25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

126. mál, mat á sláturafurðum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til staðfestingar á brbl. um breyt. á l. nr. 30 frá 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Lagt er til að 2. mgr. 2, gr. þessara laga orðist svo:

„Ráðherra getur þó, þar sem brýn nauðsyn krefur, tímabundið leyft slátrun í sláturhúsum sem ekki eru svo úr garði gerð að löggilding geti farið fram á þeim ef yfirdýralæknir eða hlutaðeigandi héraðsdýralæknir telur að slátrun og meðferð sláturafurða geti tekist þar á viðunandi hátt. Undanþágu má þó ekki veita nema til 1. júní 1988.“

Þegar lög nr. 30 frá 1966 voru samþykkt var í þeim slík tímabundin heimild til ráðherra að veita undanþágur til slátrunar í ólöggiltum sláturhúsum og síðan hefur Alþingi með svipuðum lagabreytingum og hér í þessum brbl. framlengt það nokkrum sinnum. Ákvæði þess efnis hafa þó alltaf gilt í takmarkaðan tíma. Að þessu sinni er einungis leitað undanþáguheimildar til eins árs eða til 1. júní á næsta ári. Því er nauðsynlegt að Alþingi marki á þessu þingi framtíðarstefnu í málefnum sláturhúsa að þessu leyti.

Að undanförnu hafa miklar umræður farið fram um sláturhús og skipulagningu þeirra og má m.a. rekja þær til skýrslu sem svokölluð sláturhúsanefnd skilaði á sl. sumri. Þá nefnd skipaði ég 27. febr. 1985 skv. ályktun Alþingis frá 8. maí 1984, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta athuga hvernig bæta megi rekstrargrundvöll sláturhúsa, m.a. með því að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo að lengja megi nýtingartíma þeirra.

Enn fremur verði kannað hvort hagkvæmt sé að endurbæta eldri sláturhús svo að viðunandi sé eða ráðast í nýbyggingar.“

Í nefndinni áttu sæti Margeir Daníelsson hagfræðingur og var hann formaður nefndarinnar, Egill Bjarnason ráðunautur og Ari Skúlason hagfræðingur. Með nefndinni vann einnig Gunnar Þorsteinsson, þáv. forstjóri teiknistofu Sambands ísl. samvinnufélaga. Nefndin skilaði áliti í júní í vor og hefur því verið dreift til alþm. Kann ég nefndinni bestu þakkir fyrir hennar störf.

Svo sem ég hef þegar gert grein fyrir gilda brbl. sem gefin voru út í sumar aðeins fyrir yfirstandandi framleiðsluár. Ég legg hins vegar áherslu á að þetta mál verði í heild sinni tekið til gaumgæfilegrar athugunar í hv. landbn. og að þar verði gerðar á því breytingar sem ná lengra fram í tímann og séu í samræmi við þá stefnu sem Alþingi vill að mótuð verði til frambúðar í þessu máli. Skýrsla sláturhúsanefndarinnar svokölluð, og ég hef áður gert grein fyrir, er við það þýðingarmikið gagn og mun auðvelda Alþingi að móta afstöðu sína.

Eitt af meginsjónarmiðum í tillögugerð nefndarinnar var betri nýting á því fjármagni sem þegar er bundið í sláturhúsum og tilheyrandi véla- og tækjabúnaði, samhliða lágmarkskostnaði við endurbætur. En einnig mótuðust tillögur nefndarinnar af eftirfarandi atriðum sem vissulega þarf að hafa í huga.

1. Fækkun sauðfjár í landinu.

2. Breytingu á afurðasölufyrirkomulagi.

3. Bættum samgöngum.

4. Auknum kröfum um hollustuhætti.

Þetta eru allt atriði sem taka verður tillit til. Áður en lengra er haldið tel ég rétt að rifja upp til viðbótar nokkur atriði úr sögu og þróun slátrunar hér á landi, enda nauðsynlegt að Alþingi hafi heildaryfirsýn yfir gang þeirra mála þegar framtíðarstefna er ákveðin.

Árið 1907 voru fyrstu sláturhúsin hér á landi byggð og var það nauðsynleg forsenda þess að útflutningur á söltuðu dilkakjöti gæti átt sér stað. Með tilkomu þeirra jókst útflutningur á saltkjöti en upp úr 1930 fer frosið dilkakjöt að láta að sér kveða á mörkuðum erlendis. Brugðist var myndarlega við þeirri þróun með byggingu frystihúsa og eftir 1935 var meiri hluti dilkakjöts fluttur út frosinn.

