26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

67. mál, verðtrygging

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 10. þm. Reykn. spyr mig hvort ég hafi einhver áform um að endurskoða samsetningu lánskjaravísitölunnar eða taka upp aðra viðmiðun við verðtryggingu. Fyrirspyrjandi nefndi líka að á undanförnum árum hafi verðtrygging fjárskuldbindinga miðuð við þessa lánskjaravísitölu sætt töluverðri gagnrýni úr ýmsum áttum. Hún hefur meira að segja verið uppnefnd ránskjaravísitala iðulega.

Tilefni þessarar nafngiftar og sumra athugasemda fyrirspyrjandans er auðvitað að á árunum 1983 og 1984 hækkaði lánskjaravísitalan verulega umfram almenn laun þannig að greiðslubyrði af verðtryggðum lánum hækkaði í hlutfalli við tekjur. Á síðustu árum hefur þetta hins vegar snúist við, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, þannig að laun hafa að undanförnu hækkað mun örar en lánskjaravísitalan. Nú er svo komið að svokallað misgengi verðlags og launa á árunum 1983 og 1984 hefur gengið til baka og heldur betur en það. Af þessum sökum virðist nú minna tilefni til að gagnrýna lánskjaravísitöluna með þessum hætti en var fyrir nokkrum árum, eins og kom reyndar fram hjá fyrirspyrjanda.

Ég vildi segja það skýrt að ég hef að svo stöddu ekki ákveðin áform uppi um að breyta samsetningu þessarar vísitölu eða að taka upp aðra almenna vísitölu algerlega í hennar stað. Hins vegar tel ég að það komi mjög til álita að liðka til um lagaheimildir þannig að viðmiðun verðtryggingar í lánssamningum verði samningsatriði á milli aðila á sama hátt og vextirnir sem eru hinn meginþáttur lánskjaranna. Slík rýmkun felst reyndar í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að heimila stofnun gengisbundinna innlánsreikninga sem koma munu til framkvæmda á næstu vikum.

Málið um lánskjaravísitöluna var athugað vandlega árið 1983. Þá varð niðurstaðan sú að lánskjaravísitalan nyti fullrar réttarverndar sem þáttur í fyrirliggjandi lánssamningum. Ný viðmiðun fyrir verðtryggingar hefði því haft í för með sér fjölgun vísitalna því ekki þótt fært að svipta þessum lögum til hliðar í fyrirliggjandi lánssamningum. Aðilar sem þetta mál varðar miklu, einkum stjórnir lífeyrissjóðanna sem mikið til eru skipaðar sömu mönnum og stjórnir verkalýðsfélaganna, mæltu eindregið gegn því (Gripið fram í.) að flækja viðmiðanir með fjölgun vísitalna. Þá var horfið frá áformum af þessu tagi og látið við það sitja að reikna út lánskjaravísitöluna mánaðarlega í stað ársfjórðungslega áður.

Þetta var niðurstaðan 1983, en því er hins vegar ekki að neita að það má finna ýmsa meinbugi á lánskjaravísitölunni. Hún er samsett af framfærsluvísitölu að 2/3 og byggingarvísitölu að 1/3 og endurspeglar á þann hátt almenna verðlagsþróun eins og til er ætlast. En hún bætir auðvitað ekki úr þeim vanköntum sem eru á vísitölunum sem hún samanstendur af.

Ég ætla að benda á tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi liggur það í eðli verðvísitalna af því tagi sem hér um ræðir að þær kunna að ofmeta almennar verðlagsbreytingar þegar litið er til langs tíma. Eina ráðið við þessum vanda er að láta ekki of langan tíma líða milli þess að grundvöllur vísitalnanna sé endurskoðaður, en á því hefur stundum orðið misbrestur. Þannig er grundvöllur núverandi framfærsluvísitölu byggður á neyslukönnunum frá 1978 og 1979. Þetta stendur nú til bóta og innan tíðar verður tekinn upp nýr grundvöllur. Fyrr á þessu ári var reyndar tekinn upp nýr grundvöllur fyrir byggingarvísitölu. Það er því mikilvægt að í framtíðinni verði grundvöllur þessara verðvísitalna endurskoðaður reglulega þannig að þær endurspegli sem best þær verðbreytingar sem ætlunin er að mæla.

Í öðru lagi kemur sú spurning hvort breytingar á óbeinum sköttum eigi að hafa áhrif á lánskjaravísitöluna. Er það t.d. eðlilegt að hækkun á söluskatti eða aðflutningsgjöldum leiði til hækkunar á verðtryggingum skulda? Þetta mál þarf að athuga rækilega og mun ég láta slíka athugun fara fram. Hér er komið að afar mikilvægu máli því verðvísitölurnar gegna stóru hlutverki í íslensku efnahagslífi og stærra en í flestum öðrum löndum því að auk þess sem fjárskuldbindingar eru að stórum hluta verðtryggðar hafa vísitöluviðmiðanir lengi verið algengar í kjarasamningum. Þegar við það bætist að óbeinir skattar eru hér mikilvægara stjórntæki en í öðrum löndum verður niðurstaðan sú að hagstjórn hér á landi hafa verið settar þröngar skorður. Ég tel mikilvægt að þetta mál verði athugað í víðu samhengi og það verður gert. En ég vildi vara við því að ráðast gegn verðtryggingunni. Verðtryggingin er ekki vandamálið. Vandamálið er verðbólgan.

Ég vildi að endingu beina þeirri ósk til hv. 14. þm. Reykv. að hann gerði skýrari grein í stuttri athugasemd fyrir því sem hann vildi fram færa með frammíkallinu áðan.