26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

97. mál, úrgangsefni frá álverinu í Straumsvík

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu taka undir ábendingar hv. 12. þm. Reykv. og 2. þm. Austurl. og athuga þeirra athugasemdir hvað þetta mál varðar. Það kann líka að vera, eins og kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv., að þarna kunni að vera um sjómengun að ræða, þ.e. umhverfismengun af úrgangi sem liggur á fjörum, og þá þarf að athuga það sérstaklega. Reyndar var ekkert í fyrra svari mínu við þeim þætti málsins. Er sjálfsagt að líta á það mál eins og svo margt annað í okkar umhverfi. Við höfum reyndar rætt um það fyrr varðandi önnur dagskrárefni á hinu hv. Alþingi. Það er nýlega búið að skipa nefnd sameiginlega á vegum hæstv. iðnrh. og heilbrmrh. sem á að taka þau mál sérstaklega til umfjöllunar. En ég vil aðeins ítreka það, sem fram kom hér í fyrra svari mínu vegna athugasemda hv. fyrirspyrjanda, að hér segir að mjög lítið magn af cyanidi sé í þessum kerbrotum, frá 0 og upp í 0,3%, og jafnframt segir að þó cyanidið geti orsakað ákveðna eitrun í lífverum við förgunarstaðinn eyðist það fljótt í sjó og magnið í kerbrotunum sé tiltölulega lítið. Ég vildi aðeins árétta þetta sem reyndar kom fram áður.

En það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að hafi ekki mælingar farið fram síðan 1976 er sannarlega tímabært að endurtaka það.