26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

45. mál, verðlagsmál

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Í fjarveru hv. varaþm. Jóns Magnússonar flyt ég fsp. til hæstv. viðskrh. um verðlagsmál. Með leyfi forseta ætla ég að lesa fsp. Hún er svohljóðandi:

„1. Hafa verið gerðar kannanir á því nýlega:

a. hvers vegna almennt vöruverð er hærra hér á landi en í nágrannalöndunum,

b. hvort samkeppnishömlur eða samráð söluaðila og framleiðenda um verðlagningu valdi hækkun verðs á þeim vörutegundum sem frjáls álagning gildir um,

c. hvort farmgjöld á flutningum til landsins eru eðlileg miðað við farmgjöld í nágrannalöndunum?

2. Hafi þær kannanir sem um getur í 1. tölul. a-c verið gerðar, hverjar eru þá niðurstöðurnar? Sé svo ekki, er þá ekki full ástæða til að láta slíkar kannanir fara fram hið fyrsta?"

Ég vil gera nokkra grein fyrir því hvers vegna fsp. er fram komin. Verðlag á nauðsynjavörum er eðlilega ætíð mikið áhugamál almennings, ekki síst nú vegna umræðna um hugsanlegar álögur á matvæli. Kannanir Verðlagsstofnunar hér og í nágrannalöndunum virðast gefa til kynna að vöruverð kunni að vera hærra hér á landi. Þó eru um það nokkuð skiptar skoðanir. Samkvæmt könnunum þessum virðist innkaupsverð vara hér oft vera hærra, opinber gjöld vera hærri en álagning sýnist þó ekki hærri að sama skapi.

Komið hafa fram ábendingar í þá átt að samkeppni í flutningum til landsins sé lítil og geti e.t.v. átt sinn þátt í háu vöruverði.

Eftir að verðlagning í verslunum var loksins að mestu gefin frjáls var þess vænst að samkeppni mundi leiða til lækkunar vöruverðs. Kannanir Verðlagsstofnunar benda hins vegar til þess að á þessu kunni að hafa orðið einhver misbrestur og er því haldið fram af þeirra hálfu að verslanir hafi samráð sín á milli um verðmyndun. Ástæða þykir til þess að kanna hvort aðgerð sem leiða átti til lægra vöruverðs neytendum til handa hafi mögulega brugðist. Það er álit margra að frjáls samkeppni og stöðugt verðlag örvi verðskyn neytenda og verði seljendum nauðsynlegt aðhald.

Nú er í vinnslu endurskoðun á tollskrá sem væntanlega verður lögð fram innan skamms. Enn fremur er verið að endurskoða álögð vörugjöld og mun fyrirhugað að útvíkka mjög þann gjaldstofn sem bera muni vörugjald. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að hafa hagsmuni neytenda að leiðarljósi við samningu þessarar tollskrár.

Hæstv. forseti. Þær kannanir sem farið er fram á í 2. lið þessarar fsp. hljóta að koma öllum jafnt til góða, innflytjendum, kaupmönnum og neytendum. Þær hljóta því að teljast bæði eðlilegar og réttmætar.