26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

97. mál, úrgangsefni frá álverinu í Straumsvík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og ég tek undir þau orð sem frá henni féllu áðan því að ég tel að hér sé staðið að af andvaraleysi. Það er alveg ljóst að þau efni sem þarna eru á ferðinni hverfa ekki, þau fara í sjóinn, og það er lágmark að það sé fylgst með þessum málum reglubundið með mælingum ef á að hafa þann hátt á, sem þarna er, að farga þessu á sjávarströnd, en jafnframt að leita annarra leiða. Og ég vil hvetja hæstv. heilbrmrh. til að beita sér fyrir því að teknar verði upp reglubundnar athuganir á þessum málum og athugað um aðrar leiðir.

Ég skoðaði álver í Noregi 1975 á vegum Náttúruverndarráðs, nýlegt álver í Lista á suðurströnd Noregs. Þar höfðu menn miklar áhyggjur m.a. af kerbrotunum. Þar voru kerfisbundnar athuganir á talsvert stóru svæði í kringum förgunarstaði. Þetta vildi ég nefna hér.