26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

113. mál, tryggingar farþega

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og ég geri mér grein fyrir því að mér hefur kannski orðið á í messunni að spyrja hann þessara spurninga, en eins og kom fram í máli hans í lokin ber heilbr.- og trmrh. að hafa yfirumsjón með tryggingarmálum í landinu og leysti hann vel úr spurningum mínum. En svör hans gefa líka tilefni til að beina þeim eindregnu tilmælum til þeirra ráðherra allra sem fara með þessi mál að reyna að taka þessum málum tak. Það er ekki viðunandi að þetta sé svona. Og það er alveg rétt, sem ráðherra sagði í lokin líka, og ég hugsa að menn geti litið í eigin barm þegar þeir fara upp í flugvél eða til útlanda eða hvert sem menn eru að ferðast, að menn kaupa gjarnan farangurstrygginguna en gæta ekkert að því á hvern hátt þeir eru sjálfir tryggðir. Ég held líka að bæði flutningafyrirtækin og reyndar tryggingarfélögin hafi ekki gert nægilega mikið í því að upplýsa fólk um stöðu þess í þessum málum.

Að lokum þakka ég ráðherranum fyrir svör hans og beini þeim eindregnu tilmælum til allra ráðherra sem málin heyra undir að þessi mál verði nú reynt að samræma og upplýsa fólk um hver réttarstaða þess er í þessum málum.