15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson gerði hlé á ræðu sinni áðan og gerði um leið þá kröfu til forseta að hann sæi til þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru í salnum. Ég held að það væri ekki til of mikils mælst að hv. málshefjandi svo og formaður Alþb. væru viðstaddir þegar þessari umræðu er nú fram haldið. Auðvitað hafa þeir mörgum verkum að sinna í kvöld og næstu daga að ég vænti, en í samræmi við þær þingræðishefðir sem ég hygg að hv. þm. Svavar Gestsson hafi vitnað til þegar hann óskaði eftir ráðherrum hér í sal geri ég það jafnframt að kröfu minni að þessir tveir ágætu menn, sem hafa átt stærstan hlut í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag, séu viðstaddir þá umræðu sem nú fer fram. Það er hér staddur einn þm. úr Alþb., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Aðrir eru ekki í salnum. Ég vek á þessu sérstaka athygli vegna þess að ég held að það sé fullt tilefni til þess. (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til þess að kynna þeim þm. sem hv. ræðumaður talaði um að það væri óskað eftir nærveru þeirra, en umræðunni verður haldið áfram.) Ég þakka forseta fyrir þessar góðu undirtektir sem hlutu að koma frá honum eins og hann metur þingræðið mikils.

Það er illt að þurfa að eiga orðastað við mann sem ekki er í salnum, hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, en ég þóttist í ræðu hans kenna mörg af þeim gífuryrðum sem hann hefur notað í ræðum sínum á undanförnum þingum og undanförnum árum. Það stóð að mínu mati raunar ekki steinn yfir steini af því sem hann sagði og eftir þessa umræðu í dag er ég þeirrar skoðunar að málflutningur stjórnarandstöðunnar sé í veikara lagi miðað við það sem við höfum verið vanir á löggjafarþinginu. Mér finnst þessi umræða hafa einkennst að verulegu leyti af málefnaskorti, málþurrð, tillöguskorti og tillöguþurrð. Menn hafa gagnrýnt gerðir ríkisstjórnarinnar, stundum með réttu, en um leið og menn gera það þurfa þeir að benda á leiðir, tillögur til úrlausnar á þeim vanda sem nú steðjar að þjóðinni í efnahagslegu tilliti.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom hér fram sem oddviti stjórnarandstöðunnar og hygg ég að stjórnarandstöðuþm. sé ekki öllum um það gefið að hann komi fram sem oddviti þeirra í jafnveigamiklum umræðum og hér hafa átt sér stað í dag. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði að mér fannst eina meginskyssu. Rauði þráðurinn í hans málflutningi var sá að hann gerði þá kröfu til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og raunar hæstv. utanrrh. einnig að þeir kæmu í pontu og lýstu því eindregið yfir að þeir mundu koma í veg fyrir það eða tryggja þjóðina gegn því að það yrði ekki gengisfelling á Íslandi það sem eftir lifði af þessu ári og á öllu næsta ári. Menn sem gera slíkur kröfur í veiðimannaþjóðfélagi tala ekki mjög skynsamlega og ég hygg að það sé ekki heldur mjög viturlegt af ráðherrum að gefa afdráttarlaus svör við því að gengisfellingarleið verði ekki notuð um einhvern tiltekinn tíma eða yfir eitthvert tiltekið tímabil. Við verðum að gæta þess að við búum í veiðimannaþjóðfélagi þar sem umtalsverð aflaminnkun knýr á um gengisfellingu hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þess vegna eru yfirlýsingar af þessu tagi ekki heppilegar að mínu mati.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði mörg orð um svik Alþfl. við verkalýðshreyfinguna nú um þessar mundir. Ég held að það sé talsverð kokhreysti bæði af honum og hv. þm. Svavari Gestssyni að tala um svik Alþfl. við verkalýðshreyfinguna. Ég held að flestir sem hér eru inni, hv. þm., séu komnir á þann aldur að þeir muni þá tíð þegar hv. þm. Svavar Gestsson, þá ráðherra, skerti launavísitölu í þessu landi ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar heldur líklega 14 sinnum (Gripið fram í.) og sveik þar með verkalýðshreyfinguna í tryggðum, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Mér fannst á orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að hann óskaði eftir því við ráðherra núv. ríkisstjórnar að þeir gæfu yfirlýsingu um að þeir ætluðu að fella gengið. Orð hans féllu á þann veg að það verður ekki öðruvísi skilið en hann beinlínis óskaði eftir gengisfellingu.

