30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

103. mál, samgöngur á Austurlandi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hygg að margir taki ekki undir með hv. síðasta ræðumanni að það sé helst að opinberum framkvæmdum að finna að lítil áhersla hafi verið lögð á vegamál. Ég held þvert á móti að flestir séu sammála um að þar hafi grettistaki verið lyft margsinnis og á mörgum stöðum og að ástand vega sé ólíkt betra yfir höfuð að tala en verið hefur. Ég skil hins vegar vel að þeir Austfirðingar hafi mikinn áhuga á að bæta samgöngur milli byggðarlaga austur þar sem eru vægast sagt mjög ófullkomnar og veikburða sums staðar.

En ástæðan fyrir því að ég stóð upp er sú að ég vil biðja þá þingnefnd sem tekur þessa þáltill. til athugunar að athuga að það er jafnþýðingarmikið að huga að því hvernig hægt sé að treysta samgöngur milli Austurlands og Norðurlands og hitt að treysta samgöngur innan byggðarlaga og héraða í þessum landshlutum báðum og tel tímabært að farið verði að huga að því hvernig hægt sé að haga vegagerð milli Austurlands og Norðurlands þannig að sæmilega tryggt samband haldist yfir vetrarmánuðina. Ég vek m.ö.o. athygli á þessu atriði um leið og samgöngumál Austurlands eru hér á dagskrá.