30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

103. mál, samgöngur á Austurlandi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til umræðu er vissulega góðra gjalda verð. Hún snertir einn landshlutann sem býr við mjög erfiðar samgöngur og þar er þörf átaks. Ég tel hins vegar að það sé nauðsynlegt að líta á þetta út frá landinu í heild því að við þekkjum að það er ekki mikil von um stórar úrbætur í einum landshluta nema til komi átak sem varði landið allt og sem stjórnvöld marka og beita sér fyrir hverju sinni.

Ég vil síst af öllu draga úr nauðsyn þeirra framkvæmda sem vísað er til í þessari till. sérstaklega, en ég minni á mál sem ég flutti hér nýlega varðandi jarðgangaáætlun, stefnumótun um langtímaáætlun í jarðgangagerð sem snertir m.a. Austurland og ekki síst Austurland ásamt Mið-Norðurlandi og Vestfjörðum. Það er slíkt átak sem þarf að marka stefnu um hér á Alþingi fyrr en seinna.

Það sem liggur eftir fyrri ríkisstjórn í þessum efnum er svo sannarlega ekki eins og skyldi þar sem dregið var stórkostlega úr þeim framkvæmdahraða sem gert var ráð fyrir í vegáætlun sem rædd var á Alþingi 1983. Í stað þess að verja 2,47% af þjóðartekjum til samgöngumálanna rýrnaði þetta framlag ár frá ári þannig að það var komið niður í 1,4% af þjóðarframleiðslu í góðærinu miðju á síðasta ári. Ég gat þess hins vegar, þegar ég ræddi þessi mál í Sþ. um daginn, að fyrrv. hæstv. samgrh., Matthías Bjarnason, tók vel undir þá ályktun sem vísað var til ríkisstjórnar og stóð að áætlunargerð, að vísu frumdrögum, í sambandi við jarðgangagerð og það er að mínu mati verkefni þingsins nú að taka á því máli og marka um það stefnu, stilla saman einstaka landshluta, áhugamál og verkefni í einstökum landshlutum þannig að við þurfum ekki að horfa fram á þá öfugþróun sem hefur blasað við nú um langt skeið. Það er öðru fremur verkefni þingsins og ég treysti því að hv. þingheimur taki á því máli á yfirstandandi þingi, en það verður ekki gert nema lagt verði fjármagn til þessara mála. Síðasta hæstv. ríkisstjórn gerði ráð fyrir að veita um 1450 millj. kr. beint úr ríkissjóði til vegamála. Þess sér því miður ekki mikið stað í þeim áætlunum sem nú liggja fyrir, en á því væri sannarlega þörf.