Hæstv. fjmrh. beindi nokkrum spurningum af þessu tilefni til hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem hann væntanlega svarar. Hann var spurður að því hvort hann óskaði eftir að gengisfellingarleiðin yrði farin. Ég vil bæta nokkrum spurningum við til hv. þm. Ég vil t.d. spyrja hann að því hvort hann sé á móti þeim aðgerðum sem hæstv. viðskrh. hefur gripið til til að setja nokkrar skorður við starfsemi kaupleigufyrirtækja. Það er vont að hv. þm. skuli ekki vera hér til þess að hlýða á þessar spurningar því að hann gerði mikið veður út af því að hæstv. fjmrh. svaraði ekki einni af þremur spurningum sem hann bar fram.

Ég vil líka spyrja hv. fjarstaddan þm. hvort hann sé á móti þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin fyrirhugar að grípa til til að draga úr skattsvikum, til þess að auka skil á söluskatti, til þess að draga úr undanskotum frá söluskatti. Er hann á móti aðgerðum sem stefna að því að draga úr erlendri skuldasöfnun? Er hann á móti því að reynt verði að hamla gegn stórfelldum og stjórnlausum bílainnflutningi? Er hann á móti því yfirleitt að fjárlög séu flutt hallalaus? Þetta eru allt spurningar sem hv. þm. á borð við Ólaf Ragnar Grímsson verða að svara eftir að þeir eru búnir að lýsa því yfir hér í þingræðu að fjárlagafrv. sé ómerkt plagg, einskis virði og þær peningalegu aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst grípa til séu einskis virði.

Ég segi það sem mína sannfæringu að mér finnst stjórnarandstaðan ekki hafa komist langt í þeirri gagnrýni sem hún hefur borið á ríkisstjórnina og það verð ég að segja að málflutningur Kvennalistans í dag hefur verið mér mun meira að skapi en ræður annarra hv. stjórnarandstæðinga einfaldlega vegna þess að talsmaður Kvennalistans kom fram með tillögu um hvernig hún hefði heldur viljað að menn hefðu staðið að málum.

Hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni varð líka tíðrætt um það sem hann kallaði fjölmiðlaleiki ráðherranna í núv. ríkisstjórn. Ég dreg það stórlega í efa að nokkur maður sem fæst við stjórnmál og hefur afskipti af stjórnmálum í dag sé glúrnari í fjölmiðlaleikjum en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og það er alveg spurning um hvort hann gæti ekki vegna þessara hæfileika sinna orðið einn slyngasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar.

Hér hafa fjárlög komið til umræðu og ekki að tilefnislausu og um leið ýmsar þær efnahagslegu aðgerðir í peningamálum sem ríkisstjórnin hyggst grípa til í tengslum við þær aðgerðir sem nú hafa verið boðaðar. Það er alveg ljóst og það er öllum hv. þm. ljóst að það varð eins og sakir stóðu að grípa til mjög ákveðinna aðgerða í efnahagsmálum til að draga úr þeirri gífurlegu þenslu sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og þá einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Það er í raun dálítið eftirtektarvert í sambandi við þá umræðu sem hefur farið fram í dag að hún hefur að mestu leyti farið fram á milli þm. Reykjavíkur og Reykjaness. Það hafa fáir landsbyggðarþm. blandað sér inn í þessa umræðu, en þeir hafa auðvitað sitthvað að segja um þessi fjárlög og efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar.

