26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

113. mál, tryggingar farþega

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hér er beint fsp. til heilbr.- og trmrh. um tryggingar farþega, en það háttar svo til að tryggingaákvæði er að finna í loftferðalögum, í umferðarlögum og í siglingalögum hvað varðar þá þætti sem hér er einkum talað um, þ.e. tryggingar í flugvélum, bifreiðum og skipum, og heyra þar með þau mál undir þau ráðuneyti og þá ráðherra sem fara með þessa málaflokka. Ég mun þrátt fyrir það reyna að gera stuttlega grein fyrir því sem fram kemur í lagaákvæðum um þessa þætti og byggi það svar reyndar að verulegu leyti á upplýsingum frá Ragnhildi Hjaltadóttur, deildarstjóra í samgrn.

Sem svar við fyrri spurningunni, þar sem talað er um tryggingar varðandi þessa tilgreindu fararmáta, segir fyrst um flugvélar: „Ákvæði um ábyrgð flytjenda eru í IX. og X. kafla loftferðalaga nr. 34/1964. Skv. 113. gr. laganna ber flytjandi ábyrgð á því ef farþegi lætur lífið eða hlýtur líkamsmeiðsl eða heilsutjón af völdum atburðar sem gerist í loftfari eða þá er farið er upp í loftfar eða úr því. Í 118. gr. sömu laga eru ákvæði um sérstaka takmörkun bótaábyrgðar. Hámark á ábyrgð flytjanda vegna hvers einstaks farþega eru 36 500 gullkrónur sem nú eru nálægt 830 þús. kr. Semja má um hámark ábyrgðar. Reglur loftferðalaga koma og fram í reglum um vátryggingu vegna loftferða nr. 116 1965.“

Um bifreiðar segir: „Í lögum nr. 53/1987, um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, og í lögum nr. 36/1970, um leigubifreiðar, er ekki að finna ákvæði um ábyrgð flytjanda. Vátryggingafjárhæðir ábyrgðartrygginga ökutækja skv. 1. og 2. mgr. 70. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 31/1980, eru 38,8 millj. kr. fyrir hvert vélknúið ökutæki sem flytja má fleiri en tíu farþega, en 19,4 millj. kr. fyrir önnur, sbr. auglýsingu nr. 87/1987.“

Um skip segir: „Ákvæði um flutninga á farþegum og farangri eru í V. kafla siglingalaga nr. 34/1985.

Skv. 137. gr. er farsala skylt að bæta tjón er hlýst af því að farþegi lætur lífið eða slasast meðan á ferð stendur ef tjónið byggist á sök hans eða manna sem hann ber ábyrgð á. Í 141. gr. laganna er fjallað um sérstaka takmörkun á ábyrgð farsala, en lögin skilgreina farsala sem þann sem í atvinnuskyni eða gegn þóknun í viðskiptaaugnamiði tekur að sér eftir samningi að flytja með skipi farþega eða farþega og farangur. Ábyrgð farsala skv. 141. gr. skal ekki fara fram úr 100 000 SDR fyrir hvern farþega sem hefur látist eða slasast eða um 5 millj. ísl. kr. Eru þar ekki meðtaldir vextir eða málskostnaður. Með samningi farþega og farsala er heimilt að hækka ábyrgðartakmörkin.

Í IX. og X. kafla siglingalaga eru ákvæði um ábyrgð útgerðarmanns og um almenna takmörkun bótafjárhæðar. Almenn er takmörkunin kölluð til aðgreiningar frá sérstakri takmörkun bótaábyrgðar, t.d. farsala skv. 141. og 142. gr. Í 177. gr. eru ábyrgðartakmörk útgerðarmanns vegna þess að farþegi skipsins andast eða slasast. Samkvæmt því eru ábyrgðarmörkin 46 666 SDR eða um 2,3 millj. ísl. kr. sem margfölduð er með hæstri leyfilegri farþegatölu samkvæmt vottorðum skipsins, þó að hámarki 25 millj. SDR eða 1250 millj. ísl. kr. Vegna annarra krafna, sem rísa út af líkamstjóni, eru ábyrgðarmörkin 330 þús. SDR eða um 16,5 millj. kr.

Ákvæði 177. gr. siglingalaganna varða almenna takmörkun bótafjárhæðar. Það reynir því ekki á 177. gr. siglingalaganna nema mikið slys á farþegum hljótist af einstökum atburði, t.d. ef skip ferst sem flytur eða flytja má 20 farþega.

Kröfur vegna 20 farþega takmarkast eftir 1. mgr. 141. gr. við 20 sinnum 100 þús. SDR eða alls 2 millj. SDR sem er um 100 millj. ísi. kr. Heildarábyrgð útgerðarmanns vegna farþega yrði hér ekki takmörkuð við 2 millj. SDR heldur 20 sinnum 46 666 SDR eða alls 933 þús. SDR sem er um 47 millj. ísl. kr. Reglan um sérstaka takmörkun í 1. mgr. 141. gr. víkur fyrir ákvæði 177. gr., um almenna takmörkun.“

Þetta er mikil tilvitnun í lagabálka og lagagreinar, en ég vona að þegar menn fá þetta prentað fyrir framan sig sé þetta auðveldara að átta sig á og skilja.

Sem svar við 2. spurningunni, sem hljóðar svo: „Stendur til að samræma þessar tryggingar?", vil ég segja að tryggingar á farþegum í lofti og á sjó eru bundnar ákvæðum í loftferðalögum og siglingalögum. Loftferðalög og siglingalög heyra undir samgrn. Í samgrn. er nú unnið að endurskoðun trygginga vegna loftflutninga. Í umferðarlögum eru ákvæði um ábyrgðartryggingar vélknúinna ökutækja og heyra þau undir dómsmrn. Samræming trygginga farþega í flugvélum, bifreiðum og skipum heyrir því undir önnur ráðuneyti en trmrn. sem hefur yfirumsjón með tryggingarstarfsemi og tryggingarskilmálum.

Eins og fram kemur í þessu svari við 2. spurningu hv. fyrirspyrjanda er það því í höndum annarra ráðherra að láta endurskoða tryggingaupphæðir og leita samræmingar. Ég vil hins vegar láta þá skoðun mína í ljós að ég tel á því brýna þörf, einkum hvað varðar tryggingar farþega í flugvélum. Ekki má þó gleyma því að einstaklingarnir sjálfir, sem eru að ferðast, verða að gæta að öryggi sínu og tryggingum og þeir geta sjálfir keypt sér ferða- og slysatryggingar. Það virðist hins vegar landlægt hjá okkur Íslendingum að hugsa fyrst um eignir áður en hugað er að lífi og limum, þ.e. kaupa fyrst tryggingar á húsið, á bílinn, bátinn, innbúið o.s.fiv. áður en hugað er að líftryggingu eða slysatryggingu einstaklingsins. Verst er hins vegar ef menn vita ekki um tryggingar sínar og ábyrgð svo og ábyrgð annarra og telja sig e.t.v. betur og öðruvísi tryggða en raun ber vitni og búa þannig við falskt öryggi, eins og reyndar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda.

Herra forseti. Ég vona að upplýsingar mínar hafi að mestu svarað fsp. þó efnislega heyri málið, sem um er fjallað, undir aðra ráðherra.