki þarna, hvorki gagnvart þessu fólki, Alþingi né verkalýðshreyfingunni í landinu.

Það er svo athyglisvert, hæstv, forseti, hverjir það eru sem fagna. Hvar er nú fagnað? Ætli það sé hjá sveitarstjórnunum sem eru að byggja barnaheimili? Ætli það sé á heimilunum sem borga matarskattinn sinn sem sumir kalla krataskattinn, en það er nú kannski ekki fallega gert? Hvar ætli sé fagnað núna alveg sérstaklega? Hverjir eru það sem finna að loksins hafa sest í stólana þeirra menn sem eru þannig að þeir eru a.m.k. einnar messu virði og sjá fyrir sér unaðslega tíma og hafa örugglega sagt þegar fréttirnar af ráðstöfununum birtust: Ó, blessuð stund, ó, blessuð stund. (Gripið fram í.) Ekki Dagsbrún, hæstv. dómsmrh. Við skulum ekkert vera að setja hlutina fram með þessum hætti. Það gengur ekki vegna þess að það er rangt og þó að það dugi kannski innan Alþfl. að búa til frasa af þessu tagi dugir það ekki frammi fyrir Alþingi Íslendinga. En hverjir eru með partíin? Hverjir eru með veisluna? Hverjir eru ánægðir núna? Verðbréfasalarnir. Loksins kom ríkisstjórnin sem við höfum beðið lengi eftir, ríkisstjórnin sem þorir að gefa okkur tækifæri til þess að þessi iðnaður fái að blómstra. Það var kominn tími til að við lentum í almennilegu nútímaefnahagskerfi á Íslandi eins og það heitir. Og hæstv. forsrh. er svo úti að aka að hann sagði að það væri verið að gefa almenningi kost á því að spara. Ja, hvílík gæfa hlýtur það nú ekki að vera fyrir ellilífeyrisþegana, öryrkjana, fatlaða og aldraða í þessu landi að geta allt í einu farið að kaupa sér verðbréf, jafnvel í útlöndum, hlutabréf í Coca Cola og General Motors og Volvo og guð veit hvað þetta heitir allt saman. Ja hvílíkt, hvílíkt. Menn sem lifa í þessum heimi eru ekki í mikilli snertingu við það líf sem hinn almenni maður lifir í þessu landi. Jafnvel þó að svona ræður eins og hæstv. fjmrh. er stundum að flytja dygðu í því landi þar sem talað er um glasnost duga þær sem betur fer aldrei á Íslandi af því að hér er lýðræði. Hér mega menn tala jafnvel þó að hæstv. fjmrh. kjósi að orða það svo að hann mæli ekki upp í hvern kjaft af alkunnri smekkvísi.