Ég nefndi þá spennu og þá þenslu sem hefur orðið í þjóðfélaginu og verður að draga úr með öllum ráðum. Hvernig hefur þessi þensla orðið til? Það hefur verið stefnt að því leynt og ljóst og það er að hluta til jákvæð stefna en að hluta til neikvæð að efla mjög þátt einkaframtaksins innan þess peningakerfis og fjármálakerfis sem við búum við. Það hefur verið gert að veita einkaframtakinu, einkageiranum mikið frjálsræði í peningamálum, frjálsræði til þess að taka erlend lán, frjálsræði til þess að auka tengsl sín við helstu viðskiptaþjóðir okkar og fjármagnsmarkað sem þar er. Ég lýsi því yfir og hef gert áður að einkageirinn hefur svikið það frelsi sem honum hefur verið veitt. Hann hefur misnotað það og farið illa með það. Það er hann sem m.a. hefur stuðlað að því að þensla í þessu þjóðfélagi hefur stóraukist. Það er einkageirinn sem hefur gengið á það lagið að ganga í erlenda sjóði og fjármagna sínar framkvæmdir, m.a. að stórum hluta hér á höfuðborgarsvæðinu í verslun og þjónustu, með þeim afleiðingum að þessi þensla hefur stórskaðað bæði landsbyggðina og þjóðina í heild. Og spurningin er þegar við ræðum um þessa hluti: Hvaða vald hefur ríkisstjórnin raunar á því að taka í lurginn á þeim einkageiramönnum sem þannig hegða sér? Þeir lifa orðið sjálfstæðu lífi innan þess efnahagskerfis sem hér hefur verið að skapast á undanförnum áratugum. Það eru þessir menn sem raunverulega hafa brugðist skyldu sinni í því að reyna að draga úr þenslunni í þjóðfélaginu, í því að reyna að draga úr erlendum lántökum og í því að draga úr því vandræðaástandi sem hér hefur verið að skapast á síðustu 3–4 árum.

Og hvernig kemur þetta svo fram? Í stuttu máli kemur það þannig fram að fjárfesting í verslun og þjónustu hefur verið svo gífurleg að undanförnu að þessir þættir þjóðmálanna hafa sogað til sín líklega meiri hlutann af því fjármagni sem hefur verið í umferð á hverjum tíma.

Þá kem ég að því máli sem ég tel ástæðu til að minnast á því að ég hef af því umtalsverðar áhyggjur og hef rætt það í mínum þingflokki þannig að það kemur ekki flokksbræðrum mínum á óvart þó ég nefni það hér. Það er þróun vaxta. Við höfum, vegna þess kerfis sem hefur verið hleypt lausu, kannski höfum við gert það í of stórum skrefum í okkar litla samfélagi sem er veiðimannasamfélag og byggir fyrst og fremst á þeim framleiðslugreinum sem tengjast sjávarútvegi og landbúnaði, kannski hleypt þeim of lausum. Það hefur aftur valdið því að sá hinn frægi verðbréfamarkaður, sem hefur starfað hér nánast án stjórnar, án reglugerða og án starfsreglna yfir höfuð, hefur farið langt út fyrir öll skynsamleg mörk í yfirboðum á vöxtum. Þetta hefur aftur leitt til þess að bankakerfið og lánastofnanir hafa séð sig knúin til þess að hækka vexti sína. Þetta hefur líka orðið til þess að ríkisvaldið hefur talið sig nauðbeygt vegna samkeppninnar um fjármagnið á markaði að hækka vexti.

Nú er svo komið, hv. þm., að vextir frá 1. janúar og til síðustu mánaðamóta, þ.e. auglýstir meðalvextir Seðlabankans á óverðtryggðum skuldabréfum, hafa hækkað um 85,4% eða úr 16,2% í 30,4% . Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að hávaxtastefnan, eins og ég hef leyft mér að kalla hana, sem er afsprengi nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta markaðskerfis, hafi verið og verði áfram einn mesti verðbólguvaldurinn í þessu þjóðfélagi.

Ég nefndi áðan verslun og þjónustu. Þessar tvær greinar hafa farið út í mjög umtalsverðar fjárfestingar og til þessara fjárfestinga hafa þær tekið grimmilega há lán. Á þessum lánum eru vextir. Þessar greinar hafa báðar aðstöðu til að velta vaxtakostnaði og fjármagnskostnaði almennt út í verðlagið. Verðlag hefur hækkað upp úr öllu valdi. Þetta knýr aftur þá sem eru almennir launamenn í þessu landi til að gera meiri kröfur um launahækkanir vegna þess að afkoman verður lakari um leið og verðlagið hækkar. Þetta eru í mínum huga ákaflega einfaldir þættir.

