25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil við þessa umræðu lýsa yfir stuðningi við tilgang þessa frv. en tel þó að vanti í það veigamikil framkvæmdaatriði. Það er löngu tímabært að Alþingi viðurkenni störf heimavinnandi húsmæðra og meti vinnuframlag þeirra áð verðleikum. Húsmæður eiga að fá þann rétt til lífeyrissjóðsmála sem aðrir landsmenn hafa.

Í skattalegu tilliti hefur heimavinnandi fólk og makar þess borið mjög skarðan hlut frá borði. Með staðgreiðslulögunum sem taka gildi um næstu áramót verður þó bætt hér úr með því að heimilt er að færa ónýttan persónuafslátt, allt að 80%, til þess sem ber skatt af launum sínum.

Í frv. segir m.a., með leyfi forseta: „Ríkissjóður greiðir mánaðarlega iðgjald til sjóðsins vegna hverrar heimavinnandi húsmóður er nemi 6% af launum skv. 9. flokki kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi, eins og þau eru á hverjum tíma, og viðkomandi sveitarfélag 4% af sömu upphæð.“

Vegna þessa ákvæðis, að sveitarfélögin skuli greiða 4% hlut launþega, vil ég benda á að hér er um að ræða nokkur útgjöld fyrir sveitarfélögin sem ég tel eðlilegt að komi til nánari skoðunar í tengslum við þau verkefni sem ætlað er að færa til sveitarfélaganna frá ríkinu.

Með ákvörðun hæstv. félmrh. um að útsvarsprósentan við staðgreiðslu verði einungis 6,7% í stað 7,5%, svo sem sveitarfélögin höfðu talið þurfa, er ljóst að sveitarfélögin geta ekki tekið við fleiri verkefnum en verkaskiptatillögurnar gera ráð fyrir nema til komi verulega auknar tekjur. Til viðbótar er fullvíst að hugmyndir fjmrh. um að bæta sveitarfélögum yfirtöku verkefna með hluta þess sem þau kosta mun ganga mjög nærri fjárhag sveitarfélaganna og auk þess stefna í hættu áformum um verkaskiptingu.

Þrátt fyrir að ég mæli hér með efni þessa frv. sem til umræðu er má ljóst vera að Alþingi getur ekki samþykkt aukin útgjöld sveitarfélaga á sama tíma og gengið er á tekjustofna þeirra. Þrátt fyrir þessa fjárhagslegu annmarka er ekki óeðlilegt að sveitarfélögin sjái um þennan þátt í lífeyrissjóðsgreiðslum þessa hóps á sama hátt og sveitarfélögin greiða til orlofs húsmæðra. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að endurskoða og breyta formi á orlofi húsmæðra þannig að hver heimavinnandi húsmóðir fái það framlag greitt að hluta eða að öllu leyti beint. Ég hefði talið það eðlilegt að í þessu frv. væri tekið á því máli.

Ég vænti þess að í meðförum þingsins verði gerð athugun á því hvort með löggjöf megi færa þessa þætti, lífeyrismál og orlof húsmæðra svo og sjúkrasjóðsréttindi sem nú eru komin í flesta samninga, til sama vegar sem er hjá öðrum launþegum í landinu.

Framkvæmd frv. getur orðið mjög flókin. T.d. er óljóst hvernig meta eigi rétt þeirra sem eiga að njóta þess sem frv. gerir ráð fyrir. Að mínu mati getur hann ekki orðið ótakmarkaður eða miðast við það eitt að viðkomandi sé tekjulaus á heimili. Rétt hlýtur að vera að miða við störf á heimili, við uppeldi barna eða umönnun öryrkja, aldraðra eða sjúklinga.

Herra forseti. Ég vil endurtaka að ég lýsi stuðningi við aðaltilgang frv. en tel það ekki fullmótað og að skýrari ákvæði þurfi um framkvæmd þess svo að skapa megi heimavinnandi húsmæðrum fullkominn lífeyrisrétt.