Fyrstu lög sem kveða á um slátrun og meðferð sláturafurða voru sett árið 1912. Þau voru síðan endurskoðuð nokkrum sinnum, síðast 1943. Með nýjum lögum og reglugerðum frá árinu 1949 var í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að allt kjöt sem ætlað er til sölu og neyslu innanlands skuli vera af sláturdýrum sem slátrað hefur verið í löggiltum sláturhúsum og sömuleiðis að frysting fari þar fram. Þessi ákvæði eru endurtekin í l. nr. 30/1966 og þar er einnig ákvæði að finna um að heilbrigðisskoðun fari fram á öllu sláturfé sem slátrað er í þessum húsum. Þessi lög gilda enn óbreytt að undanskilinni 2. gr. þeirra sem hefur til þessa heimilað ráðherra að veita undanþágu eins og bráðabirgðalögin.

Reglugerð nr. 442/1977, um slátrun, mat og meðferð sláturafurða, og reglugerð nr. 205/1967, um búnað sláturhúsa, kjötfrystihúsa, kjötverkunarstöðva og meðferð og flutning sláturafurða, byggja á þessum lögum og eru enn í gildi. Þróunin hefur orðið sú að sláturhúsum hefur fækkað á landinu síðustu áratugi, enda eðlilegt í kjölfar aukinna krafna til þeirra um meðferð sláturfjár og sláturafurða. Þar við bætist að húsin hafa orðið fullkomnari og afkastameiri og samgöngur batnað til muna sem auðveldar flutning sláturfjár.

Ég vil halda því fram að þróun í þessa átt sé rétt. Hún leiðir til betri meðferðar á sláturafurðum og gerir slátrunina hagkvæmari. Af þeim ástæðum ítreka ég að rétt sé nú að Alþingi fjalli um þessi mál og marki framtíðarstefnu til að vinna eftir.

Árið 1955 voru starfandi 120 sláturhús í landinu og var í þeim slátrað 480 þúsund fjár. Árið 1965 voru sláturhúsin 83, en í þeim slátrað 770 þúsund fjár. Árið 1975 var tala sláturhúsa komin niður í 60 hús, en sláturféð um 960 þúsund. Árið 1985 hafði sláturhúsum enn fækkað og var það ár slátrað í 49 húsum um 820 þúsund fjár. Alls hafði því sláturhúsum fækkað á 30 árum um 71 hús þrátt fyrir að sláturfé fjölgaði. Sums staðar hefur þessi fækkun orðið með þeim hætti að fleiri en einn sláturleyfishafi hafa rekið sama sláturhúsið eða einn sláturleyfishafi hefur einnig tekið að sér slátrun fyrir annan með sérstökum samningi.

Svo sem rakið er í skýrslu sláturhúsanefndarinnar var það ekki fyrr en upp úr 1960 að skriður komst á uppbyggingu fullkominna sláturhúsa sem gætu verið fær um að verka kjöt til útflutnings eftir þeim reglum sem viðskiptaþjóðir okkar settu þar um. Haustið 1966 skipaði Framleiðnisjóður nefnd þriggja manna sem gera átti tillögur um framtíðarskipan þessara mála sem gæti orðið sjóðnum að gagni við ákvarðanir um fyrirgreiðslu. Nefndin gerði tillögu um samruna sláturhúsa og staðsetningu 18 framtíðarsláturhúsa. Fleiri nefndir voru skipaðar í kjölfar þessa 1969, 1973 og 1979 og eins og áður sagði skipaði ég síðan þriggja manna nefnd árið 1985 sem lokið hefur störfum sínum. Í niðurstöðum nefndarinnar segir svo, með leyfi forseta: „Meginniðurstaða nefndarinnar er sú að í löggiltum sláturhúsum á Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi sé hægt að anna þeirri sauðfjárslátrun sem um verður að ræða í náinni framtíð miðað við ríkjandi markaðsaðstæður fyrir kindakjöt og það magn samninga sem nú liggja fyrir milli Stéttarsambands bænda og ríkisstjórnar Íslands um verðlagningu á kindakjöti. Á Austurlandi verður ekki hjá því komist að gera úrbætur varðandi aðstöðu til slátrunar á sauðfé.“

Nefndin gerir síðan ákveðnar tillögur um hvaða sláturhús skuli verða starfrækt í framtíðinni. Alls eru það 18 hús sem skiptast þannig: Fjögur á Suðurlandi, tvö á Vesturlandi, fjögur a Vestfjörðum, fimm á Norðurlandi og þrjú á Austurlandi.

Þá gerir hún einnig grein fyrir því hvaða sláturhús hún telji að eigi að hætta slátrun og hvenær. Alls eru það 31 sláturhús sem nefndin telur að leggja eigi niður starfsemi hjá frá árinu í ár til ársins 1997 og vísa ég um þau í álit nefndarinnar og aðrar niðurstöður hennar, t.d. hvað varðar fyrirkomulag slátrunar, skiptingu slátursvæða og tillögu um úreldingarsjóð sláturhúsa.

