26.11.1987
Sameinað þing: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

132. mál, verndun ósonlagsins

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar góð tillaga um verndun ósonlagsins, flutt af þremur hv. þm. Alþb. Á síðasta þingi var þetta mál einnig til umfjöllunar, þá flutt af hv. varaþm. Framsfl., Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, eins og kom reyndar fram hjá flm., en málið fékk því miður ekki afgreiðslu þar sem svo langt var liðið á þingtímann. Það kom mér því óneitanlega svolítið á óvart að hv. 7. þm. Reykv., Álfheiður Ingadóttir, skyldi velja sér mál til flutnings hér á hinu háa Alþingi sem er svo nýlega tekið upp af þm. annars flokks þótt eflaust sé hún þar í fullum rétti. Ég hafði hugsað mér að endurflytja málið en þar sem við framsóknarmenn eigum nú ráðherra sem mál þetta heyrir undir og ég vissi að hann var þegar farinn að vinna í málinu í samráði við Hollustuvernd ríkisins lét ég það ógert. En aðalatriðið er að sjálfsögðu það að hérna er um gífurlega mikilvægt mál að ræða sem varðar okkur öll hvar í flokki sem við stöndum og hvar á jarðkringlunni sem við búum.

Það er ótrúlega stutt síðan menn uppgötvuðu ósonlagið og gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess fyrir lífið á jörðinni. Mælingar benda til þess að ósonlagið minnki ár frá ári þannig að allir hljóta að sjá að í óefni stefnir verði ekki að gert.

Hv, flm. hefur í sinni tillögu skipt máli þessu í fjóra flokka sem raunar bera allir að sama brunni, þ.e. að gera ráðstafanir til þess að minnka notkun ósoneyðandi efna. Það er minnst á norrænt samstarf í þessu sambandi og þess vegna vil ég segja fyrir mitt leyti að ég hef nýverið verið skipuð í félags- og umhverfismálanefnd Norðurlandaráðs, en undir þá nefnd heyra þau mál sem hér eru til umfjöllunar. Ég mun kynna mér hvort og þá á hvern hátt væri hægt að vinna málinu framgang á þeim vettvangi, en ég veit að verndun ósonlagsins hefur verið þar til umfjöllunar og eins og kemur fram í grg. hafa umhverfismálaráðherrar Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands ákveðið að vinna sameiginlega að því að hætta notkun ósoneyðandi efna á Norðurlöndum eins fljótt og mögulegt er.

Hæstv. forseti. Ég tek að síðustu undir það með hv. flm. að það sem stendur okkur Íslendingum fyrir þrifum nú eins og svo oft áður er það að umhverfismálin heyra ekki undir eitt og sama ráðuneytið, en það er annað mál en engu að síður mikilvægt.