26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

51. mál, námslán

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hyggst menntmrh. beita sér fyrir endurskoðun á lögum um námslán og námsstyrki á næstunni og ef svo er, hvernig hyggst hann haga þeirri endurskoðun?"

Svar: Í kaflanum um menningar- og menntamál í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir: Endurskoðun fari fram á lögum og reglum um námslán og námskostnað í samráði við samtök námsmanna. Í samræmi við þetta hyggst ég beita mér fyrir endurskoðun á lögum og reglum um námslán og námskostnað. Að undirbúningi þess verks er unnið í menntmrn. Ég tel miklu skipta að fyrir liggi skýrt og greinilega, þegar hin eiginlega endurskoðun hefst, hver markmið hennar eiga að vera og mun leitast við að ná um það samstöðu innan ríkisstjórnarinnar. Að mínu mati hlýtur endurskoðunin að miðast við að tryggja fjárhagslegan grundvöll lánasjóðsins með það í huga að hann geti áfram gegnt því hlutverki sínu að tryggja jafnan rétt allra til náms. Málið hefur þegar verið rætt í ríkisstjórninni og ákvörðunar er að vænta innan skamms. Ég mun óska eftir tilnefningu stjórnarflokkanna í nefnd sem endurskoðunina mun hafa með höndum. Einnig verður leitað eftir tilnefningu fulltrúa frá samtökum námsmanna.

Önnur spurning: „Ætlar menntmrh. að afnema þá skerðingu námslána sem varð á árunum 1984–1986 með breyttum vísitöluviðmiðunum og útgáfu skerðingarreglugerða og veldur því að lánin eru nú nálægt 20% lægri en ella?"

Svar: Það er umdeilanlegt hve mikil skerðingin er. Í upphafi árs 1985 fyrir tæpum þremur árum ákvað þáv. menntmrh. að framfærslutölur þær sem Lánasjóður ísl. námsmanna miðar útreikning námslána hér á landi við skyldu taka breytingum með hliðsjón af vísitölu ráðstöfunartekna sem sérfræðingar Þjóðhagsstofnunar reiknuðu út. Áður hafði verið miðað við vísitölu framfærslukostnaðar. Hugmyndin að breytingunum mun hafa verið sú að kjör námsmanna breyttust í samræmi við ráðstöfunartekjur almennings í landinu. Í þessu sambandi má nefna að frá ársbyrjun 1982 og fram til ársloka 1984 hækkaði kaupmáttur námslána á meðan kaupmáttur launa lækkaði.

Það kom síðar í ljós að þessi nýi mælikvarði var ótraustur og því var aftur horfið að því ráði haustið 1985 að taka mið af framfærsluvísitölu. Í janúar 1986 ákvað þáverandi menntmrh. með reglugerð að framfærslutölur sjóðsins skyldu ekki breytast þar til annað yrði ákveðið. Þetta var gert við aðstæður þar sem fjárhagsmál lánasjóðsins voru í mikilli óvissu og því brýn ástæða til að sýna ýtrustu gætni í öllum ákvörðunum er vörðuðu útgjöld hans.

Í júlí sama ár var gefin út reglugerð þar sem á ný var tekinn upp sá háttur að framfærslutölur lánasjóðsins voru ákveðnar með hliðsjón af breytingum á vísitölu framfærslukostnaðar. Ef framfærslutölur lánasjóðsins hefðu allar götur frá því í ársbyrjun 1985 breyst í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar væru framfærslutölur nú 17,1% hærri en þær eru. Raunveruleg skerðing er hins vegar mun minni þegar tekið er tillit til þess að á tímabilinu hafa verið gerðar ýmsar breytingar á úthlutunarreglum lánasjóðsins sem eru námsmönnum verulega í hag. Þær tekjur sem námsmenn og makar þeirra afla sér í leyfum koma nú t.d. í miklu minna mæli til frádráttar námsláninu en áður var. Ráðstöfunartekjur námsmanna hafa aukist vegna þessarar breytingar. Það er jafnvel ekki ólíklegt að breytt tekjumeðferð hjá lánasjóðnum hafi unnið upp hina umræddu skerðingu námslána frá 1985 og 1986 að verulegu leyti.

Ég tel rétt að það komi skýrt fram að í lögum um námslán og námskostnað eru engin fyrirmæli um að miða skuli útreikninga lánasjóðsins við vísitölu framfærslukostnaðar eða aðra tiltekna vísitölu. Ef framfærslutölur væru nú hækkaðar um 17,1% þýddi það aukin útgjöld lánasjóðsins um upphæð allt að 200 millj. kr. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er framlag ríkisins til sjóðsins 1 milljarður 478 millj. kr., en ráðstöfunarfé sjóðsins alls 2 milljarðar 168 millj. kr. Til lánveitinga eru áætlaðar 1 milljarður 683 millj. kr. Ekki eru líkur á því að aukin fjárveiting fáist í þessu skyni. Ég tel því ekki rétt að hækka lánin nú almennt og stofna þar með fjárhag sjóðsins á næsta ári í hættu.

Upphæðir námslána hér á landi eru annars sem hér segir á mánuði svo að nokkur dæmi séu nefnd og ég miða þá við tímabilið desember og fram í febrúar á næsta ári:

Fyrir einstakling í foreldrahúsum 19 271 kr., fyrir einstakling í leiguhúsnæði 27 530 kr., fyrir námsmann í hjónabandi með eitt barn 34 412 kr. eða 68 824 kr. ef bæði hjónin eru námsmenn, fyrir námsmann í hjónabandi með tvö börn 41 295 kr., fyrir námsmann í hjónabandi með þrjú börn 48 177 kr. og ef makinn er einnig í námi er upphæðin 96 354 kr. Einstætt foreldri með tvö börn fær 55 060 kr. og einstætt foreldri með þrjú börn 68 825 kr.

Þriðja spurning: „Er menntmrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því að raunverulegur framfærslukostnaður námsmanna hérlendis og erlendis verði kannaður þar sem sú framfærsluviðmiðun sem notast hefur verið við hér innan lands er frá árinu 1973 — og er langt frá því að endurspegla raunveruleg útgjöld námsmanna — og svipuð gagnrýni hefur komið fram á framfærsluviðmiðun námsmanna erlendis?"

Svar: Það er miklum erfiðleikum bundið að framkvæma framfærslukönnun af því tagi sem samtök námsmanna hafa óskað eftir og verður ekki gert í neinni skyndingu, enda mörg vafaatriði um framkvæmd og viðmiðanir. Á vegum stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur verið starfandi sérstök framfærslunefnd þar sem námsmenn eiga fulltrúa og hefur hún unnið að forathugun á því hvernig framfærslukönnun geti farið fram. Ég get fallist á að núverandi framfærsluviðmiðanir lánasjóðsins kunna að vera úreltar og ástæða sé til að leita eftir samstöðu um nýjar viðmiðanir. Ég hef því ritað stjórn lánasjóðsins bréf þar sem ég óska eftir því að hún taki upp viðræður við Hagstofu Íslands um leiðir sem færar eru í þessu augnamiði. Jafnframt hef ég óskað eftir því að samráð verði haft við samtök námsmanna um þessa vinnu.