Í niðurlagi skýrslunnar segir svo, með leyfi forseta: „Nefndin er jafnframt þeirrar skoðunar að fenginni reynslu að lögbinda beri fyrirhugaða fækkun sláturhúsa. Á þann hátt verður best tryggt að nauðsynleg breyting geti átt sér stað. Framtíðarstefnan í þessum málum hlýtur að vera að fá fáein fullkomin sláturhús sem geta nýtt sér alla kosti hagræðingar og framleitt góða vöru gegn sanngjörnu endurgjaldi.“

Ég hef hér að framan gert nokkuð ítarleg skil þeirri þróun sem átt hefur sér stað í sláturhúsamálum Íslendinga og þeim tillögum sem settar hafa verið fram um fyrirkomulag þessara mála fyrr og nú. Ég vil hins vegar benda á að þrátt fyrir tillögur og markmið sem fyrr hafa verið sett um endurbætur eða uppbyggingu sláturhúsa hefur þeim ekki verið náð. Einkum skortir á að kröfum hafi verið fullnægt hjá elstu húsunum og ýmsar ástæður eru þar að baki. Má þar nefna að sláturleyfishafar hafa reynt að halda niðri sláturkostnaði með því að framfylgja einungis lágmarkskröfum. Einnig hafa undanþágur sem veittar hafa verið til slátrunar í ólöggiltum húsum orðið til þess að erfiðara hefur verið fyrir heilbrigðisyfirvöld að gera miklar kröfur til þeirra húsa sem betri eru.

Á þessu hausti fór fram slátrun í 47 sláturhúsum í stað 49 á fyrra ári. Af þeim fengu 27 undanþágu til slátrunar og er ljóst að þau þarfnast mikilla endurbóta í byggingu og búnaði til að öðlast löggildingu. Í skýrslu sláturhúsanefndarinnar kemur fram að ef öll 49 sláturhúsin, sem fram til þessa hausts hafa fengið leyfi til slátrunar, mundu hljóta löggildingu þyrftu þau að leggja út í fjárfestingu sem næmi um einum milljarði króna á núgildandi verðlagi. Það hefði í för með sér að sláturkostnaður yrði að hækka um 22,50 kr. á hvert kíló eða 32,8% sem augljóslega getur ekki gengið. Við hljótum að leita leiða til þess að slátrun verði sem ódýrust og sem hagkvæmust enda sláturkostnaður þegar orðinn stór liður sláturafurða.

Hér fara saman sem oft áður hagsmunir framleiðenda og neytenda. Jafnframt hljótum við nú og í framtíðinni að gera þá kröfu að slátrun og meðferð sláturafurða fari fram með fullgildum hætti og eftir þeim kröfum sem gerðar eru til bættrar aðstöðu í sláturhúsum og taka til bættrar meðferðar á sláturdýrum, sláturafurðum og heilbrigðiseftirliti.

Framtíðarstefna þessara mála hlýtur að mótast af því að þau hús sem uppfylla ekki lágmarkskröfur og augljóst er að þurfa að kosta miklu fjármagni til nauðsynlegra endurbóta hætti starfsemi sinni. Nauðsynlegt er hins vegar að vita hversu mikið er hægt að notast við þá aðstöðu sem fyrir er í landinu og að reynt verði að halda frekari fjárfestingu í lágmarki en samt sem áður að uppfylla þær kröfur sem nauðsynlegar eru í sambandi við afköst við slátrun og meðferð sláturafurða. Þetta er sjónarmið sem liggur til grundvallar í skýrslu sláturhúsanefndarinnar. Mikil uppbygging mundi óhjákvæmilega leiða til stóraukins sláturkostnaðar sem þýddi hærra vöruverð.

Mér virðist eðlilegast að fyrsta skrefið í átt til þess að fullnægja kröfum til slátrunar væri að heimildir til undanþágu væru alls ekki fyrir hendi í lögum til húsa sem væru innan ákveðinnar fjarlægðar frá löggiltu húsi en að öðru leyti kvæðu lögin ekki á um það í fyrsta áfanga. Þar með væri tekið tillit til þess hversu auðvelt væri að koma fyrir flutningi sláturfjár og líka hversu langt væri hægt að ætlast til að fólk geti sótt vinnu. Bent skal á í því sambandi að víða sækir fólk daglega vinnu um eða yfir 50 km vegalengd enda aðstaða til þess breyst til muna á síðari árum með bættum vegasamgöngum.

