26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

102. mál, jöfnun á námskostnaði

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það sætir satt að segja furðu hvernig þessum málum er komið. Til upplýsingar skal þess getið, eftir að við höfum hlýtt á þær tölur sem námsmenn fá úr þessum sjóði árlega, að kostnaður við dvöl í heimavistinni við Menntaskólann á Akureyri er núna nær 200 þús. kr. yfir árið. Það segir sig sjálft hvernig það er fyrir foreldra sem þurfa að kosta börn sín burt af heimilinu að bera slíkan kostnað, hvernig fyrir þessu fólki er komið.

Ég vil því fara fram á það við hv. fjvn. að menn taki til raunverulegrar athugunar hvort þessar 20 millj. nýtast að nokkru eða ekki. Það liggur við að það sé næstum því betra að nota þessa peninga til einhvers annars heldur en að vera að úthluta þessu fólki sem fyrir slíkum kostnaði verður 12 eða 15 þús. kr. Það bjargar engu. Mér er fullvel kunnugt um að bókakostnaður menntaskólanemanda á hausti hverju er langt umfram þá upphæð sem verið er að úthluta árlega. Ég vil því fara þess á leit við bæði hæstv. ráðherra og hv. fjvn. að íhuga vandlega hvort þessi fjárhæð leysir nokkurn vanda. Ég held að við ættum þá að reyna frekar að nýta hana til einhvers sem kemur að betra gagni en þessi fjárhagsaðstoð.