Ég geri þetta að umræðuefni, herra forseti, vegna þess að ég treysti ríkisstjórninni til þess að hún taki á þessum málum í mikilli alvöru. Það kann að vera og ég undirstrika kann að vera - að hallalaus fjárlög geti orðið til þess að einhver vaxtalækkun verði, en það verður ekki í bráð. Vegna skuldbindinga af ýmsu tagi hefur ríkissjóður í raun og veru verið knúinn til þess nánast að tryggja það að hátt vaxtastig verði í gildi hér á næstu árum. Ég tel og ég raunar þykist vita að innan ríkisstjórnarinnar sé fullur vilji til þess að taka á þessu máli. Sá vilji á ekki bara að vera fyrir hendi innan ríkisstjórnarinnar. Hann á að vera fyrir hendi meðal allra íslenskra stjórnmálamanna vegna þess einfaldlega að þetta er einhver mesti vandi sem við er að stríða.

Það er annað sem gerist þegar við hleypum þessum vaxtamálum eins lausum og við höfum gert og menn skyldu hugleiða það líka. Við höfum á undanförnum árum séð það í okkar annars jafna þjóðfélagi, eða þjóðfélagi sem hefur verið það fram undir 1980, stéttlausa þjóðfélagi, að hér er að myndast stéttaskipting sem er að verða mjög alvarleg. Þessi stéttaskipting er ekki vegna þess að einhver er lávarður og annar ekki. Hún stafar af því að sumir eiga peninga og aðrir ekki. Og háir vextir, þessi þróun á verðbréfamarkaði sem við höfum horft upp á, valda því að þeir sem eiga peningana verða ríkari, en hinir verða blankari. Ég vil ekki þurfa að horfa upp á í náinni framtíð þjóðfélag Margrétar Thatcher. Það sem hennar efnahagsaðgerðir hafa gert og eru kenndar við nýfrjálshyggju, óhefta markaðsstefnu, hefur valdið því að á Suður-Bretlandi er ein þjóð, í Skotlandi og Norður-Bretlandi eða Englandi er önnur þjóð. Sú sem býr í suðrinu er auðug, vel haldin, en sú sem býr í norðrinu er illa haldin. Menn skyldu skoða þetta og reyna að átta sig á því að það er svipað ástand sem er að þróast hér á landi um þessar mundir. Menn þurfa ekki annað en fara í skoðunarferð um Reykjavík til að sjá staðreyndir þessa máls. Við getum horft á hallir þeirra nýríku sem reisa sér 10–15 millj. kr. hús og eiga bíla, tvo kannski, hvorn upp á 1,5, fyrir utan, og fara svo í fjölbýlishúsahverfin, t.d. uppi í Breiðholti, og athuga stöðu fólksins þar. Ég hef áhyggjur af þessum málum og það eiga allir þm. að hafa áhyggjur af þeim. Við höfum stært okkur af stéttlausu þjóðfélagi, en ég dreg í efa að þetta þjóðfélag sé stéttlaust lengur. Ég hygg að það sé búið að skipta því upp í tvær þjóðir.

Herra forseti. Nóg um það sem ég hef áhyggjur af og þó væri vert að minnast á að það hefur verið gagnrýnt að Alþfl. hafi haft frumkvæðið að því sem nefnt hefur verið matarskattur, sumir segja krataskattur. Menn mega ekki leyfa sér það, þegar þeir tala um matarskattinn, að gleyma því í hvaða samhengi þessi skattur er lagður á. Það er engum gleðiefni að leggja á skatta af þessu tagi. Hins vegar hef ég trúað því að ríkisstjórnin sé öll upp til hópa, hver og einn innan hennar, þeirrar skoðunar að það eigi að afnema allar undanþágur af söluskatti, allar undanþágur hvaða nafni sem þær nefnast, til þess að við getum náð því veigamikla marki að hér gildi eitt söluskattsstig yfir allt sviðið. Þá um leið reynist unnt að lækka söluskattinn sem hefur í gegnum árin verið hinn mesti vandræðaskattur vegna þess að hann er allt of hár. Hann býður upp á það í raun að stolið sé undan. Ég hygg að menn þurfi að horfa á matarskattinn í þessu samhengi hvort sem þeim líkar betur eða verr við hann og engum líkar líklega vel við hann.