Það er að sjálfsögðu matsatriði hversu hratt eða langt skal gengið í því að stefna í þá átt að öll sláturhús séu löggild og einnig geta menn deilt um hvaða kröfur eigi að gera til sláturhúsa. Ég vil þó í því sambandi vitna til svars Páls Agnars Pálssonar yfirdýralæknis er hann ritaði til sláturhúsanefndarinnar og fram kemur í nefndaráliti hennar. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Um búnað þessara sláturhúsa og tilhögun þeirra, aðbúð starfsfólks o.s.frv. gildir reglugerð nr. 205 1967. Er þar um að ræða lágmarkskröfur miðað við það sem gerist í grannlöndum okkar. Þrátt fyrir það hafa ekki öll sláturhús enn getað uppfyllt þær kröfur sem reglugerðin gerir ráð fyrir og starfa þau því á undanþágu ár frá ári. Er slíkt með öllu óviðunandi. Ég sé ekki fram á að unnt sé að slaka á þeim kröfum sem núverandi lög og reglugerðir geyma varðandi sláturhús og kjötgeymslur ekki síst þegar tekið er tillit til sívaxandi krafa neytenda um auknar hreinlætis- og hollustukröfur varðandi matvæli.“

Ég vil ítreka að stöðugt er verið að gera meiri kröfur til þeirra húsa og staða sem annast matvælavinnslu í hvaða formi sem hún er. Umræður síðustu mánuðina um þetta málefni hafa tvímælalaust ýtt meira undir það en oft áður. Þess má geta að á þessu hausti kom hingað til lands, eins og á hverju ári, fulltrúi frá Evrópubandalaginu til þess að skoða þau hús sem hafa fengið leyfi til útflutnings þangað. Að þeirri skoðun lokinni sagði hann að viðhald og endurbætur á þessum húsum hefðu ekki verið nægjanlega miklar þannig að við gætum ekki haldið áfram að fá leyfi til útflutnings til Evrópubandalagsins nema úr væri bætt og að við værum að dragast aftur úr í sambandi við þær kröfur sem gerðar eru annars staðar til aðstöðu á þessu sviði.

Þessar viðhorfsbreytingar eiga rætur að rekja til aukinnar vitneskju um hollustuhætti og síðast en ekki síst þess að óumdeilanlega hefur mengunarhætta í umhverfinu aukist til muna á síðari árum og þarf því betri aðstæður til að verjast skaðvænlegum áhrifum hennar. Má í því sambandi benda á hversu mengunarhætta við slátrun fugla hefur látið illilega til sín taka og lítur út fyrir að ekki sé unnt að koma algjörlega í veg fyrir hana heldur þurfi að stefna að því að halda henni í lágmarki. Þar við bætist einnig að breytt meðferð á matvöru, t.d. það að kjöt er látið hanga langan tíma til að gera það ljúffengara, krefst þess að varan sé í eins góðu ástandi og kostur er áður en til slíkrar meðferðar kemur.

Sú framleiðslugrein sem ekki gætir þess að fylgjast nægilega vel með á þessu sviði mun bíða lægri hlut í hinni síharðnandi samkeppni á markaðinum. Því verður ekki neitað að sláturkostnaður hér á landi er ærið mikill og stafar m.a. af stuttum nýtingartíma sláturhúsanna og einnig því að afköstin eru ekki eins mikil og best verður á kosið þar sem mannaskipti við sláturstörf eru tíð.

Það er augljóst að viðamiklar breytingar á núverandi fyrirkomulagi slátrunar verða ekki gerðar í einu vetfangi enda margvísleg sjónarmið sem þarf að hafa í huga. M.a. kemur þar inn atvinnusjónarmið einstakra byggðarlaga eins og ég hef að framan drepið á. Af þeim sökum hef ég sérstaklega óskað eftir því við Byggðastofnun að hún reyni að meta þau áhrif sem fyrirsjáanlegar og nauðsynlegar breytingar hefðu í för með sér á atvinnustarfsemi viðkomandi héraða miðað við skýrslu sláturhúsanefndarinnar. Niðurstaða af athugun Byggðastofnunar hefur ekki borist enn þá en landbn. hv. Nd. mun fá hana strax og hún berst.

Vafalaust gæti tillaga sláturhúsanefndarinnar um sérstakan úreldingarsjóð greitt fyrir æskilegri breytingu á þessu sviði en þá er gert ráð fyrir að sláturleyfishafar sem hætta fái greiddan mismun á fjárfestingarkostnaði og því sem fæst fyrir mannvirki þegar þau þarf að taka til annarra nota.

Herra forseti. Undanþáguákvæði í lögum hafa leitt til þess að leyfi hafa verið veitt til slátrunar í húsum sem alls ekki hafa fullnægt settum reglum um slátrun og meðferð sláturafurða. Ég ítreka þá skoðun mína að slíkt gangi ekki til frambúðar og því beri Alþingi að takmarka þessa undanþáguheimild frá og með næsta sumri innan ákveðins ramma og mótist hún af stefnu í sláturhúsamálum sem Alþingi ákveður til frambúðar.

Ég legg að lokum áherslu á að hv. landbn. taki þetta til ítarlegrar athugunar og í störfum sínum kalli hún til liðs við sig hagsmunaaðila þessa máls. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.