25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

126. mál, mat á sláturafurðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hætta mér langt út í þessa umræðu, en vil vekja á því athygli að ár eftir ár hefur þurft að gefa út brbl. svo að hægt sé að slátra í um helmingi af þeim húsum sem slátrun fer fram í. Ég verð að segja eins og er að mér finnst mjög óeðlilegt að þannig sé að málum staðið. Það er á mörkunum að það standist skv. stjórnarskránni að láta þingið ekki fjalla um þessi mál fyrr en eftir á heldur að menn láti sér það stöðugt koma á óvart á miðju sumri að nú sé ekki hægt að slátra. Það hlýtur að vera miklu eðlilegra þar sem þau lög sem eru nú í gildi eru svo úr takt við þann raunveruleika sem við búum við að heimildarákvæði í lögunum verði framlengt til nokkurra ára og það lagt fyrir í þskj. á Alþingi og til umræðu hvað mönnum sýnist í þeim efnum. Höfuðgallinn við núverandi fyrirkomulag er sá að það er miklu æskilegra að menn fái að vita strax eftir slátrun í hinum lélegri húsum hvort þeir geti búist við að mega slátra í þeim næsta haust en það sé ekki staðið þannig að verki að e.t.v. gerist það síðla sumars að menn rjúki til og ætli nú að fara að leysa úr brýnasta vanda en sitja svo uppi með að þeir eru jafnfjarri því að hafa rétt til að slátra í húsinu og áður. Mér finnst að það sé eðlileg vinnuregla að menn fái þann lengsta frest sem hugsanlegur er til að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru.

Ég er ekki með þessu að hefja einhverjar stórar umræður um að mér sýnist kröfurnar svo fráleitar sem uppi eru. Hins vegar hef ég litið svo á og fer ekki dult með þá skoðun mína að Efnahagsbandalag Evrópu hafi beinlínis notað heilbrigðisyfirvöld sem nokkurs konar grýlu eða tollvernd til að útiloka viðskipti til þessara landa. Ég held að það þýði ekkert að blekkja sig á því að þetta er alveg afbragðs leið. til að loka slíku. Það væri hægt að nota sömu aðferð hér á landi gagnvart innflutningi á ýmsum landbúnaðarvörum ef mönnum sýndist svo, heimta að það væri miðnætursól t.d. sem hefði skinið á þessar plöntur svo að það mætti neyta þeirra hér á landi.

Mér finnst þess vegna ekki að við getum að öllu leyti hlaupið eftir þeim leikreglum með öll hús á Íslandi, en ég ætla ekki að gera lítið úr því að það þarf að standa þannig að slátrun og meðferð sláturafurða að til fulls sóma sé fyrir þessa þjóð hvað hreinlæti snertir. En ég undirstrika að mér þætti sanngjarnt að hæstv. ráðherra legði fyrir það Alþingi sem nú er sínar hugmyndir um hvernig eigi að standa að þessum málum núna kannski þrjú ár fram í tímann og þá væri hægt að taka upp eðlilegar umræður um stöðu þessara mála, en ekki hitt að það liggi jafnóljóst fyrir og nú hvort ráðherra hyggst leita eftir heimild næsta sumar til að hafa það vald að geta gefið undanþágur. Ef hann leitar ekki eftir heimildinni dettur nefnilega allur húsafjöldinn sjálfkrafa út og aðeins hin löggiltu hús verða með rétt til slátrunar.

Herra forseti. Ég vona að forseti misvirði ekki þó ég hafi með þessum orðum mínum að sumu leyti farið út fyrir það frv. sem hér er til umræðu því það fjallar aðeins um brbl. sem í sjálfu sér er ekki um annað að ræða en að samþykkja því að það mundi trúlega engu breyta þó við færum að fella þau á þessari stundu.