Ég hef líka áhyggjur af því að í fjárlagafrv. er mjög umtalsverður niðurskurður á íþróttamálum, þeim málaflokki sem ég hygg að sé einna veigamestur í uppeldi ungs fólks í landinu. Að vísu hefur íþróttahreyfingin fengið nýjan tekjustofn sem hefur fært henni umtalsvert fjármagn og hærri upphæðir en hafa verið á fjárlögum. Það eru tekjur af lottói. Auðvitað er það spurning þegar þannig stendur á hvort ríkið eigi á erfiðleikatímum að hækka framlög sín til íþróttamála. Eins og ég vænti að ríkisstjórnin hafi í hyggju og vilji í raun og veru reyna að lækka vaxtastig hér á landi tel ég að ríkisstjórnin hafi einnig hug á því að endurskoða afstöðu sína til íþróttamála í fjárlagafrv. (AG: Er þetta andstaða við fjárlagafrv.?) Hv. þm. Albert Guðmundsson, ég er ekki að lýsa andstöðu við fjárlagafrv. Það er mesti misskilningur. (AG: Er það misskilningur?) Mesti misskilningur. Ég er hins vegar að reifa það hvað mér finnst fara miður. Það er ekki nokkur spurning. Við höfum allir leyfi til þess, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Það er þingræðislegur réttur okkar.

Ég hef í umræðunum í dag tekið eftir því að menn hafa gleymt ýmsu góðu sem er í fjárlagafrv. Mig langar að nefna nokkur dæmi. Mig langar að nefna framlög til húsnæðismála, umdeildur málaflokkur. Engu að síður hafa framlög til húsnæðismála stórhækkað, einkum til hinna félagslegu íbúðabygginga. Þetta á bæði við um verkamannabústaðakerfið og kaupleigukerfið. Þessu getur enginn neitað. Félagsmálin. Framlög hækka. Því neitar enginn. Vegamál. Framlög hækka. Því neitar enginn. Flugmál, listir. Framlög hækka. Það er líka stefnt að því að loka undanskotsleiðum í skattkerfi, bæta söluskattsinnheimtu. Það kemur staðgreiðslukerfi skatta um áramót og það er stefnt að auknu sjálfstæði sveitarfélaga. Er þetta ekki allnokkuð, hv. þm.? Ég hygg að þessir þættir vegi svo þungt að þegar menn hugsa sig vandlega um verði þeir að viðurkenna að hérna sé nokkuð vel gert þrátt fyrir allt.

Ég heyrði að hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi hafnamálin. Ég get tekið undir það með honum að það vantar mikla fjármuni í hafnamál. Og hv. Alþingi verður að taka upp sérstaka umræðu um hafnamálin vegna þess einfaldlega að það nær ekki nokkurri átt að hafnir landsins, þar sem um fer mikilvægasta tekjulind þjóðarinnar, fiskurinn, sem við gleymum nú margir hér í þéttbýlinu að sé yfirleitt unninn og hafi nokkurt gildi, fer þar um. Ég hygg að við þyrftum að taka nokkra snerru í sambandi við hafnamál og athuga hvort við fyndum ekki einhverjar leiðir til að auka framlög til þeirra í náinni framtíð.

Herra forseti. Tilefni þess að ég ákvað að taka þátt í þessari umræðu, sem er orðin býsna löng, var að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skoraði ekki bara á ráðherra í ríkisstjórn heldur og þm. sem styðja ríkisstjórnina að láta álit sitt í ljós á efnahagstillögum og fjárlagafrv. Hins vegar hefur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ekki sýnt hv. sameinuðu þingi þá virðingu að sitja undir þessari umræðu í kvöld sem er honum auðvitað til háborinnar skammar. Og hv. þm. Svavar Gestsson og formaður Alþb. hefur heldur ekki „lagst svo lágt“, ef ég mætti orða það þannig, að koma hér inn fyrir dyr eftir kvöldverðarhlé. Það mætti gjarnan skila þessu til hv. þm., sérstaklega Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hóf þessa umræðu í dag, að hann lætur ekki svo lítið að hlusta á þá þm., a.m.k. stjórnarliðsins, sem hafa hug á því og nennu til þess að standa í karpi við hann. Og ég vil biðja hv. þm. Hjörleif Guttormsson, sem einn Alþýðubandalagsþingmanna sýnir sameinuðu þingi þá virðingu að sitja hér í kvöld, að bera hv. þm. þessi skilaboð.