26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

45. mál, verðlagsmál

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Í fsp. er leitað eftir svörum við tveimur eða þremur spurningum og ég mun leitast við að gera nokkra grein fyrir svörunum í sömu röð.

Það er fyrst spurt hvort kannað hafi verið hvers vegna almennt vöruverð sé hér hærra en í nágrannalöndum. Svarið er já. Slíkar athuganir hafa verið gerðar. En hvað efnið í spurningunni varðar er erfitt að svara því í stuttu máli, en athuganir Verðlagsstofnunar hafa leitt í ljós að fullyrðingin, sem felst í spurningunni, er rétt. Almennt vöruverð er hér yfirleitt hærra en í nágrannalöndunum þótt finna megi undantekningar frá því.

Það má skipta verðmyndun á innfluttum varningi í fjóra þætti: innkaupsverðið, flutningsgjöldin, opinber gjöld og svo álagningu. Það virðist sem innkaupsverð til Íslands sé nær undantekningarlaust hærra en í nágrannalöndunum. Hér koma vafalaust til áhrif minni vöruveltu, en hér þarf fleiri skýringar. Það veldur nokkrum vonbrigðum að álagning í formi umboðslauna erlendis þekkist enn hjá sumum fyrirtækjum þrátt fyrir að allangt sé nú liðið frá því að verðlagningin var gefin frjáls. Þessi umboðslaunataka hefur þó smám saman farið minnkandi. Flutningskostnaður á innfluttum vörum er hár og á án efa sinn þátt í óhagstæðu vöruverði þegar borið er saman við verð á vöru í framleiðsluríkinu eða í nágrannalöndum þess. Flutningar á vörum með skipum eru nú að langmestu leyti í höndum tveggja aðila þar sem annar aðilinn er mjög stór. Slíkar aðstæður skapa varla umhverfi fyrir verðsamkeppni milli skipafélaganna, en hún er hins vegar miklu meiri þegar um er að ræða svokallaða stórflutninga þar sem fleiri skipafélög keppa um viðskiptin.

Þetta get ég sagt um innkaupsverðið og flutningskostnaðinn. Opinber gjöld hér á landi hafa mikil áhrif á vöruverðið en þau gjöld leggjast á vörusölu með meiri þunga hér á landi en að jafnaði í okkar nágrannalöndum. Íslenska skattkerfið er einfaldlega öðruvísi en skattkerfi nágrannalandanna. Hér skipta óbeinu skattarnir meira máli. En hvað álagninguna varðar virðist hún ekki ein og sér valda hér hærra vöruverði þegar á heildina er litið þótt til séu dæmi um hærri álagningu í einstökum vöruflokkum.

Í öðru lagi var spurt hvort samkeppnishömlur eða samráð söluaðila og framleiðenda um verðlagningu valdi hér hækkun á verði á þeim vörutegundum sem frjáls álagning gildir um. Svarið er að þetta hefur verið athugað, en við þessari spurningu er ekki til einhlítt svar. Samráð söluaðila og framleiðenda um verðlagningu er oftast skaðlegt neytendum, en það má þó finna dæmi um að það megi réttlæta það með aðstæðum í viðkomandi grein og að stjórnvöldum beri þá að láta það afskiptalaust eða afskiptalítið. Verðlagsyfirvöld hafa haft afskipti af nokkrum slíkum málum þar sem talið hefur verið að skaðlegt samráð væri á ferðinni og þar hafa aðilar fengið fyrirmæli um að hætta slíku samráði. Ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi hvort þessi afskipti hafa haft umtalsverð áhrif á verðlagsþróun, en það er ljóst að á næstu árum hlýtur starfsemi verðlagsyfirvalda í vaxandi mæli að beinast inn á þá braut að fjalla um mál af þessu tagi fremur en bein afskipti af verðlagi.

Ég held að almennt megi segja að hér á landi sé nokkuð hörð samkeppni um sölu á innlendri framleiðslu og sé þar bæði keppt um gæði og verð, en verðlagning á landbúnaðarvörum hefur hér sérstöðu eins og kunnugt er og eins og mátt hefur greina í fréttum síðustu vikna hefur verið t.d. um að ræða vandamál af þessu tagi í eggjaframleiðslunni þar sem menn ráða ráðum sínum til að minnka framleiðslu og framboð á eggjum og hækka verðið stórlega. Samkeppni milli einstakra vinnslustöðva í landbúnaðinum er því yfirleitt lítil hvað verðlagið varðar öfugt við það sem tíðkast í mörgum okkar grannlöndum. Framleiðslukostnaðurinn í vinnslustöðvunum er þó mismunandi, en hér kemur líka til sú mikla verðjöfnunarstefna sem ræður í okkar landbúnaði. Ríkisstjórnin hefur reyndar í sinni starfsáætlun ákveðið að endurskoða sölu- og verðmyndunarkerfi á búvörum. Ég hef líka í hyggju að láta gera yfirlitsrannsókn á samkeppnisaðstæðum í öllum greinum íslensks atvinnu- og viðskiptalífs til að auðvelda framkvæmd laga um verðlag, samkeppnishömlur og ólögmæta viðskiptahætti.

Í þriðja lagi var spurt um hvort athuganir hefðu verið gerðar á farmgjöldum á flutningum til landsins. Verðlagsstofnun hefur ekki gert slíka athugun. FulI ástæða virðist þó til að gera hana og reyna að bera saman við það sem tíðkast í okkar grannlöndum.

Önnur spurningin var um hverjar niðurstöðurnar af þessum könnunum væru hefðu þær verið gerðar. Ég hef að nokkru leyti svarað því. En ég mun jafnframt halda þessum könnunum áfram og í okkar starfsáætlun er einmitt ákvæði um að veita aðhald að verðmyndun í innflutningsverslun með slíkum samanburði. Ég hef falið Verðlagsstofnun að vinna skipulega að slíkum athugunum á sem flestum sviðum viðskipta í samráði við samtök neytenda og samtök verslunarinnar þannig að öruggar upplýsingar megi fá um þetta og sem jafnastar. Ég hef rætt þessi mál við samtök verslunarinnar og Neytendasamtökin. Ég tel að slík athugun eigi að fara fram á skipafélögunum.

Að lokum vil ég taka fram að verðlag á vöru og þjónustu er reyndar bara einn þáttur af þeim sem ráða kjörum fólksins í landinu. Við verðum að taka tillit til miklu fleiri þátta þegar við berum lífskjör saman milli landa. Þetta á við um tekjur og þann tíma sem fer til að afla þeirra. Full þörf er á því að gera víðtæka könnun á lífskjörum hér á landi og annars staðar þar sem tekið verður tillit til allra þessara þátta. Hér má ekki eingöngu líta á verðlagið vegna þess, sem ég nefndi, að skattkerfi okkar er með öðrum hætti en grannlandanna.