26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

67. mál, verðtrygging

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 70 beini ég þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvort hann hafi einhver áform um að endurskoða samsetningu lánskjaravísitölu eða taka upp aðra viðmiðun við verðtryggingu.

Ástæðan fyrir því að ég ber þessa fsp. fram nú er svo sem ekkert sérstakt tilefni heldur er hér um gamalt og mætti e.t.v. segja sígilt mál að ræða. Það er spurningin um hvað leggja skal til grundvallar verðtryggingu fjár sem lánað er milli manna því að það er vitaskuld ekki gefið mál að sú viðmiðun sem notuð er í dag sé réttust og sanngjörnust. Þeir komu a.m.k. ekki auga á réttlætið sem lentu í misgenginu margumrædda eftir að stjórnvöld bönnuðu vísitölubindingu launa um mitt ár 1983 en leyfðu lánskjaravísitölunni að æða áfram óáreittri. Margir af þeim ráðherrum sem stóðu að því háttalagi hafa raunar viðurkennt að það voru mikil mistök og sakna ég nú sessunautar míns sem er einn þeirra sem það gerðu á mjög áhrifaríkan hátt héðan úr þessu ræðustól. Svo var reyndar um fleiri og það gerir kannski málið enn óskiljanlegra í ýmissa augum að menn skyldu sjá ljósið og viðurkenna mistök sín, en hafa ekki döngun í sér til að leiðrétta það.

Við kvennalistakonur lögðum fram till. á þingi fyrir þremur árum um breytta viðmiðun verðtryggingar langtímalána vegna náms eða húsnæðiskaupa og vildum miða við vísitölu kauptaxta. Meginhugsunin á bak við það var sú að launafólki væri mikið öryggi í því að vita að endurgreiðsla lána yrði alltaf svipuð í vinnustundum talið. Það gæti sem sagt reiknað með því að þurfa að vinna jafnmargar vinnustundir fyrir greiðslu lánsins og virði þess var í vinnustundum þegar lánið var tekið.

Hefði þessi leið verið valin 1983 er ljóst að gjaldþrot launþega hefðu ekki orðið jafnmörg og þau urðu. Nú hefur ástandið vissulega breyst eins og okkur er fullkunnugt, en ég er reyndar enn þeirrar skoðunar að það sé í sjálfu sér alltaf réttlátast að miða við þróun launa fyrst og fremst varðandi lán til einstaklinga.

Vel má þó hugsa sér aðra viðmiðun, svo sem byggingarvísitölu eða þá að lánskjaravísitalan sé endurskoðuð, grunnur hennar, og endurbætt. Svo er vitanlega sú leið að fella verðtryggingu algerlega niður og hafa vextina í takt við þróun verðlags, en þá þyrftu aðstæður e.t.v. að vera aðrar en nú er.

Hvað sem öllu líður þurfa þessi mál að vera í stöðugri endurskoðun og þess vegna fannst mér rétt að kanna hvort slíkt væri á döfinni hjá hæstv. ríkisstjórn.