26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

118. mál, veiting útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna

Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 122 er ég með fyrirspurn til viðskrh. um veitingu útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

„1. Hvaða efnisleg nauðsyn knúði ráðherra til að veita sex nýjum aðilum tímabundið útflutningsleyfi á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna í byrjun nóvember?

2. Með hvaða hætti hyggst ráðherra tryggja það að óskipulagður útflutningur frystra sjávarafurða inn á Bandaríkjamarkað skaði ekki gott álit neytenda á áreiðanleik í viðskiptum við Íslendinga með frystar sjávarafurðir með sérstöku tilliti til gæða?"

Segja má að ástæður þessara fsp. séu margþættar. Í fyrsta lagi vekur það furðu að núv. viðskrh. skuli rjúka í að veita umrædd leyfi þegar fyrir hv. Alþingi liggur frv. til laga um að færa þennan þátt í starfsemi viðskrn. yfir í utanrrn. Það var atriði í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar sl. sumar. Varlega sagt er hátterni hæstv. viðskrh. mjög óvenjulegt og ekki alveg í samræmi við drengileg samskipti milli samstarfsaðila.

Í öðru lagi er verið með þessum leyfisveitingum að leggja drög að grundvallarbreytingum í útflutningi og sölu frystra sjávarafurða til Bandaríkjanna. Allir vita að tvö íslensk stórfyrirtæki hafa á liðnum áratugum varið hundruðum milljóna kr. til að byggja upp sterka stöðu Íslendinga í sölu frystra sjávarafurða á þessum mikilvæga markaði. Vegna stærðar sinnar og frumkvæðis hafa Íslendingar verið markaðsráðandi og þar af leiðandi sjálfstæðari í verðlagningu afurðanna en ella. Með því að fjölga útflytjendum er verið að brjóta þetta fyrirkomulag upp og færa það nær erlendum umboðsaðilum sem munu þegar tímar líða fá meira vald yfir sölumálum íslenskra afurða erlendis. Stefna núv. hæstv. viðskrh. er því fráhvarf frá sjálfstæðisstefnu Íslendinga í eigin málum á erlendum mörkuðum eða á erlendri grund, liður í því að verða háðari erlendum umboðsaðilum í meðferð íslenskra afurða erlendis. Sjálfstæði Íslendinga í þessum efnum byggist á sameinuðu átaki fárra stórra fyrirtækja í eigu Íslendinga sjálfra.

Í þriðja lagi: Leyfisveitingar hæstv. ráðherra eiga ekkert skylt við viðskiptafrelsi eða samkeppni. Á hinum hörðu samkeppnismörkuðum heimsins gildir að vera sterkur. Í þeim efnum þarf smáþjóð á samtakamætti að halda. Að dreifa kröftunum með þessum hætti mun skaða hagsmuni Íslendinga, því miður, þegar yfir lengri tíma er litið. Erlendis keppum við við erlenda aðila um markaðsstöðuna en ekki við okkur sjálfa. Erlendir aðilar, sem selja víða um heim, gera sér fulla grein fyrir þessari staðreynd. Ég nefni sem dæmi að stærstu matvælafyrirtæki heimsins veita einkaumboð um allan heim, m.a. á Íslandi. Til hvers? Til að fyrirbyggja undirboð, lægra verð og lakari viðskiptakjör. Nú ætlar hæstv. viðskrh. að opna þessar gáttir á erfiðum og viðkvæmum markaði og veikja þar með stöðu Íslendinga.

Í fjórða lagi: Hæstv. viðskrh. gerði ekki svo lítið að ræða við þá aðila sem hafa byggt upp þennan markað með mikilli fyrirhöfn og kostnaði á liðnum áratugum. Hann einn — ég endurtek: hann einn var þess umkominn að taka ákvarðanir um grundvallarbreytingu á framkvæmd mála sem tefla í hættu hagsmunum og afkomu þúsunda manna svo að ekki sé talað um eignahagsmunum.

Því miður er erfitt að kalla stjórnmálamenn til ábyrgðar þegar illa fer um framkvæmd mála vegna stjórnunarlegra aðgerða í skjóli laga og reglna og þess valds sem ráðherra hefur. Það eru aðrir sem bera hitann og þungann af þessum málum og ábyrgðina alla. Það er fólkið sjálft í atvinnulífinu en ekki þeir stjórnmálamenn sem taka ákvarðanir með þessum hætti. En vonandi mun geðþóttaákvörðun hæstv. viðskrh. ekki valda þeim skaða sem margir óttast.

Þess er að vænta að framleiðendur þessara afurða og það fólk sem starfar hjá þeim standi saman í sterkum íslenskum fyrirtækjum sem geta mætt hinni hörðu erlendu samkeppni. (Forseti: Ég vek athygli hv. ræðumanns á að hann hefur þegar farið mjög ríflega fram úr ræðutíma sínum.) Já, hæstv. forseti. Ef ég fæ ekki að ljúka þessu hlýt ég að leita réttar míns með öðrum hætti. En málið er þess eðlis að maður hlýtur að fá að ljúka sínu máli. (Forseti: Það er ekki ástæða fyrir þau orð sem hv. ræðumaður viðhafði hér. Hann veit og allir þm. eiga að vita að það gilda jafnt þingsköp fyrir hvaða þm. sem er.) Ég virði það, hæstv. forseti, og skal þá ljúka máli mínu.

Því miður leyfir tíminn ekki að ég fjalli nánar um fleiri atriði þessu máli viðkomandi og lýk ég því máli mínu.