26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

118. mál, veiting útflutningsleyfa á frystum sjávarafurðum til Bandaríkjanna

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég kem hingað til að lýsa sérstakri ánægju minni með þær leyfisveitingar sem átt hafa sér stað. Þar er brotið upp það sölukerfi sem verið hefur, sölukerfi sem markast hefur af einokun en aðrir látnir sitja til hliðar. Ég tel að með þessu verði aðstaða okkar á Bandaríkjamarkaði sterkari og hugvit og dugnaður einstaklinga muni njóta sín betur en áður.

Það veldur mér vonbrigðum að hv. 14. þm. Reykv., þm. Sjálfstfl., skuli nú, eftir að hafa gerst aðili að samþykktum á flokksfundum Sjálfstfl. um aukið frelsi í viðskiptum, bregðast svona við. Nú er verið að losa um hömlur, auka frelsið, og þá vill hann skila því aftur. Svona er það á fleiri sviðum er varðar forustu Sjálfstfl. Má þar nefna frjálst fiskverð.

Tíma mínum er víst lokið, en ég bendi á að það hefur komið fram að það er skröksaga að ekki hafi verið haft samráð við forsrh. og utanrrh. um þessar leyfisveitingar. Ég vil einnig að það komi fram að ég veit að einn aðili af þeim sem fengu þetta leyfi hefur um nokkurt skeið selt frystan fisk til Bandaríkjanna í gegnum Belgíu. Mér finnst mun eðlilegri háttur að losa um útflutningshömlur hér á landi.

Ég lýsi enn vonbrigðum mínum með málflutning sjálfstæðismanna í þessum efnum. Þar virðast vera steinrunnin nátttröll á ferð.