26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

104. mál, mælingar á geislavirkni á Íslandi

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 18. þm. Reykv. hefur borið fram fsp. í tveim liðum um reglubundnar mælingar á geislavirkni á Íslandi.

Á árunum 1956–1960 fóru fram tilraunir með kjarnorkuvopn í andrúmsloftinu, m.a. á norðurhveli jarðar. Vegna þessa varð veruleg aukning á geislavirkni í umhverfinu.

Reglubundnar mælingar, sem framkvæmdar voru af Raunvísindastofnun Háskólans í samvinnu við Geislavarnir ríkisins, leiddu í ljós að hér á landi mældist mun meiri geislavirkni í lofti og úrkomu en t.d. í Danmörku á þeim tíma. Á árunum eftir 1960 var fyrrgreindum tilraunum með kjarnavopn hætt. Eftir það sýndu mælingar að geislavirkni minnkaði jafnt og þétt. Mælingum var haldið áfram í nokkur ár, en var síðan hætt 1967. Eftir það hafa ekki farið fram reglubundnar mælingar á geislavirkni í umhverfinu á Íslandi.

Á fundi fyrrv. ríkisstjórnar 23. maí 1986 var tekin ákvörðun um að hafnar skyldu reglulegar mælingar á geislavirkni í umhverfinu og í matvælum. Geislavörnum ríkisins var falið að hefja undirbúning þessa máls. Að undirbúningi hefur verið unnið m.a. í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina, en hún hefur ákveðið að veita Íslandi tækniaðstoð í þessu skyni. Geislavarnir ríkisins hafa nú þegar fengið tækniaðstoð að upphæð um 25 þús. bandaríkjadala til kaupa á mælitækjum sem væntanleg eru á næstunni. Einnig hefur Alþjóðakjarnorkumálastofnunin greitt hluta kostnaðar vegna þjálfunar starfsmanna. Eftir viðræður við sérfræðing frá stofnuninni, sem kom hingað til lands og dvaldi hér dagana 10.–12. ágúst sl., liggur fyrir eftirfarandi áætlun um framkvæmd tækniaðstoðar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar við geislavarnir.

Vegna þjálfunar starfsfólks, vegna vísindaferða og vegna heimsókna erlendra sérfræðinga er gert ráð fyrir að verja á árinu 1988 20 þús. dollurum og vegna tækjabúnaðar 69 þús. dollurum, samtals 89 þús. dollurum á næsta ári, og til kaupa á tækjabúnaði á árinu 1989 36 þús. dollurum. Samtals er því tækniaðstoð stofnunarinnar á tveimur næstu árum 125 þús. dollarar. Sá kostnaður sem stofnunin hefur þegar lagt í er annars vegar tækjabúnaður, sem ég nefndi áðan og er áætlaður um 25 þús. dollarar, og þjálfun og námskeið um 5 þús. dollarar þannig að samtals er þessi tækniaðstoð á árunum 1987–1989 áætluð 155 þús. dollarar.

Sé miðað við þann afslátt sem stofnunin fær við tækjakaup, innlendan kostnað hér o.fl., má áætla að verðmæti tækniaðstoðarinnar fyrir Geislavarnir ríkisins sé í íslenskum krónum talið um 11 millj. kr. Geislavarnir hefðu því þurft á fjárveitingu er nemur þeirri upphæð að halda hefðum við ætlað að bera þennan kostnað allan sjálfir.

Fram hafa farið ýmsar mælingar á geislavirkni í umhverfinu og í matvælum í samvinnu við innlenda og erlenda aðila þó ekki væri um reglubundnar mælingar að ræða. Hér hefur verið um að ræða einstakar mælingar því aðstaða til reglubundinna mælinga er ekki enn fyrir hendi eins og áður sagði.

Vegna eigin öryggis, verndunar heilbrigðis og almenns eftirlits, m.a. vegna útfluttra sjávarafurða, er mikilvægt að fylgst sé með geislavirkni í umhverfinu með reglubundnum mælingum. Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum okkar sl. 30 ár en ekki nema að litlu leyti hér á landi eins og kom fram í upphafi.

Reglulegar rannsóknir tryggja einnig að ávallt sé hægt að auka mælingar gerist þess þörf, m.a. vegna hugsanlegs kjarnorkuslyss. Útflytjendur sjávarafurða þurfa nú í auknum mæli á að halda vottorðum vegna geislavirkra efna, en reglulegar rannsóknir eru forsenda þess að hægt sé að gefa út slík vottorð.

Geislavarnir ríkisins hafa fengið hentugt húsnæði undir starfsemi sína að Laugavegi 118d og munu flytja þangað eftir næstu áramót. Þar verða sérstakar rannsóknarstofur ætlaðar til alhliða mælinga á geislavirkni í lofti og á úrkomu, sjó og sjávarafurðum, landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum. Eins og fyrr sagði mun Alþjóðakjarnorkumálastofnunin leggja fram megnið af þeim dýra tækjabúnaði sem þarf, auk aðstoðar við þjálfun starfsfólks, en ýmis smærri tækjabúnaður og fylgihlutir, svo sem vegna sýnatöku, verða að greiðast af ríkissjóði. Á móti tækniaðstoðinni hafa stjórnvöld samþykkt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tækniaðstoðin nýtist á tilætlaðan hátt. Þetta var staðfest við heimsókn aðalforstjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, dr. Hans Blix, sem hingað kom til landsins á sl. sumri. Tækniaðstoðin er þegar hafin og er fyrsti hluti tækjabúnaðarins væntanlegur til landsins í byrjun næsta árs eins og áður sagði.

Til þess að tækniaðstoðin nýtist á tilætlaðan hátt, þ.e. að fyrrgreindar mælingar geti hafist, þá er það rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að það þarf að verja um 2,5 millj. kr. í kaup á stofnbúnaði og a.m.k. 750 þús. kr. vegna stöðu eðlisfræðings hjá Geislavörnum ríkisins á árinu 1988. Því miður er þessar tölur ekki að finna í fjárlagafrv. en ég hef nú þegar óskað eftir leiðréttingu við fjvn. Alþingis og tel nauðsynlegt að sú leiðrétting fáist og að þessar upphæðir komi inn í fjárlög næsta árs.

Við verðum að koma þessum reglubundnu mælingum á og jafnframt að standa við okkar hlut, sem verður að teljast tiltölulega lítill hluti af heildarkostnaði, til þess að geta nýtt þessa mikilvægu tækniaðstoð Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar á tilætlaðan hátt.

Herra forseti. Ég vona að þessar upplýsingar mínar, sem greina frá ástandi og stöðu mála, geti talist fullnægjandi svar við fsp. hv. þm.